Sigurður Árni „Það tók mig nokkuð langan tíma að finna út hvað ég ætti nákvæmlega að sýna.“
Sigurður Árni „Það tók mig nokkuð langan tíma að finna út hvað ég ætti nákvæmlega að sýna.“ — Morgunblaðið/Eyþór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Heilagir skuggar er yfirskrift sýningar Sigurðar Árna Sigurðssonar í Y gallery, sem er staðsett í gömlu Olís-bensínstöðinni í Hamraborg. Þar sýnir Sigurður Árni skúlptúr og vatnslitamyndir. „Það er nokkuð síðan Olga Lilja Ólafsdóttir og…

Kolbrún Bergþórsdóttir

kolbrun@mbl.is

Heilagir skuggar er yfirskrift sýningar Sigurðar Árna Sigurðssonar í Y gallery, sem er staðsett í gömlu Olís-bensínstöðinni í Hamraborg. Þar sýnir Sigurður Árni skúlptúr og vatnslitamyndir.

„Það er nokkuð síðan Olga Lilja Ólafsdóttir og Sigurður Atli Sigurðsson sem reka galleríið töluðu um það við mig að sýna þar,“ segir Sigurður Árni.

„Mér finnst þetta gallerí stórkostlegt. Það er reyndar varla hægt að tala um gallerí vegna þess að þarna er einn veggur og svo bara gluggar. Þannig er þetta miklu frekar svið en gallerí. Þessi tegund af sýningarrými gerði að verkum að það tók mig nokkuð langan tíma að finna út hvað ég ætti nákvæmlega að sýna. Það er nauðsynlegt að vinna með salinn, verkin þurfa að passa þessu rými.

Ég hef verið að vinna að vatnslitaverkum síðustu mánuði, sennilega er ég að hvíla mig aðeins á olíunni og stóru málverkunum. Eitt af því sem ég hef verið að skoða eru skuggar frá styttum dýrlinga í kaþólskum kirkjum sem ég útfæri í vatnslit. Mér datt svo í hug að taka form skugganna og skera út í gegnsætt plexígler sem stendur á gólfi og varpar aftur skugga, eins konar skuggavarp af skugga. Þegar þetta frístandandi form var komið sá ég fyrir mér þessa sýningu. Þá var komið þetta samtal milli vatnslitaverka og formsins á miðju gólfi og um leið við allt rýmið, bæði innan og utan við glugga gallerísins.“

Líkneski af dýrlingi

Skúlptúrinn, sem gerður er úr plexígleri, er eins konar líkneski af manneskju sem snýst á miðju gólfi. „Hún snýst á sama hraða og ef maður keyrir hringinn í kringum galleríið á bíl og horfir inn um gluggana. Þannig snýst áhorfandinn með heilagri Maríu,“ segir Sigurður Árni.

Þetta er þá María mey? spyr blaðamaður og listamaðurinn svarar: „Ég held að það fari ekki á milli mála að skúlptúrinn ber öll merki þess að vera líkneski af dýrlingi. Hvort þetta sé María eða einhver annar dýrlingur skal ósagt látið.“

Vinnur með skuggann

Skuggar koma því mjög við sögu á þessari sýningu eins og oft áður í verkum Sigurðar Árna. „Já, ég er ég að vinna með skuggann og þá sérstaklega skugga sem varpast frá helgum styttum sem maður sér í kaþólskum kirkjum. Hugmyndin kom þegar ég var eitt sinn staddur í lítilli kirkju í Frakklandi þar sem var Maríulíkneski. Tveir kastarar lýstu líkneskið upp og í bogadreginni hvelfingu bak við bjöguðust skuggarnir og fengu sjálfstætt líf. Þetta var óskaplega fallegt og upphafið á því að ég fór að skoða hvernig tveir skuggar sem skarast mynda þriðja skuggann og um leið þriðju persónuna þegar þeir leggjast saman. Þegar unnið er með skuggann einan og sér en ekki formið sem varpar skugganum, þá fer hugurinn af stað og ímyndunaraflið tekur völdin. Áhorfandinn þarf að ímynda sér eitthvað sem býr til skuggann og um leið er hann að búa til eitthvað sem er hvergi til nema í höfði áhorfandans.

Það er mjög fallegt að heilagir menn skuli varpa skugga vegna þess að maður hefur stundum á tilfinningunni að heilagir menn séu svo heilagir að þeir séu nánast ómannlegir. Skugginn jarðtengir allt, gerir jafnvel heilaga menn mannlega og þeir koma nær manni, sem er fallegt. Styttan í þessu rými snýst og varpar skuggum og verður hluti af fólkinu sem gengur hér um. Bæði áhorfendur og styttan varpa sams konar skuggum á gólf og veggi. Þannig verður til tenging milli styttu og áhorfanda og maður getur farið að upplifa dýrlinginn mjög mannlegan eða sjálfan sig mjög heilagan eða kannski er þetta eins konar tilbeiðsla, eins og skrifað er í stuttum texta sem fylgir sýningunni eftir Jón Proppé,“ segir Sigurður Árni.

Y gallery er opið á laugardögum milli kl. 14-17 og þessi áhugaverða sýning stendur til 20. janúar.