Hafnarfjörður Ekki er í bígerð að reisa varnargarða um Hafnarfjörð.
Hafnarfjörður Ekki er í bígerð að reisa varnargarða um Hafnarfjörð. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Varðandi þann hluta sem snýr að varnargarðavinnu við Hafnarfjörð er svarið nei, slíkir garðar eru ekki til umræðu í ráðuneytinu á þessu stigi.“ Svo segir í svari dómsmálaráðuneytisins við fyrirspurn Morgunblaðsins um það hvort…

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

„Varðandi þann hluta sem snýr að varnargarðavinnu við Hafnarfjörð er svarið nei, slíkir garðar eru ekki til umræðu í ráðuneytinu á þessu stigi.“

Svo segir í svari dómsmálaráðuneytisins við fyrirspurn Morgunblaðsins um það hvort einhverjar áætlanir séu um að reisa slíka garða sunnan við Hafnarfjörð.

Undir þetta tekur Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði, í samtali við blaðið.

Fram hefur komið hjá jarðvísindamönnum að réttast sé að byggja upp varnargarða við Hafnarfjörð til að verjast hraunrennsli frá mögulegu eldgosi. Hafa þeir kallað eftir því að gert verði nýtt og umfangsmikið hættumat fyrir stórhöfuðborgarsvæðið.

„Varðandi þessi mál þá fylgjumst við vel með þróun jarðhræringa á Reykjanesi og eru engar vísbendingar um að höfuðborgarsvæðinu stafi ógn af hraunrennsli við núverandi aðstæður,“ segir Rósa.

„Það var haldinn fjölmennur fundur í lok nóvember á Veðurstofunni með fulltrúum almannavarna höfuðborgarsvæðisins og ríkislögreglustjóra, vísindamönnum og fleirum sem þessi mál varða. Þar var farið yfir stöðuna og það hættumat fyrir höfuðborgarsvæðið sem er í vinnslu af hálfu Veðurstofunnar í samstarfi við almannavarnir höfuðborgarsvæðisins. Kom þar fram að stefnt væri að því að hættumatið verði tilbúið í vor en það hefur tafist vegna mikilla anna á Veðurstofunni,“ segir hún.

Treysta ráðum sérfræðinga

Rósa segir enn fremur að Hafnfirðingar muni sem fyrr treysta ráðum sérfræðinga við að meta áhættuþætti og hvort mál þróist með þeim hætti að tilefni sé til þess að skoða fyrirbyggjandi aðgerðir.

„Við í Hafnarfirði munum ekki láta okkar eftir liggja í þessum efnum og verðum tilbúin fyrir aðgerðir meti almannavarnadeild ríkislögreglustjóra það svo á einhverjum tímapunkti að verja þurfi svæði í Hafnarfirði,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir.