Ísleifur fæddist á Ísafirði 14. ágúst 1946 en ólst upp í Vesturbæ Reykjavíkur og Maryland í Virginíuríki í Bandaríkjunum. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands 22. desember 2023.

Foreldrar Ísleifs voru Ragnhildur Guðrún Finnbjörnsdóttir og Gísli Ísleifsson, fósturfaðir James Daniel Ellis. Fjóla Karlsdóttir var seinni kona Gísla. Foreldrar Ragnhildar voru Finnbjörn Finnbjörnsson málarameistari á Ísafirði, sonur Finnbjörns Elíassonar bátasmiðs og Halldóru Halldórsdóttur, og Sigríður Þórðardóttir, dóttir Þórðar Jóhanns Jenssonar verslunarmanns á Flateyri og Ingibjargar Guðrúnar Guðbjartsdóttur. Foreldrar Gísla voru Ísleifur Árnason, prófessor í lögum og borgardómari i Reykjavík, sonur Árna Ásgríms Þorkelssonar, hreppstjóra og dannebrogsmanns á Geitaskarði, Langadal í A-Hún., og Hildar Sólveigar Sveinsdóttur, og Soffía Gísladóttir Johnsen Árnason, dóttir Gísla J. Johnsens, útgerðarmanns í Vestmannaeyjum og stórkaupmanns í Reykjavík, og Ásdísar Johnsen.

Kona Ísleifs var Arndís Borgþórsdóttir. Foreldrar hennar voru Halldóra Guðmundsdóttir og Borgþór Jónsson. Arndís og Ísleifur giftu sig 15. mars 1969.

Ísleifur nam flugvirkjun í Tulsa, Oklahoma. Hann starfaði fyrst hjá Swiss Air en fluttist til Loftleiða í Lúxemborg 1969. Ísleifur og Arndís dvöldu þar í tvö ár en komu þá heim og hann tók til starfa hjá Loftleiðum og seinna hjá Flugleiðum/Icelandair. Hann starfaði lengst af sem flugvirki og flugvélstjóri og tók oft að sér störf erlendis. Þegar Ísleifur hætti störfum sem flugvirki stofnaði hann fyrirtækið NetTelefon ásamt Valgarð Blöndal.

Ísleifur tók virkan þátt í ýmsu félagsstarfi og réttlætisbaráttu. Hann var í stjórn Flugvirkjafélags Íslands og varatrúnaðarráði þess. Hann var í stjórn Skotveiðifélags Íslands og átti stóran þátt í að koma á fót tímariti félagsins, Skotvís. Hann lét til sín taka í búsáhaldabyltingunni og tók m.a. þátt í stofnun Flokks fólksins. Hann var félagi í Kiwanis og Oddfellowreglunni í áratugi.

Systkini Ísleifs eru Finnbjörn Gíslason, Sigríður Gísladóttir Thomas Robinson, Örn Tryggvi Gíslason, Karl Gíslason, Sigurður Gíslason, Guðrún Helga Gísladóttir, Kristín Ellis, Ruth Dora Ellis-Schwartz, Marta Kellam og Jenny-Lynn Ellis.

Dætur Ísleifs og Arndísar eru: 1) Halldóra Guðrún, gift Styrmi Sigurðssyni og eiga þau fimm dætur; Högnu Sólveigu, Sunnu Herborgu Chan, Sölku Sól, og Eddu Lind Styrmisdætur, og Hildigunni Halldóru Hallgrímsdóttur Thorsteinsson, og fimm barnabörn; Nínu Melkorku, Matthildi Sögu og Katrínu Nönnu Ólafsdætur, og Hólmar Hrafn og Aríu Björk Daníelsbörn. 2) Ragnhildur, barnsfeður hennar eru Ólafur Pétur Georgsson og Guðni Þór Björnsson, Ragnhildur á tvær dætur; Ísold Birtu Ragnhildardóttur og Arndísi Maríu Ólafsdóttur. 3) Ásta Ruth, barnsfaðir hennar er Steingrímur Þór Sigmundsson, þau eiga tvær dætur; Auði Emblu og Írisi Ósk.

Útför Ísleifs er frá Fríkirkjunni í Reykjavík í dag, 5. janúar 2024, klukkan 15.

Látinn er höfðinginn og gæðadrengurinn Ísleifur Gíslason.

Kynni okkar Ísleifs ná langt aftur, við kynntumst fyrst lauslega í Glaumbæ og síðan er minnisstætt þegar hann bankaði upp á á Týsgötunni, ég fór til dyra og þarna stóð hann í hálfgerðu áfalli en gat að lokum stunið upp erindinu: „Er Arndís heima?“ Þessi gæi var sem sé að draga sig eftir systur minni. Úr varð að þau gengu í hjónaband og stóð það þar til yfir lauk er hann lést hinn 22. desember sl.

