Trommuleikarinn Arnór Sigurðarson hefur gefið tóninn frá byrjun.
Trommuleikarinn Arnór Sigurðarson hefur gefið tóninn frá byrjun.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Árlegir þrettándatónleikar Stormsveitarinnar verða í Hlégarði í Mosfellsbæ annað kvöld, laugardaginn 6. janúar, og hefjast þeir klukkan 21.00. Í sveitinni eru 18 manna karlakór og fimm manna rokkhljómsveit og á efnisskrá eru lög af nýjustu plötu…

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Árlegir þrettándatónleikar Stormsveitarinnar verða í Hlégarði í Mosfellsbæ annað kvöld, laugardaginn 6. janúar, og hefjast þeir klukkan 21.00. Í sveitinni eru 18 manna karlakór og fimm manna rokkhljómsveit og á efnisskrá eru lög af nýjustu plötu Stormsveitarinnar, önnur rokktónlist og þjóðlög í rokkbúningi.

Sigurður Hansson var helsti hvatamaður þess að Stormsveitin var stofnuð haustið 2011, en fimm manna rokkhljómsveitin og 15 manna kórinn komu fyrst fram undir nafni Stormsveitarinnar á þorrablóti Aftureldingar í Mosfellsbæ í janúar 2012. „Ég er ennþá Stormsveitarforinginn,“ leggur hann áherslu á.

Fámennur en öflugur kór

Nú eru 18 karlar í kórnum. „Við syngjum í fjórum röddum eins og hefðbundið er í kórum og lagavalið er sambland af karlakórslögum og alls konar rokklögum og dægurlögum,“ segir Sigurður. „Ég var búinn að vera í Karlakór Kjalnesinga í um áratug og hugmyndin heillaði mig. Við bara kýldum á þetta.“ Uppistaðan hafi verið úr Karlakór Kjalesinga en hópurinn hafi breyst eins og gengur. „Litlar mannabreytingar hafa samt verið í kórnum undanfarin fimm ár.“

Kórinn æfir einu sinni í viku og hefur reglulega komið fram á þorrablóti Aftureldingar og við þrettándabrennuna í Mosfellsbæ. Auk þess hefur hann haldið kirkjutónleika og komið fram á ýmsum viðburðum. „Þetta er fámennur kór og því mæðir mikið á hverjum manni, en við erum mun rokkaðri en hefðbundnir karlakórar.“

Hljómsveitin hefur líka tekið stöðugum breytingum en trommuleikarinn Arnór Sigurðarson, sonur Sigurðar Hanssonar, og saxófón- og hljómborðsleikarinn Jens Hansson, bróðir Sigurðar, hafa verið í henni frá upphafi. Með þeim eru Daníel Máni Konráðsson gítarleikari, Þórir Úlfarsson píanó- og hljómborðsleikari og Þorsteinn Gunnar Friðriksson bassaleikari. „Það er valinn maður í hverju rúmi, Þorsteinn Máni og Daníel Máni hafa til dæmis gert það gott í rokkheiminum, en þessi blanda kemur fyrst saman á tónleikunum í Hlégarði,“ segir Arnór. „Það skemmir ekki fyrir að þetta eru allt skemmtilegir menn. Þetta verður algjör negla.“

Í fyrra kom út tíu laga plata með sveitinni, Fótspor tímans, og er hún á Spotify. Níu laganna eru eftir Arnór og eitt eftir Jens, en Kristján Hreinsson samdi textana. „Karlakór og rokktónlist smellpassar, getur ekki klikkað,“ segir Arnór, sem er tónlistar- og kórstjóri Stormsveitarinnar. Hann bætir við að í sjálfu sér sé þetta einfalt mál. Karlarnir í kórnum þurfi að kunna lögin, bandið vel mannað og allir á tánum. „Þetta er ekki sérstaklega flókið dæmi.“