Sjávarútvegur Guðmundur Sigurðsson, Höskuldur Arason, Gunnar Ólafsson og Gísli Níls Einarsson stofnendur Öldu Öryggis. Fyrirtækið hefur unnið að prófunum á nýju kerfi frá því í febrúar í fyrra.
Sjávarútvegur Guðmundur Sigurðsson, Höskuldur Arason, Gunnar Ólafsson og Gísli Níls Einarsson stofnendur Öldu Öryggis. Fyrirtækið hefur unnið að prófunum á nýju kerfi frá því í febrúar í fyrra.
„Það er talað um að á heimsvísu sé Ísland kísildalur sjávarútvegs og við viljum að öryggi sjómanna verði ein af grunnstoðunum í uppbyggingu sjávarútvegs hér á landi,“ segir Gísli Níls Einarsson, framkvæmdastjóri nýsköpunarfyrirtækisins Öldu Öryggis

Magdalena Anna Torfadóttir

magdalena@mbl.is

„Það er talað um að á heimsvísu sé Ísland kísildalur sjávarútvegs og við viljum að öryggi sjómanna verði ein af grunnstoðunum í uppbyggingu sjávarútvegs hér á landi,“ segir Gísli Níls Einarsson, framkvæmdastjóri nýsköpunarfyrirtækisins Öldu Öryggis.

Alda Öryggi er nýsköpunarfyrirtæki sem vinnur að því að þróa öryggisstjórnunarkerfi um borð í fiskiskipum og nýtir til þess stafrænar lausnir. Gísli segir að sérstaða fyrirtækisins liggi í því að lausnirnar eru þróaðar í samstarfi við sjómenn, skipstjórnarmenn og útgerðir.

„Tilgangur fyrirtækisins er að einfalda allt utanumhald öryggismála á sjó með stafrænum leiðum,“ segir Gísli og bætir við að Ísland hafi náð eftirtektarverðum árangri í að fækka banaslysum á sjó.

„Það verða þó enn of mörg slys á sjó, eða á annað hundrað, og sum hver eru mjög alvarleg, með óafturkræfu líkamstjóni með tilheyrandi kostnaði fyrir samfélagið.“

Gísli segir að hugbúnaðurinn hafi verið í þó nokkurn tíma í þróun og þeir hafi lagt sig fram við að vanda undirbúningsvinnuna vel.

„Við tókum viðtöl við skipstjóra, sjómenn og fleiri og fórum yfir öll þau atriði er snúa að öryggismálum á sjó. Síðan skellti ég mér á sjó í vikutúr með línubátnum Sighvati hjá Vísi og þar fékk ég dýrmæta innsýn í öryggismálin á sjó.“

Í samstarfi við tíu sjávarútvegsfyrirtæki

Gísli segir að upphaflega hafi Alda Öryggi aðeins verið rekið á styrkjum. Það breyttist þó þegar fyrirtækið fékk 20 milljóna króna fjármögnun frá Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins og annað eins frá öðrum fjárfestum rétt fyrir jól.

„Í kjölfarið fengum við níu íslenskar útgerðir til að fjárfesta í þessu verkefni og líka eina erlenda útgerð. Það gerði það að verkum að við gátum ráðið starfsmenn í vinnu og við erum nú tíu starfsmenn, bæði í fullu og hlutastarfi, sem störfum hjá fyrirtækinu í dag,“ segir hann.

Haustið 2022 gaf fyrirtækið út frumgerð sem sjávarútvegsfyrirtækin Vísir, Gjögur og Skinney-Þinganes prófuðu. Síðan fréttu fleiri fyrirtæki af öryggisstjórnunarkerfinu og sýndu áhuga og þá bættust í hópinn Samherji, Síldarvinnslan, Þorbjörn, Nesfiskur, Vinnslustöðin og Bergur-Huginn.

Gísli segir að fyrirtækið hafi unnið hörðum höndum að notendaprófunum frá því í febrúar á síðasta ári en það eru um 30 fiskiskip sem hafa tekið þátt í þessum prófunum.

„Fyrsta útgáfa af öryggisstjórnunarkerfinu er nú klár og fer formlega í loftið um miðjan janúar. Við stefnum síðan að því að selja búnaðinn í næsta mánuði. Við stefnum að því að fá enn fleiri skip í þjónustu okkar þegar fram líða stundir.“

Ýtir undir öryggisvitund

Spurður hvaða viðbrögð öryggisstjórnunarkerfið hafi fengið segir Gísli skýrasta dæmið af því vera þegar einn útgerðarstjórinn sagði við hann að hugbúnaðurinn væri mesta bylting sem hann hefði séð í öryggismálum sjómanna síðan Slysavarnaskóli sjómanna var settur á laggirnar.

„Það var virkilega gaman að heyra. Skipstjórnendur sem hafa tekið þátt í notendaprófunum okkar eru á einu máli um að þetta hafi ýtt undir öryggisvitund um borð og virkjað sjómennina, en sjómenn hafa aðgang að kerfinu í gegnum app í símanum sínum,“ segir Gísli.

Öryggisstjórnunarkerfið safnar tölfræði sem Gísli segir að sé einstök á heimsvísu og sýni hvað við á Íslandi erum að gera í forvirkum aðgerðum til að koma í veg fyrir slys á sjó á sama tíma og kerfið samræmi skipulag og framkvæmd öryggismála hjá íslenskum útgerðum.

„Tölfræðin í notendaprófunum sýnir að við erum búnir að gera 965 úttektir um borð í skipunum á öryggisbúnaði, halda 473 öryggisæfingar og 380 nýliðaprófanir. Búnaðurinn hefur heilmikla möguleika, er enn í þróun og við hlökkum til að halda áfram að bæta öryggismálin á sjónum í samstarfi við sjávarútveginn,“ segir Gísli að lokum.