Síðan áttum við eftir að kynnast betur og taka okkur ýmislegt fyrir hendur eins og ungra manna var siður. Það voru skemmtanir, veiðitúrar, golfleikur, fjölskylduboð og annað sem til féll innan fjölskyldunnar.

Hann lærði flugvirkjun í Tulsa í Bandaríkjunum og starfaði víða um lönd á þeim vettvangi allt til þess að starf bauðst hjá Loftleiðum á Íslandi og þau fluttu heim og bjuggu þar síðan.

Ísleifur hafði ákveðnar skoðanir á ýmsum málum og var virkur í kjarabaráttu stéttar sinnar í mörg ár. Hann hafði ríka réttlætiskennd og lét skoðanir sínar gjarnan í ljós og var ekki gjarn á að skipta um skoðun, mátti jafnvel kalla hann þrjóskan hvað þetta varðaði. Eftir hrunið 2008 var hann einn ötulasti mótmælandinn og mætti lengi vel á Austurvöll til að láta skoðanir sínar í ljós með hatt og trompet til áhersluauka. Sjálfsagt minnast hans margir af þeim vettvangi. Einnig tók hann þátt í stofnun Flokks fólksins og lét sig málefni hans varða. Enn fremur var hann oddfellowbróðir og lét sig ýmis störf innan reglunnar varða.

Síðustu árin hafa sjálfsagt verið honum erfið, hann fékk heilahimnubólgu með slæmum afleiðingum sem háðu honum alla tíð síðan og að auki átti hann við frekari veikindi að stríða sem að lokum urðu honum að aldurtila.

Við áttum verðmætar samverustundir á Spáni síðastliðið vor þegar þau hjónin voru þar í leyfi og þykir mér sérlega vænt um minningar frá þeim dögum.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra að sinni en votta Arndísi, stelpunum og fjölskyldum þeirra mína innilegustu samúð og vona að þeim farnist vel um ókomna tíð.

Í guðs friði.

Guðmundur Borgþórsson.

Kær vinur er fallinn frá.

Það var bjartsýnt ungt fólk sem flutti í sína fyrstu íbúð í nýbyggt fjölbýlishús við Furugrund árið 1976. Við á fyrstu hæð með okkar börn, á hæðinni fyrir ofan voru þau Arndís og Ísleifur með sín. Það var okkar lukka. Úr varð ævilöng vinátta, mikill samgangur og margvíslegt brall. Börnunum okkar var jafnvel boðið í „sveit“ til foreldra Ísleifs í Flórída.

Það var stutt á milli hæða í Furugrundinni, stutt í partíin sem stundum stóðu langt fram á nótt. Ekki þurfti að koma börnum í gæslu og enn síður að panta leigubíl heim. Það kvartaði enginn þótt hækkað væri í græjunum og steppað á gólfinu, jafnvel sungið ef þannig stóð á. Ef tiltekinn sálmur var kyrjaður um miðja nótt þótti frúnni á neðri hæðinni þó ástæða til að koma sínum manni í rúmið.

Upp úr standa stórafmælisferðir til Prag þar sem vinafólk þeirra búsett í borginni tók á móti okkur með glæsibrag. Aldrei lognmolla í borginni, allt skoðað. Það var sungið yfir Karlsbrúna, dansað á Klukkutorginu, siglt á Moldá, jafnvel farið á skotsvæði til að æfa skothæfileikana, sem Ísleifi þótti ekki slæmur kostur. Það var haldið upp á afmælin með stórkostlegum hætti í hvert sinn. Á ferð okkar um Dónárdalinn lágum við undir stjörnunum og brunuðum til Vínar þar sem við kíktum á það helsta, eins og Hundertwasser-hús og Stefánskirkjuna. Þaðan lá leiðin til Búdapest, þar sem við tókum þátt í 800 ára afmæli borgarinnar með pomp og prakt og alls konar skemmtilegum uppákomum. Gönguhópur, sem varð til úr gömlum saumaklúbbi Arndísar, hefur staðið þétt saman – og karlarnir flotið með. Eftir að Ísleifur og Arndís fluttu til Hveragerðis hittumst við sjaldnar. En það var sama hve langt leið á milli þess sem við hittumst, það var alltaf eins og við hefðum hist í gær.

Þegar við kveðjum Ísleif er okkur þakklæti í huga fyrir góðar stundir, stuð, sem að sönnu róaðist aðeins eftir því sem árin liðu, en ekki síst vináttuna öll þessi ár frá því í Furugrundinni forðum daga.

Hugur okkar er hjá Arndísi og öllu hennar fólki.

Halldóra Teitsdóttir, Jónas Haraldsson.

• Fleiri minningargreinar um Ísleif Gíslason bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga.