Árið 2023 voru 340 þúsund rúmmetrar af sandi fjarlægðir úr og við Landeyjahöfn, eða 100 þúsund rúmmetrum meira en árið 2022. Þrátt fyrir það var oftar ófært til Landeyjahafnar að hluta eða öllu leyti, vegna dýpis eða veðurs, í fyrra en 2022

Árið 2023 voru 340 þúsund rúmmetrar af sandi fjarlægðir úr og við Landeyjahöfn, eða 100 þúsund rúmmetrum meira en árið 2022. Þrátt fyrir það var oftar ófært til Landeyjahafnar að hluta eða öllu leyti, vegna dýpis eða veðurs, í fyrra en 2022.

Þetta kemur fram á vef Vegagerðarinnar. Skýringin felist í mun meiri efnissöfnun við höfnina vegna stöðugrar austanöldu. Hún hafi haft í för með sér töluvert meiri efnisflutning framan við Landeyjahöfn en á venjulegu ári, vegna aurburðar við ósa Markarfljóts.

Vegagerðin samdi við Björgun um vetrardýpkun með það að markmiði að halda höfninni opinni eins lengi og hægt yrði. Björgun hefur notað skipið Álfsnes til dýpkunar, en nokkur vandamál hafa komið upp varðandi skipið síðan það hóf dýpkun í Landeyjahöfn. Sér nú fyrir endann á því þar sem Álfsnes hefur fengið mikið viðhald að undanförnu.

Vegagerðin gerði ráð fyrir afkastamiklu dýpkunarskipi við höfnina til að hægt væri opnað hana á einum til tveimur dögum með því að dæla 12 þúsund rúmmetrum á sólarhring. Afköst allra dýpkunarskipa eru hins vegar takmörkuð þegar grunnt er í höfninni og sæta þarf færis milli flóðs og fjöru. Þannig getur Álfsnes aðeins unnið sex tíma á dag þegar dýpið er um 3,5 til 4 metrar sem minnkar afkastagetuna.

Annar þáttur sem hefur áhrif er að á flóði, þegar hægt er að dýpka, siglir Herjólfur tvær ferðir í Landeyjahöfn. Í hvert sinn þarf dýpkunarskipið að víkja fyrir ferjunni, sem tekur um klukkustund allt í allt. klaraosk@mbl.is