Logi Þórir Jónsson fæddist 1. maí 1945 í Reykjavík. Hann lést á líknardeild Landspítalans 14. desember 2023.

Logi var sonur hjónanna Þóru Jónsdóttur húsmóður frá Stokkseyri, f. 25.1. 1917, d. 10.7. 1997, og Jóns Kristins Steinssonar bifvélavirkja frá Siglufirði, f. 3.11. 1908, d. 25.10. 2000.

Systkini Loga eru Sigurður Steinn, f. 21.7. 1942, og tvíburarnir Smári og Viktoría, f. 15.11. 1948. Viktoría lést 27.1. 1987.

Logi kvæntist Helgu Láru Hólm frá Seyðisfirði 17.1. 1970. Foreldrar Helgu eru Oddný Einarsdóttir Hólm frá Skriðuklaustri, f. 20.10. 1921, d. 13.12. 1986, og Sigurður Óskar Hólm frá Seyðisfirði, f. 30.4. 1913, d. 2.1. 1958.

Logi og Helga hófu búskap í Reykjavík en bjuggu lengst af, eða í hálfa öld, á Selvangi í Mosfellsdal. Árið 1970 eignuðust þau sitt fyrsta barn, dreng sem fæddist og lést 2. mars það ár. Síðan fæddust þeim fjórar dætur: 1) Eva Lára Hólm, f. 14.7. 1971. Dóttir hennar er Ástrós Helga Hilmarsdóttir Hólm, f. 8.12. 1990. Maki Ástrósar er Naim Nefzi og eiga þau dótturina Áróru Amani. 2) Sunna Ósk, f. 8.11. 1973. Maki hennar er Arnar Unnarsson. Sonur Sunnu er Arnar Logi Hólm, f. 11.2. 1993. Kona hans er Lára Ösp Óliversdóttir og eiga þau börnin Atlas Loga og Eldeyju Láru. 3) Jóhanna, f. 20.8. 1976. Maki hennar er Áki Rúnar Sigurðsson. Synir Jóhönnu eru Stefán Hannesson, f. 22.10. 1998, og Þorsteinn Óli Hannesson, f. 31.10. 2000. Unnusta Stefáns er Guðdís Hera Elínardóttir. 4) Oddný Þóra, f. 6.8. 1986. Maki hennar er Hilmar Gunnarsson. Börn þeirra eru Kristófer, f. 6.2. 2011, Logi, f. 6.10. 2014, og Kári, f. 31.7. 2019.

Logi ólst upp í Nökkvavogi í Reykjavík. Að loknu grunnskólanámi hóf hann vélvirkjanám hjá Tækni. Hluta starfsnáms tók hann í Vélsmiðju Seyðisfjarðar á síldarárunum þar sem hann kynntist eftirlifandi eiginkonu sinni.

Hann var dagmaður í vél á Gullfossi 1968-69 en að loknu námi í Vélskóla Íslands 1972 hóf hann störf hjá Veðurstofu Íslands sem tækjafræðingur.

Logi starfaði á áttunda og níunda áratugnum hjá Skipafélaginu Víkum, bæði sem vélstjóri í millilandasiglingum og landvélstjóri og sá þá um viðhald skipanna. Á því tímabili stofnaði hann ásamt öðrum legsteinafyrirtækið Granít sf.

Er þau hjónin fluttu að Selvangi 1974 hófu þau búskap með varphænur og síðar kjúklingarækt sem þau stunduðu allt til 2009. Árið 1989 fékk Logi meistararéttindi í vélvirkjun. Sama ár tók hann við rekstri Ísfugls í Mosfellsbæ og starfaði þar ásamt eiginkonu sinni í aldarfjórðung eða til 2012 er þau seldu hlut sinn í fyrirtækinu.

Haustið 2022 seldu Logi og Helga dóttur sinni Selvang og fluttu í Helgafellshverfið í Mosfellsbæ.

Útför Loga fer fram frá Lágafellskirkju í Mosfellsbæ í dag, 5. janúar 2024, klukkan 13. Streymi:

https://streyma.is/streymi/

Verkfæri, skrúfur og olíublautur tvistur þekja hvern bekk og borð. Rás 2 í botni í útvarpinu. Eitthvert tæki sundurtekið á miðju gólfinu. Pabbi á stuttermabol. Jafnvel nýlegum sem nú er orðinn útataður í svertu. Mamma verður ekki glöð. En pabbi hefur gleymt sér. Ætlað rétt að kíkja út í skúr en svo tekið til við að laga eitthvað. Alltaf að laga eitthvað. Enda 25 ára gömul þvottavél þeirra stálslegin. Sömuleiðis yfir 30 ára örbylgjuofn og álíka gömul uppþvottavél. Það er alltaf hægt að laga hluti. Ekkert er ónýtt.

