Liðkar meiri sorpflokkun almennings fyrir kjarasamningum?

Fátt gerist í tómarúmi og flest sem gert er hefur afleiðingar. Hér voru fyrir tveimur og hálfu ári sett lög til að Ísland undirgengist nokkrar nýjar reglur frá Brussel, þar með talið um meðhöndlun á úrgangi, umbúðum, plastvörum og fleiru sem til fellur í daglegu lífi fólks. Ekki liggur fyrir hvort þessi lög fengu svokallaða gullhúðun, það er að segja voru enn meira íþyngjandi en krafist var af hálfu Evrópusambandsins, en afleiðingarnar eru í öllu falli að koma skýrar í ljós eftir því sem tíminn líður og þær eru á köflum alvarlegar.

Hér á landi var fyrir um ári farið í að skipta út sorptunnum, sem er ekki beinlínis umhverfisvæn aðgerð, en það þótti verjandi í nafni hringrásarhagkerfisins. Allt var þetta unnið með hraði, meðal annars vegna þess að reglugerð lá ekki fyrir fyrr en skömmu fyrir gildistöku laganna, og almennt má segja að slík vinnubrögð stuðli hvorki að lækkun kostnaðar né aukinni umhverfisvitund.

Landsmenn hafa fengið að kynnast þeirri breyttu sorphirðu sem lögunum fylgdi og hafa nú fengið fleiri sorptunnur og verja meiri tíma í sorpflokkun en áður. Þessu fylgir kostnaður sem erfitt er að reikna út og þeir sem settu lögin virðast litlar áhyggjur hafa haft af, enda tími almennings ekki alltaf hátt skrifaður þegar regluverk er þanið út.

Í frumvarpinu að lögunum var þó fjallað um kostnað og þar kom meðal annars fram eftirfarandi: „Heildaráhrif á sveitarfélög, verði frumvarpið óbreytt að lögum, er metinn sem lítill og óverulegur. Skýrist það af því að aukinn kostnaður við sorphirðu á landsvísu að teknu tilliti til úrvinnslugjalda er áætlaður um 215 millj. kr. á ári en á móti kemur áætluð 120 millj. kr. lækkun á kostnaði vegna meðhöndlunar.“

Þessu fylgdu útreikningar á ætluðum áhrifum á neysluverðsvísitöluna og voru verðlagsáhrif talin óveruleg.

Nú fylgjast landsmenn með kjaraviðræðum á almennum markaði og þar gengur hnífurinn ekki á milli Samtaka atvinnulífsins og fulltrúa launafólks. Keppist hvor við að hrósa hinum og er óhætt að segja að sjaldan eða aldrei hafi slíkur samhljómur verið með hinum svokölluðu aðilum vinnumarkaðarins sem oftar hafa á þessum tímapunkti samningaviðræðna skipst á köpuryrðum en hrósi. Eitt af því sem þeir hafa sameinast um er að beina spjótum sínum að hinu opinbera, bæði ríkisvaldi og sveitarfélögum. Að sveitarfélögunum beinast einkum kröfur um að gjaldskrárhækkanir verði dregnar til baka, í það minnsta að verulegu leyti, ef ekki að fullu. Þar hafa hækkanir verið töluverðar, allt að tíu prósent yfir línuna, sem er margfalt það sem samningsaðilar telja ásættanlegt. Tveir gjaldskrárliðir vekja athygli, strætisvagnagjald og sorphirðugjald. Sorphirðugjaldið hækkar nú um 12%, sem er vitaskuld ekki til þess fallið að vinna bug á verðbólgunni og liðka fyrir kjarasamningum, en formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem jafnframt er borgarfulltrúi í meirihlutanum í Reykjavík, hefur svör á reiðum höndum spurður um þetta: „En varðandi Sorpu þá eru það einfaldlega lög sem hafa verið sett með aukinni flokkun og aðeins meira flækjustigi. Við þurfum að vera duglegri að flokka, þá lækkar þetta aftur.“

Þetta er auðvitað í meira lagi sérkennileg uppstilling sorpflokkunarmálsins. Almenningi var sagt að heildaráhrifin á sveitarfélögin yrðu lítil eða óveruleg, eins og að framan greinir, en nú er þessum óverulegu áhrifum laganna kennt um að sorphirðugjöld hafa hækkað úr öllu hófi.

Hvort ætli eigi við rök að styðjast? Hætt er við að formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga hafi rétt fyrir sér um þetta og að lögin hafi, þvert á það sem sagt var, valdið almenningi verulega auknum útgjöldum, fyrir utan þann kostnað sem felst í aukinni vinnu inni á heimilum landsins við að flokka rusl. Það er hins vegar fjarstæðukennt að ætlast til að almenningur gangi enn lengra í flokkun en orðið er til að ná niður sorphirðukostnaði og þar með að lækka sorphirðugjöld og með því, um þessi áramót að minnsta kosti, að liðka fyrir kjarasamningum.

Ekki eru miklar líkur á að lagasetningin, sem nú er komið í ljós að reyndist landsmönnum gríðarlega kostnaðarsöm, verði tekin til endurskoðunar á næstunni með það að markmiði að lækka kostnað. En það er mikilvægt að landsmenn, stjórnmálamenn ekki síður en aðrir, dragi lærdóm af þessu máli og hafi það í huga framvegis að lagasetning hefur afleiðingar. Flóknari reglur og meiri kröfur á almenning og fyrirtæki hafa óhjákvæmilega í för með sér aukinn kostnað – og það oft verulegan.