Kjaraviðræður Aðilar vinnumarkaðarins funda hjá ríkissáttasemjara.
Kjaraviðræður Aðilar vinnumarkaðarins funda hjá ríkissáttasemjara. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Að sjálfsögðu munum við skoða það með opnum huga þegar það verður lagt fram hvað verið er að ræða um. Ég hef sagt að hagsmunir heimilanna í landinu, fyrirtækjanna, sveitarfélaganna og ríkisins sjálfs af því að ná hér langtímasamningum, sem…

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

„Að sjálfsögðu munum við skoða það með opnum huga þegar það verður lagt fram hvað verið er að ræða um. Ég hef sagt að hagsmunir heimilanna í landinu, fyrirtækjanna, sveitarfélaganna og ríkisins sjálfs af því að ná hér langtímasamningum, sem stuðla að því að ná niður verðbólgu og vöxtum í landinu, eru gríðarlegir. Ég trúi ekki öðru en að stjórnvöld og ríkið muni skoða það mjög vel að koma inn í viðræður sem snúa að þjóðarsátt á vinnumarkaði,“ segir Stefán Vagn Stefánsson, alþingismaður og formaður fjárlaganefndar, í samtali við Morgunblaðið.

Hann var spurður hvort rúm væri í nýsamþykktum fjárlögum fyrir jafnvel tuga milljarða innspýtingu ríkisins til að liðka fyrir gerð kjarasamninga, en aðilar vinnumarkaðarins hefa gefið til kynna að sótt verði á ríkissjóð svo ljúka megi kjarasamningum með nýrri þjóðarsátt.

Mjög háar tölur

„Ég veit ekki um töluna en þetta eru mjög háar tölur. Ég held að það sé óvarlegt fyrir mig að tjá mig um upphæðir. En við erum með varasjóð sem á að taka á óvæntum og ófyrirséðum útgjöldum. Við höfum verið að nota varasjóðinn í launahækkanir, en í honum eru 40-50 milljarðar. Síðan hefur ríkið alltaf möguleika á að koma fram með fjárauka. Þetta eru leiðirnar sem til eru. Síðan verða menn að meta hvað þeir geta stigið stór skref.

Koma skattahækkanir til greina?

Ég held að enginn sé að tala um skattahækkanir í þessu samhengi og hvorki ríkisstjórn né fjárlaganefnd hefur verið að ræða um slíkt. En það er líka áhugavert að nefna að ríkissjóður hefur verið að skila betri afkomu síðustu ár svo um munar, þó gert sé ráð fyrir að hún fari minnkandi á þessu ári. En munurinn fyrir ríkissjóð á að reka sig í 8% verðbólgu eða 5% eða þar fyrir neðan er gríðarlegur, þannig að svigrúmið er þar, bæði fyrir okkur sem og fyrirtækin í landinu,“ segir Stefán Vagn.

Hann segir jafnframt að nefndarmönnum í fjárlaganefnd sé ljóst að líklega myndi koma til þess að stíga þyrfti inn í kjaraviðræðurnar með einhverjum hætti, t.d. hvað varðar vaxtabótakerfi, húsnæðisbætur, vaxtabætur, barnabætur og þvíumlíkt. „Mér finnst það einboðið,“ segir hann.

Kjaraviðræður Samtaka atvinnulífsins og verkalýðsfélaganna sem eru í samfloti við samningaborðið héldu áfram í gær. Búist er við að aðilarnir fundi með stjórnvöldum í dag til að ræða með hvaða hætti ríkið og sveitarfélögin geti komið að því að liðka fyrir gerð kjarasamninga.

Þar munu mál væntanlega skýrast, en skv. því sem fram hefur komið mun ekki standa á aðilum vinnumarkaðarins að ganga til samninga meti þeir aðkomu opinberra aðila ásættanlega.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson