Á verði Hermaður úr röðum Úkraínuhers sést halda á léttri loftvarnaskotflaug, svokallaðri MANPADS. Mikill skortur er á slíkum varnarvopnum.
Á verði Hermaður úr röðum Úkraínuhers sést halda á léttri loftvarnaskotflaug, svokallaðri MANPADS. Mikill skortur er á slíkum varnarvopnum. — AFP/Anatolii Stepanov
Umfangsmiklum loftárásum Rússa á borgir Úkraínu er ætlað að draga úr vilja fólks til átaka og eyða sem flestum loftvarnaflaugum Úkraínuhers

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Umfangsmiklum loftárásum Rússa á borgir Úkraínu er ætlað að draga úr vilja fólks til átaka og eyða sem flestum loftvarnaflaugum Úkraínuhers. Þetta er álit hernaðarsérfræðinga sem fréttaveita AFP leitaði til. Mikilvægt er að Vesturlönd sendi Úkraínu fleiri loftvarnakerfi, einkum eldflaugar.

Rússland skaut nærri 300 eldflaugum og yfir 200 árásardrónum á skotmörk innan landamæra Úkraínu 29. desember síðastliðinn og dagana 1. til 2. janúar. Talið er að árásirnar hafi kostað um 50 manns lífið, karlmenn, konur og börn.

Stjórnvöld í Kænugarði segja hersveitir Rússlands skjóta sprengjum sínum á íbúðakjarna í þéttbýlum borgum. Þessu neitar Moskvuvaldið sem segir árásir Rússlandshers beinast eingöngu að hernaðarlega mikilvægum skotmörkum.

Rússar hafa gefið hressilega í

Hernaðarsérfræðingur hjá CSIS-hugveitunni í Washington segir þessar miklu loftárásir eiga að varpa ljósi á getu Úkraínu til loftvarna. En síðastliðna 18 mánuði hafa bandamenn Úkraínu, einkum Bandaríkin, afhent Kænugarðsstjórninni vestræn loftvarnakerfi, m.a. svonefnt Patriot. Segist þessi sami sérfræðingur Rússa nú treysta á að Úkraína klári loftvarnir sínar áður en Rússland klárar eldflaugar sínar og árásardróna.

Nýlegar loftárásir þykja benda eindregið til að Rússar hafa aukið mjög eigin hergagnaframleiðslu á sama tíma og hægt gengur að útvega Úkraínu öflug loftvarnakerfi. Mun tímafrekara sé að búa til loftvarnaflaugar en einfalda árásardróna á borð við þá sem Rússlandsher notar.

Þá telur varnarmálaráðuneyti Bretlands ljóst að hergagnaverksmiðjur Úkraínu séu nú regluleg skotmörk. Áður lagði Moskvuvaldið meiri áherslu á að granda orkuinnviðum.

Úkraínumenn hafa nú lengi beðið um auknar loftvarnir og hafa m.a. farið fram á að Vesturlönd afhendi þeim orrustuflugvélar af gerðinni F-16. Þótt búið sé að þjálfa hóp flugmanna á vopnakerfið er enn óljóst hvenær þoturnar eftirsóttu komast í hendur Úkraínumanna.