Hlutabréfavelta var um 6,7 ma.kr. í gær.
Hlutabréfavelta var um 6,7 ma.kr. í gær.
Nokkur hækkun varð á gengi hlutabréfa í Kauphöllinni í gær. Úrvalsvísitalan hækkaði um 1,8% í um 6,7 milljarða króna veltu. Gengi bréfa í öllum félögum hækkaði að einu undanskildu, Icelandic Seafood þar sem gengið lækkaði um 0,9%

Nokkur hækkun varð á gengi hlutabréfa í Kauphöllinni í gær. Úrvalsvísitalan hækkaði um 1,8% í um 6,7 milljarða króna veltu. Gengi bréfa í öllum félögum hækkaði að einu undanskildu, Icelandic Seafood þar sem gengið lækkaði um 0,9%.

Gengi bréfa í Hampiðjunni hækkaði mest, eða um 6,8% í um 320 milljóna króna veltu. Gengi félagsins hefur ekki verið svo hátt síðan í febrúar sl. og hefur nú hækkað um 20% á einum mánuði.

Þá hækkaði gengi bréfa í Regin um 5% í um 260 milljóna króna viðskiptum og gengi bréfa í Íslandsbanka um 4,7% í 370 milljóna króna viðskiptum. Gengi bréfa í Íslandsbanka hefur nú hækkað um rúm 20% á liðnum sex vikum.

Gengi bréfa í Skel hækkaði í gær um 3,9% í um 780 milljóna króna veltu. Það má að stórum hluta rekja til þess að einn stærsti hluthafi félagsins, fjárfestingarfélagið RES 9 ehf., seldi í gær hlut fyrir um 623 milljónir króna við lokun markaða. RES 9 er í eigu þeirra Guðna Rafns Eiríkssonar, eiganda Skakkaturns sem rekur verslanir Eplis, og Sigurðar Bollasonar athafnamanns. Guðni Rafn er stjórnarmaður í Skel ásamt því að vera stjórnarformaður RES 9 ehf. Þá er Sigurður eiginmaður Nönnu Bjargar Ásgrímsdóttur sem er stjórnarmaður í Skel. RES 9 ehf. átti fyrir söluna um 2% hlut í Skel.