Alþingi Lilja Dögg Alfreðsdóttir með þingsályktun um táknmálið.
Alþingi Lilja Dögg Alfreðsdóttir með þingsályktun um táknmálið. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra kynnti í gær á opnum fundi nýja þingsályktun um málstefnu íslensks táknmáls næstu þrjú árin, eða til ársins 2027. Ráðherrann mælti fyrir þingsályktuninni á Alþingi á dögunum

Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra kynnti í gær á opnum fundi nýja þingsályktun um málstefnu íslensks táknmáls næstu þrjú árin, eða til ársins 2027. Ráðherrann mælti fyrir þingsályktuninni á Alþingi á dögunum.

„Hver sem hefur þörf fyrir táknmál skal eiga þess kost að læra og nota íslenskt táknmál, jafnskjótt sem máltaka hefst eða frá þeim tíma sem heyrnarleysi, heyrnarskerðing eða samþætting sjón- og heyrnarskerðingar hefur greinst,“ segir Lilja um aðgerðir næstu ára.

Íslenskt táknmál er eina minnihlutamálið á Íslandi og eina tungumálið sem á sér lagalega stöðu á Íslandi utan íslenskrar tungu.

Málstefna næstu ára tekur til sex meginstoða sem skipta máli fyrir stefnu táknmálsins og þar fyrir innan eru áhersluþættir fyrir hverja meginstoð. Áherslur í málstefnu minnihlutamála, eins og táknmálsins, geta verið ólíkar þeim áherslum sem settar eru í málstefnur meirihlutamála.

Starfshópur skipaður fulltrúum frá Félagi heyrnarlausra, Málnefndar um íslenskt táknmál og Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra vann drögin að málstefnunni og aðgerðaráætlun næstu ára í víðtæku samstarfi við sérfræðinga í málaflokknum.

Aðilar í táknmálssamfélaginu voru boðaðir til umræðufundar þar sem drögin voru rýnd og tekið tillit til athugasemda sem komu fram á fundinum. Lilja mælti fyrir aðgerðaáætlun næstu þriggja ára á Alþingi en hún ræddi um þær aðgerðir sem þurfa að koma til framkvæmda fyrir árið 2027.