Jóninna Huld Haraldsdóttir fæddist 2. nóvember 1957 í Reykjavík. Hún lést 13. desember 2023.

Foreldrar Jóninnu eru Haraldur Sumarliðason húsasmíðameistari, f. 2. júlí 1937, og Sigurbjörg Sigurjónsdóttir myndlistarkona, f. 19. júní 1937. Systkini Jóninnu: Tryggvi Þór, f. 1956, Brynja Þorbjörg, f. 1958, Jóhann Friðgeir, f. 1965, og Baldvin Björn, f. 1968.

Jóninna giftist 11. nóvember 1978 Sigurði Péturssyni verktaka frá Hellum í Bæjarsveit, f. 6. maí 1956 (fráskilin). Foreldar hans voru Pétur Jónsson, f. 1924, d. 2017, og kona hans Erna Sigfúsdóttir, f. 1927, d. 2017.

Börn Jóninnu og Sigurðar eru: 1) Þóra Björg, f. 31. ágúst 1978. Eiginmaður hennar Jón Örvar G. Jónsson f. 21. apríl 1977. Börn þeirra eru Sigurrós, Karítas og Hrafndís Ninna. 2) Ingi Rafn, f. 11. mars 1980. Fyrrverandi sambýliskona Kristín Eiríksdóttir, f. 3. nóvember 1981. Barn þeirra er Kolbjörn. Sambýliskona Inga Rafns er Sonja Huld Guðjónsdóttir, f. 25. desember 1987. Börn þeirra eru Högna Huld og Heba Röfn. 3) Hjördís Erna, f. 2. júlí 1982. Fyrrverandi eiginmaður Kristján Gerhard Grimm, f. 25. mars 1981. Börn þeirra eru Gabríel Kristján, Rannveig Lára og Rúnar Máni. Gift Premislaw Szudrawski, f. 17. mars 1984. Barn hans af fyrra hjónabandi er Dawid. Barn Hjördísar og Przemislaws er Sigurður Daríus. 4) Haraldur, f. 25. febrúar 1988. Eiginkona hans Linda Sif Níelsdóttir, f. 19. ágúst 1987. Börn þeirra eru Valdís Huld og Brynjar Níels.

Eftirlifandi samferðamaður Jóninnu er Stefán Bjarnar Guðmundsson, f. 8. júlí 1954, fyrrverandi sjúkraflutningamaður og stöðvarstjóri Bílaleigu Akureyrar á Egilsstöðum. Foreldrar hans eru Guðmundur Bjarnar Stefánsson, f. 7. júlí 1932, og Sólveig Hulda Zophoníasdóttir, f. 8. júlí 1932, d. 13. nóvember 2021.

Jóninna Huld ólst upp í Reykjavík, fyrst á Hraunteigi í Laugarneshverfi, svo á Tunguvegi. Hún naut barnaskólakennslu í Laugarnesskóla og síðar í Breiðagerðisskóla. Eftir gagnfræðaskólapróf í Réttarholtsskóla lá leið hennar í Borgarfjörð þar sem hún kynntist fyrrverandi eiginmanni sínum og settust þau Sigurður að í Bæjarsveit. Þau bjuggu fyrst á Jaðri eða frá 1978 en byggðu sér einbýlishús og fluttu að Hellum árið 1984. Þau unnu lengst af saman við eigið verktakafyrirtæki. Ninnu var margt til lista lagt og auk þess að vinna á stórvirkum vinnuvélum var hún handverkskona og mikil fyrirmyndarhúsmóðir.

Eftir að Jóninna fluttist suður til Reykjavíkur bætti hún við sig menntun í nuddi og anatómíu. Hún vann síðan sem Bowen-meðferðaraðili.

Hugur Ninnu stóð til andlegrar vinnu ásamt þeirri nudd- og heilunaraðferð sem hún hafði lært og tileinkað sér. Til hennar leituðu margir, bæði þeir sem þurftu aðstoð við að ná bata á líkamlegri heilsu en einnig þeir sem þurftu á að halda líkn og hlustun.

Útför fer fram í kyrrþey í dag, 5. janúar 2024.

Því hamingjan

felst í því

að vera með

himininn

í hjartanu.

(Sigurbjörn Þorkelsson)

Móðir okkar lést í bílslysi þann 13. desember síðastliðinn. Hún var einstök móðir, hafði unnið á Fæðingarheimilinu hjá Huldu frænku sinni þegar hún var ung og ætlaði sér að eignast tíu börn þótt hún léti sér duga okkur fjögur. Mamma stjórnaði heimilinu, sem oft var mannmargt, af myndarskap. Hún var skapmikil og ástríðufull og afdráttarlaus í tilsvörum. Hún tók gjarnan á móti bæði vinnumönnum og gestum í mat og hélt rausnarlegar afmælis- og fermingarveislur, svo ekki sé meira sagt.

Við systkinin ólumst upp við öryggi, kærleika og eljusemi. Í minningunni var alltaf verið að vinna, úti og inni. Á sama tíma og foreldrar okkar byggðu sér einbýlishús á Hellum og innréttuðu vélaskemmu tóku þau þátt með sínum sveitungum í sjálfboðavinnu við að byggja sundlaug í Bæjarsveit. Mamma vann á vinnuvélum og var auk þess með lítil börn sem skottuðust í kring og fannst þau gera nokkurt gagn með nærveru sinni í þessu samfélagsverkefni sem þau nutu auðvitað helst góðs af þegar fram í sótti.

Mamma var í sóknarnefnd og stóð meðal annars fyrir endurbótum á Bæjarkirkju sem formaður sóknarnefndar. Hún var virk í kórastarfi og var ein af stofnendum Freyjukórsins í Borgarfirði og í framkvæmdanefnd fyrir landsmót kvennakóra sem haldið var í Reykholti 1996. Um tíma stóð hún fyrir Jane Fonda-leikfimi fyrir konurnar í sveitinni, fór í splitt og kraftstökk. Hugurinn var síungur þótt líkamleg heilsa færi þverrandi. Hún var að nálgast sextugt þegar hún reyndi skriðtæklun í fótbolta og þurftum við að taka loforð af börnunum okkar að passa að amma færi ekki í kollhnís eða handahlaup þegar þau voru hjá henni.

Mamma var stórhuga, skapandi og framkvæmdi hiklaust. Henni var margt til lista lagt, prjónaði og saumaði, stundaði myndlist og vílaði ekki fyrir sér að flísaleggja, smíða veggi eða skera út. Möguleikarnir voru endalausir og ímyndunaraflið sá út fyrir raunveruleikann. Það er draumkennt að hugsa til baka og finna fyrir lífskraftinum sem fylgdi mömmu. Eitt sinn hannaði hún og saumaði sér kjól. Það var blár flauelskjóll með silfraðri blúndu í hálsmáli og plíseruðu pilsi. Þegar kjóllinn var tilbúinn horfði hún á hann lengi, hengdi hann upp, mændi á hann. Við fylgdumst með henni, það var eins og hún væri ekki ánægð, eitthvað truflaði hana. Svo náði hún sér í stór sníðaskæri og klippti hann sundur í miðjunni og eftir endilöngu í s. Við héldum niðri í okkur andanum. Svo fann hún glitrandi streng í þetta s og saumaði hann saman. Þá fylltist veröldin af létti. Hún var frjáls og kjóllinn fullkominn.

Eftir að mamma fluttist suður fann hugurinn hvíld í umönnun og andlegri vinnu. Hún hlúði alla tíð vel að sínum nánustu og hélt faðmi sínum opnum fyrir okkur fjölskyldunni. Það var henni sjálfsagt og eðlilegt að styðja okkur systkinin með okkar börn og þau þrettán barnabörn sem hún eignaðist voru afar hænd að henni. Við minnumst móður okkar með miklu þakklæti og virðingu. Ást hennar og velvilji brást okkur aldrei.

Þóra Björg Sigurðardóttir, Ingi Rafn Sigurðsson, Hjördís Erna Sigurðardóttir, Haraldur Sigurðsson.

Amma mín var frábær, góð, hjálpsöm og dugleg og lét ekkert stoppa sig. Hún malaði alla í sjómann og var mikil keppnismanneskja. Hún sagði mér sögu af sér á unglingsaldri þegar hún var að keppa í handbolta. Mig minnir að hún hafi verið í vinstra horninu þegar hún fékk sendingu og stökk upp til að reyna að skora þegar henni var ýtt og hún skall í jörðina og rotaðist. Þegar hún rankaði úr rotinu var það fyrsta sem hún sagði: „Skoraði ég?“ Það var rétt og liðið hennar vann leikinn.

Við amma töluðum um trúarbrögð og yfirnáttúrulega hluti. Hún trúði því að maður veldi sér verkefni fyrir lífið. Ég vona að hún hafi náð að klára sitt verkefni. Ég kallaði ömmu stundum vúdú en þá sagði hún að hún væri ekki vúdú heldur meira svona heilari. Hún var það svo sannarlega því eitt knús lagaði daginn, tvö knús og öll vikan varð auðveldari. Í hvert sinn sem mér leið illa þá gat ég treyst á að hún væri staðar.

Amma hafði gaman af ráðgátuþáttum eins og Father Brown og við horfðum oft á þannig þætti. Við giskuðum á hver væri morðinginn og amma hafði eiginlega alltaf rétt fyrir sér og ég rangt. Við spiluðum líka rommí. Þá vann ég í átta af hverjum tíu skiptum, ömmu fannst svo gaman að safna spilum. Eitt sinn spiluðum við í þrjá klukkutíma samfellt.

Amma var algjör listamaður, hún skar út, saumaði, smíðaði, bakaði og prjónaði. Allar peysurnar sem við höfum fengið eru sönnunargögn um það. Þegar hún eldaði kjöt og brúna sósu varð mér stundum illt í maganum af ofáti því þetta var svo svakalega gott á bragðið. Mér fannst rosalega gaman að sjá ömmu dansa því ég sá hvað henni þótti það gaman. Ég er svo glöð að hún kynntist Stefáni og þau gátu dansað saman.

Amma sagði mér að vanda mig við skriftina mína og að ég ætti alltaf að skrifa nafnið mitt fallega. Svo sagði hún líka: „Viltu ekki taka af þér þessa blessuðu húfu?“ En ég neitaði og sagði að mér væri alltaf kalt sem var þveröfugt við hana.

Eitt sinn skoðuðum við myndir af Sviss og Ölpunum í fjóra klukkutíma. Þangað stefndum við á að fara saman einhvern daginn. Elsku amma mín, ég gæti skrifað endalaust um þig. Takk fyrir að vera svona stór partur af lífi mínu. Ég vona að einn daginn sjáumst við aftur.

Karítas Jónsdóttir.

Elsku Ninna.

Þegar ég hugsa til þín, þess tíma sem ég fékk að vera bróðir þinn, þess tíma sem við áttum saman, hlýnar mér um hjartarætur.

Þótt þú hafir flutt að heiman á meðan ég var barnungur auðnaðist mér að kynnast þér vel þegar ég dvaldist sem ungur drengur hjá þér og fjölskyldu þinni í Borgarfirði á sumrin. Þar kynntist ég eiginkonunni, mömmunni, bústýrunni, hænsnabóndanum, vinnuhestinum og ekki síst hinni frábæru systur sem þú varst. Við höfum oft hlegið að tímanum sem við áttum saman á þessum árum, við fúavörn hússins og hreinsun hænsnakofans.

Dvöl mín í Borgarfirði batt þá römmu taug sem á milli okkar hefur ávallt haldist. Við höfum í gegnum árin reglulega kallað hvort annað til aðstoðar hinu og á þig hefur ávallt verið hægt að treysta. Á okkar samskipti hefur aldrei borið skugga.

Það hefur verið haft á orði í fjölskyldu minni að Ísland hafi misst sinn besta faðmara. Það er engum orðum aukið enda var faðmlag þitt öðrum fremra og innilegra. Þess mun ég sakna mikið.

Ég taldi okkur eiga margar stundir eftir saman mín kæra systir og því er ofursárt að þurfa að kveðja þig svo snemma. Ég kýs þó að hugsa til þín og þess tíma sem við fengum saman með þeirri sömu hlýju og þú ávallt sýndir mér og minni fjölskyldu.

Hvíldu í friði elsku systir. Takk fyrir samveru okkar og vináttu.

Þinn bróðir,

Baldvin Björn.

• Fleiri minningargreinar um Jóninnu Huld Haraldsdóttur bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga.