Snjór Alhvítir dagar í Reykjavík í nýliðnum desember voru 14 talsins.
Snjór Alhvítir dagar í Reykjavík í nýliðnum desember voru 14 talsins. — Morgunblaðið/Eyþór
Desember var kaldur um land allt, en tíð almennt góð, að því er kemur fram í yfirliti Veðurstofunnar. Segir Veðurstofan að þótt kuldinn hafi ekki verið í neinni líkingu við kuldatíðina sem ríkti í desember árið 2022 hafi nýliðinn desember verið með þeim kaldari á öldinni

Desember var kaldur um land allt, en tíð almennt góð, að því er kemur fram í yfirliti Veðurstofunnar.

Segir Veðurstofan að þótt kuldinn hafi ekki verið í neinni líkingu við kuldatíðina sem ríkti í desember árið 2022 hafi nýliðinn desember verið með þeim kaldari á öldinni. Meðalhiti var langt undir meðaltali á landinu öllu, hæstur í Surtsey, 3 stig, en lægstur var meðalhitinn við Sátu norðan Hofsjökuls, -9,3 stig. Í byggð var meðalhitinn lægstur við Mývatn, -7,9 stig.

Hæsti hiti mánaðarins mældist 12,9 stig á Skjaldþingsstöðum hinn 3. desember. Mest frost í mánuðinum mældist -26,2 stig við Veiðivatnahraun hinn 22. Mest frost í byggð mældist -24,4 stig í Möðrudal hinn 29.

Meðalhiti í Reykjavík í desember var -1,2 stig. Það er 1,9 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020 en 1,6 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn -4,4 stig, 3,7 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020 en 3,3 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára.

Alhvítir dagar í Reykjavík voru 14 í desember, tveimur dögum fleiri en að meðaltali 1991 til 2020. Alhvítir dagar á Akureyri voru 23, fimm fleiri en að meðaltali 1991 til 2020. Úrkoma í Reykjavík mældist 77 mm sem er um 80% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældist úrkoman 54,8 mm sem er 75% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020.

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 27,4 sem er 14,8 stundum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 1,1, sem er rétt yfir meðallagi áranna 1991 til 2020.