Á bænum sínum í jaðri Mosfellsheiðar, skammt undan Móskarðshnjúkunum, sat hann sjaldan auðum höndum. Nema þegar hann fór í kaffi og sagði sögur. Af ævintýrum í fjarlægum löndum. Um uppvaxtarárin í Vogahverfinu. Hann sagði gjarnan að þar hefði alltaf verið logn. Stundum ók hann um Vogana, áratugum eftir að hann flutti þaðan, til þess eins að geta sagt okkur að þar væri logn.

Ekki hávaðarok eins og á heiðinni sem hann og mamma völdu að búa okkur heimili á. Þar var í byrjun ekki eitt einasta tré að finna. „Ég ætla að steypa upp í Svínaskarðið svo við fáum logn,“ sagði hann stundum í jökulkaldri norðanáttinni og vonarglampi kviknaði í augum fjögurra lítilla dætra.

En á seinni árum höfum við pabbi kunnað að meta rokið. Og fundum stundum allt að því logn í skjóli trjánna sem hann plantaði. „Það hefur aldrei orðið svo hvasst að það hafi ekki lægt aftur,“ átti hann til að segja.

Það var stundum stormur í huga hans áður fyrr. Hann var sannarlega verklaginn en skorti sömu lagni í samskiptum. Eftir því sem hann eltist breyttist þetta og hann fór að sýna okkur öllum nýjar og mýkri hliðar. „Þið eruð nú meiri krúsídúllurnar,“ sagði hann nýverið.

„Þú ert bestur,“ sagði ég þá.

„Nei, þú ert best,“ svaraði hann.

Síðustu vikurnar átti hann það til að leggja hlýju höndina sína á mína. Þannig sátum við um hríð. Og nú þarf ég aðeins að hugsa um þessa stóru hönd á minni, hramminn sem gat allt, til að finna ylinn.

„Ég verð að muna augu ykkar beggja,“ sagði hann við okkur mömmu undir lokin og horfði rólyndislega á okkur með sínum ógleymanlegu bláu augum. Svo blikkaði hann mig létt í síðasta sinn.

Takk fyrir lífið, hlýjuna og allt hitt, pabbi minn.

Sunna.

„Takk, elsku Minnta mín,“ voru síðustu orðin sem þú sagðir við mig. Það var í símtali nokkrum dögum áður en þú fórst. Þegar ég talaði við þig á líknardeildinni kvöldið 13. desember þá gastu ekki svarað mér en ég vil trúa að þú hafir verið að hlusta. Nú sem það kvöld hugsa ég um allt það góða við okkar samband sem var flókið en jafnframt svo fallegt.

Í áratug var ég litla barnið í fjölskyldunni. Ég var minnst og þess vegna kallaðirðu mig „Minntu“. Þú sagðir mér að þú hefðir keypt mig í dúkkubúð á Spáni. Þú varst mikið á sjó fyrstu árin mín og því varð hálfgerð hátíðarstemning þegar þú komst í land með tösku fulla af dóti, gosi og sælgæti; gersemum útlandanna. Því var ekki útilokað að þú hefðir einmitt keypt mig í dúkkubúð.

Árin liðu og þú fórst að vinna í landi. Í minningunni tók við tími þar sem þú eyddir óratíma í að líma saman litla playmo-karla með stóru höndunum þínum, sofna yfir kvöldfréttum, moka endalausa snjóinn á Selvangi og skamma okkur dætur þínar fyrir að hella djúsþykkni á eldhúsgólfið. Þú gast allt. Þú gast smíðað, gert við traktora, lagt pípulagnir, tengt rafmagn, lagað heimilistæki, forritað tölvur og flogið flugvélarmódelum.

Áður en langt um leið varstu með fullt hús af unglingsdætrum. Ég held að þér hafi staðið þó nokkur ógn af þessum mannverum sem dreifðu hárspreyi, sléttujárnum og mörgum tegundum af hárnæringu um allt baðherbergi. Sem horfðu á þig með uppreisnarglampa í augunum og spiluðu ærandi rokktónlist. Á þeim tíma töluðum við ekki alveg sama tungumálið. Þú skildir ekki af hverju ég vildi vera í rifnum gallabuxum og af hverju ég þurfti hálftíma til að slétta á mér hárið á hverjum morgni. Ég hins vegar skildi ekki af hverju þú þurftir alltaf að horfa á þessar leiðinlegu fréttir og bannaðir mér að fara niður í miðbæ. Þrátt fyrir uppreisn unglingsins bar ég þó alltaf virðingu fyrir þér og á endanum fékkstu að ráða. Nema með rifnu gallabuxurnar, það var ekki umsemjanlegt.

En svo þroskaðist ég. Aðeins alla vega. Við fórum að vinna saman og því varstu ekki bara pabbi minn heldur varstu líka yfirmaður minn og samstarfsfélagi í 16 ár. Það gekk nú oft á ýmsu en þegar ég lít til baka er ég þakklát fyrir þennan tíma. Að hafa fengið að hitta þig daglega, alla morgunkaffibollana okkar og allt spjallið. Þú varst einstaklega heiðarlegur og góður yfirmaður sem var annt um allt þitt starfsfólk. Þú kenndir mér svo margt og þá kannski aðallega með því að láta mig byrja að vinna á botninum því litla „Minnta“ fékk sko enga sérmeðferð þegar kom að vinnu.

Þú kenndir mér ótal margt, elsku pabbi. Þú varst svo fordómalaus, hjálpsamur og örlátur. Velvilji þinn og virðing í garð dýra mun lifa áfram í okkur dætrum þínum og barnabörnum. Samkennd þín með öllum sem minna mega sín var einlæg. Ég mun halda áfram að styðja og styrkja í þínu nafni um ókomna tíð. Eins og ég sagði við þig kvöldið áður en þú kvaddir þennan heim: Þetta er allt í lagi. Þú mátt hvíla þig. Við systurnar skulum passa mömmu og Selvang.

Elska þig alltaf,

Jóhanna
Logadóttir
Hólm.

Elsku besti pabbi minn.

Það er svo óraunverulegt að þú sért farinn. Það hellist yfir mig annað slagið að ég geti ekki sest aftur niður með þér og drukkið kaffi og spjallað um allt og ekkert, fengið ráð og skipst á skoðunum hvert samfélagið sé nú að fara. Skyndilega var sterki pabbi minn orðinn veikur og svo allt of stuttu síðar farinn frá okkur. Kannski rímar það ágætlega við karakterinn þinn, sem aldrei kvartaðir, fannst erfitt að þiggja hjálp og hvað þá að vera sjúklingur, að segja þetta bara gott þegar ljóst var í hvað stefndi.

Þú hafðir alltaf svo mikinn áhuga á því sem ég var að gera og studdir mig í einu og öllu. Allt frá því að smíða alls konar dót þegar ég var lítil, klifurgrindur, jafnvægisslá fyrir fimleikana eða alvöru prinsessukórónu og yfir í að laga bíla eða draga þá fasta úr snjó og passa strákana þegar ég var orðin eldri. Alltaf varstu tilbúinn að gefa mér góð ráð og spjalla um það sem ég var að fást við, þú varst svo stoltur af mér.

Það voru algjör forréttindi að fá að alast upp á Selvangi, í sveitinni. Orkumikil stelpa fékk næga útrás og gat alltaf fundið eitthvað að dunda, reka spítala fyrir veika kjúklinga, fara á línuskauta í ungahúsinu þegar það var tómt og gleymt sér með hestunum úti í girðingu. Þó svo að þú ynnir fulla vinnu (stundum fleiri en eina) og sinntir búskapnum með hafðir þú alltaf tíma fyrir mig og mínar hugdettur. Takturinn í sveitinni var bara einhvern veginn annar. Mér finnst ég hafa verið virkilega heppin með æskuárin og á svo margar góðar minningar sem ég verð nú að láta mér nægja að ylja mér við um ókomna tíð.

Hvíldu í friði, elsku pabbi minn.

Að eilífu pabbastelpa,

Oddný Þóra.

Sunna mín sagði eitt sinn að ég mætti eiga pabba hennar með henni. Það var góð gjöf. Þvílíkur maður. Allar þessar sögur! Hann hafði merkilegt nokk mikla trú á mér og lét eins og ég gæti lært allt. Það var líka dýrmæt gjöf.

Elsku Logi minn, ég mun gera mitt besta við að halda býlinu þínu fallegu.

Við kveðjum þig, vinur, í síðasta sinn

og söknuður hug okkar fyllir.

Nú minningar vakna um vinskap og tryggð

er vorsólin tindana gyllir.

Nú þakkað skal allt sem við áttum með þér,

það ætíð mun hug okkar fylla.

Brátt sumarið kemur með sólskin og yl

þá sólstafir leiðið þitt gylla.

(Aðalheiður Hallgrímsdóttir)

Arnar Unnarsson.

Nú ríkir kyrrð í djúpum dal … og hálfa leið upp á Mosfellsheiði.

Í dag fylgjum við tengdaföður mínum síðasta spölinn, blessuð sé minning hans.

Úrræðagóður maður sem allt vissi um gröfur, glussa, borholur, veður, tæki, tól og hvaðeina. Nú, ef hann vissi ekki hlutina upp á hár þá var hann búinn að afla sér þeirrar þekkingar áður en langt um leið.

Mér var vel tekið á Selvangi frá því ég kynntist yngstu Logadótturinni. Það var alla tíð gott að koma í sveitina, fyrst með Oddu og síðar með strákana okkar þrjá. Afi nennti endalaust að hnoðast með þeim og snúast í kringum þá. Ýmislegt brallað og margt fróðlegt að sjá og upplifa.

Minnisstæð eru mér sérstaklega augnablik þegar ég náði honum í einrúmi í ungahúsinu og bað um hönd dóttur hans. Eftir á að hyggja kannski vel við hæfi að slík bón færi fram innan um hænurnar þegar um hönd örverpisins var að ræða. Ég er ekki frá því að kjúklingabóndinn hafi verið talsvert upp með sér við þetta tilefni og gaf góð ráð inn í framtíðina.

Eins er gaman að rifja upp þegar litli Loginn okkar var skírður í höfuðið á afa sínum. Þá held ég að hjartað í gamla manninum hafi tekið kipp, þar sem hann stóð með upptökuvélina í höndunum á heimili okkar í Spóahöfðanum.

Odda er langyngst systranna og oft hef ég gantast með það að Logi væri bæði pabbi hennar og afi. Missirinn er mikill. Loganum höldum við á lofti um ókomna tíð og minnumst góðra stunda.

Á aðventunni, þegar ljóst var í hvað stefndi, heyrði ég ljóð sem ég læt fylgja brot úr:

Það ljós hefur tindrað aldir og ár

yljað um dali og voga.

Þó kertið sé lítið og kveik urinn smár

mun kærleikur fylgja þeim loga.

Takk fyrir okkur.

Hilmar Gunnarsson.

„Ég vildi óska þess að ég gæti leikið mér svona“ eða „ég fæ aldrei að gera neitt þessu líkt“. Svona hljómuðu flest svör við sögum frá Selvangi og því sem ég hafði brallað með afa í sveitinni þegar ég sagði bekkjarfélögunum í grunnskóla þær. Aldrei höfðu þeir smíðað kassabíl eða fengið að setja urriða í heita pottinn. Væntanlega hefðu flestir afar fussað yfir því að heiti potturinn væri tekinn í gíslingu yfir heilt sumar, en ekki afi minn. Hann fór í Fóðurblönduna og sótti eldisfóður handa þeim, sendi myndir af þeim á Hóla í kyngreiningu og útbjó síðan handa mér litla kví sem ég svo dröslaði niður að Leirtjörn og setti í seiði sem ég háfaði upp. Svo má ekki gleyma hugdettunni um að moka garðinn hennar ömmu í sundur og gera risastóra holu í hann, dúkleggja og fylla af vatni og búa til tjörn. Með afa gat ég látið alla drauma rætast.

Bátar, þeir hafa líka verið í uppáhaldi. Allir þessir klukkutímar sem við eyddum niðri í kjallara í „Bátaverkstæði Arnars og Loga“ gleymast aldrei. Ég hef sjaldan montað mig jafn mikið á ævinni og þegar ég sagði félögunum frá landhelgisgæsluskipinu sem ég var að smíða með afa. Skipið var með byssu sem hreyfðist og hátalara sem líkti eftir díselmótor. Aldrei hugsaði ég út í hvort afi gæti smíðað bát með mér, ég vissi alltaf að hann gæti gert allt.

Aldrei lenti ég í því að hann vissi ekki eitthvað sem ég spurði um. Hann hafði einfaldlega alltaf svör við öllum mínum spurningum og ýtti undir allar hugmyndir mínar. Ekkert var ómögulegt. Að einn maður hafi lært allt það sem afi minn vissi finnst mér kraftaverki líkast.

Fyrir nokkrum árum var ég í vandræðum með að finna húsnæði. Þá fæddist sú hugmynd að ég myndi smíða mitt eigið hús í sveitinni enda hóf ég að læra smíðar um þetta leyti. Afi tók strax vel í þetta og hjálpaði mér við allan undirbúning. Hann fylgdist spenntur með litla húsinu rísa og áfram héldum við að búa til góðar og fallegar minningar saman í sveitinni okkar. Óteljandi stundir áttum við í bílskúrnum að spjalla. Um sannarlega allt milli himins og jarðar.

Afi var mér innblástur alla tíð og verður það áfram. Ef það er einhver sem ég hef litið upp til í lífinu og vil líkjast þá er það hann.

Afi minn. Að alast upp með þér voru forréttindi. Ég var ekki auðveldasta barnabarn í heimi en þú lést mér alltaf líða eins og prinsi. Ég verð þér eilíflega þakklátur og hlakka til að kenna börnunum mínum allt það sem þú kenndir mér. Nafni þinn, Atlas Logi, er þegar farinn að hlusta á sögur um þig – manninn sem lét draumana rætast.

Arnar Logi
Hólm.

• Fleiri minningargreinar um Loga Þóri Jónsson bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga.