Híbýli Matið þarf að vera rétt.
Híbýli Matið þarf að vera rétt. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) hvetur fólk til að bregðast við áskorunum um að uppfæra brunabótamat á fasteignum. Hefur stofnunin sent fólki áskorun á Island.is um að tilkynna breytingar. „Á síðasta ári sendum við áskoranir á eigendur um …

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) hvetur fólk til að bregðast við áskorunum um að uppfæra brunabótamat á fasteignum. Hefur stofnunin sent fólki áskorun á Island.is um að tilkynna breytingar.

„Á síðasta ári sendum við áskoranir á eigendur um þrjú þúsund eigna þar sem við teljum ástæðu til að fara yfir brunabótamatið og erum með því að gefa fólki kost á að koma að viðbótarupplýsingum til að matið sé sem nákvæmast og eignirnar rétt tryggðar,“ segir Hrafn Svavarsson, teymisstjóri brunabótamats hjá HMS.

Brunabótamat er mat á efnislegum verðmætum hússins eins og timbri, steypu eða stáli. Gert er ráð fyrir ákveðnum líftíma á eignum og því gert ráð fyrir afskriftum þegar hús eldast.

„Eigendur fara gjarnan í framkvæmdir til að endurnýja húsin þegar þau eldast en við höfum ekki skrá yfir þær. Þegar fólk endurnýjar þá þarf það að heyra í okkur og láta vita. Gefum okkur að skipt sé um lagnir í húsi, þá er sá hluti eigninnar frá 2022 t.d. en ekki t.d. 1967. Þegar um stórar framkvæmdir er að ræða er ástæða til að endurskoða afskriftarárið á eigninni því hluti fasteignarinnar er ekki lengur frá 1967. Við getum ekki vitað þetta nema fólk hafi samband.“

Fleiri mættu bregðast við

Hefur HMS fengið mikil viðbrögð við þessum áskorunum? „Mjög margir vita af þessu en einnig eru margir sem ekki átta sig á þessu. Það er rosalega sorglegt ef upp koma tilfelli þar sem fólk gerir upp hús, lendir í tjóni og brunabótamatið hafði ekki verið uppfært. Ég hefði búist við því að viðbrögðin yrðu meiri og fólk ætti endilega að kanna á Island.is hvort þar séu skilaboð frá okkur,“ segir Hrafn og bendir á að hægt sé að lesa sér til á island.is/brunabotamat.