Ófærð Langar bílalestir mynduðust á vegum á Jótlandi í Danmörku í gær. Þessi mynd er tekin á E45-hraðbrautinni nálægt bænum Randers.
Ófærð Langar bílalestir mynduðust á vegum á Jótlandi í Danmörku í gær. Þessi mynd er tekin á E45-hraðbrautinni nálægt bænum Randers. — AFP/Bo Amstrup
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það er óhætt að segja að það sé vetrarríki í norrænum nágrannalöndum okkar þessa dagana, fimbulkuldi og fannfergi. Á sama tíma hefur veðrið hér á landi verið tiltölulega hæglátt og milt og líkur eru taldar benda til þess að svo verði áfram enn um sinn

Sviðsljós

Guðm. Sv. Hermannsson

gummi@mbl.is

Það er óhætt að segja að það sé vetrarríki í norrænum nágrannalöndum okkar þessa dagana, fimbulkuldi og fannfergi. Á sama tíma hefur veðrið hér á landi verið tiltölulega hæglátt og milt og líkur eru taldar benda til þess að svo verði áfram enn um sinn.

Í Danmörku mældist jafnfallinn snjór allt að hálfum metra í vikunni og langar bílaraðir mynduðust á hraðbrautum nálægt Árósum í Danmörku. Danska lögreglan sagði á samfélagsmiðlinum X að margir ökumenn hefðu þurft að dúsa í bílum sínum í nokkra klukkutíma. „Hugsið ykkur því tvisvar um og haldið ykkur heima,“ bætti hún við.

Danska ríkisútvarpið DR ræddi í gær m.a. við Gitte Sondrup, sem eins og margir aðrir ökumenn sat föst í tæpan sólarhring á E45-hraðbrautinni milli Árósa og Randers. Hún segist hafa reynt að sofa í bílnum aðfaranótt fimmtudags. „Það var það eina sem hægt var að gera,“ segir hún.

Hermenn kallaðir út

Í Svíþjóð voru hermenn og björgunarsveitir kölluð út í gærmorgun til að aðstoða ökumenn á vegum milli bæjanna Hörby og Kristianstad á Skáni og neyðarhjálparstöðvar opnaðar þar sem fólk var flutt í skjól. Allt að þúsund bílar sátu fastir í snjónum á svæðinu og ekki var búist við að hægt yrði að opna vegina fyrr en í dag. Sænska ríkisútvarpið SVT sagði síðdegis í gær að enn sætu nærri 200 flutningabílar fastir á veginum. Íbúar á Skáni hafa verið hvattir til að hreyfa ekki bíla sína.

Á miðvikudag mældist 43,6 stiga frost á veðurstöð í Kvikkjokk-Årrenjarka í sænska Lapplandi og er það mesta frost sem þar hefur mælst frá því mælingar hófust árið 1888. Víða fór frostið niður fyrir 40 stig nyrst í Svíþjóð. Janúarkuldametið í Svíþjóð féll þó ekki, í janúar árið 1999 mældist þar 49 stiga frost og jafnaði þá kuldamet frá árinu 1951.

Lokaðir skólar

Ástandið var lítið betra í Noregi. Í Kautokeino nyrst í Noregi mældist 41,6 stiga frost í fyrrinótt og veðurspár gera ráð fyrir allt að 25 stiga frosti í Ósló um helgina. Norska ríkisútvarpið NRK segir að rafmagnsofnar séu nú eftirsóttasta varan í raftækjabúðum þegar íbúar norsku höfuðborgarinnar búa sig undir væntanlegt kuldakast.

Skólar hafa víða verið lokaðir í bæjum í suðurhluta landsins vegna fannfergis og sumstaðar er ekki búist við að skólastarf hefjist að nýju fyrr en í næstu viku. Lögregla hefur mælst til þess að fólk hreyfi ekki bíla sína að svo stöddu og lestarferðum milli Óslóar og Kristiansand var aflýst í gær.

Bara klæða sig vel

Í Finnlandi mældist 42,3 stiga frost á flugvellinum í Enontekiö í gærmorgun. Mika Rantanen, veðurfræðingur hjá finnsku veðurstofunni, sagði á X að það væri mesta frost sem mælst hefði þar í landi í janúar frá árinu 2006.

Vatnsleiðslur hafa sums staðar sprungið og finnska ríkisútvarpið YLE sagði að um 300 manns í Tampere hefðu verið án neysluvatns á þriðjudag.

Í Helsinki mældist 15 stiga frost á miðvikudag og spár gera ráð fyrir að þar muni kólna á næstu dögum. En íbúar finnsku höfuðborgarinnar eru ýmsu vanir í þeim efnum. „Mér finnst þetta frábært,“ hefur AFP-fréttastofan eftir konu sem nefnd er Katja. „Maður þarf bara að klæða sig vel.“

Skandínavía

Áfram kalt

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur segir að kalt hafi verið í Skandinavíu frá miðjum nóvember. Á sama tíma og hér á landi hafi verið rólegt veður og hálfgerður háþrýstingur hafi milt loft frá Atlantshafi náð mjög illa inn til Skandinavíu og því kólni þar hægt og rólega í veðri. Við bætist síðan kalt loft sem komi úr austri frá Finnlandi og Rússlandi. Þegar kólni svona mikið í Skandínavíu verði til skörp kuldaskil sem liggja um Eystrasaltið og á þessum skilum myndist lægðir og þá snjóar mikið. Áfram er spáð kulda á svæðinu að minnsta kosti næstu vikuna. Einar segir að nú sé að byggjast upp þannig staða að milda loftið af Atlantshafinu nái ekki inn yfir meginland Evrópu og því gæti kólnað þar á næstunni.