Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson
Það sem einkennt hefur síðustu árin í stjórn borgarinnar er óstjórn og stöðug skuldasöfnun.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson

Samkvæmt könnun Maskínu 17.-29. ágúst 2023 um stöðu meirihlutans í Reykjavík telja tæplega 60% aðspurðra að meirihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur standi sig illa og 55% aðspurðra voru óánægð með störf borgarstjóra, Dags B. Eggertssonar. Þetta er að sjálfsögðu afar slæm niðurstaða fyrir Dag B. nú þegar hann lætur af starfi borgarstjóra. Í annarri könnun á svipuðum tíma mældist borgarstjóri með 13% fylgi þegar spurt var: Hvaða borgarfulltrúi í borgarstjórn Reykjavíkur finnst þér hafa staðið sig best á yfirstandandi kjörtímabili?

Erfitt verkefni fyrir nýjan borgarstjóra

Það kemur ekki lengur á óvart þegar skoðanakannanir sýna óvinsældir Dags B. borgarstjóra. Það sem einkennt hefur síðustu árin í stjórn borgarinnar er stöðug skuldasöfnun borgarsjóðs sem engan endi ætlar að taka.

Nánast eingöngu eru byggðir þéttir blokkarklasar víðsvegar í borginni, nokkuð sem Dagur B. ataðist gegn á fyrri árum þegar hans flokkur var í minnihluta. Það verður erfitt verkefni fyrir nýjan borgarstjóra, Einar Þorsteinsson, að taka við embætti borgarstjóra í upphafi þessa árs með Dag B. í baksætinu.

Skuldasöfnun heldur áfram á fullum hraða

Borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins, sem setið hafa í minnihluta borgarstjórnar í langan tíma, hefur ekki tekist nægilega að sýna fram á þá óstjórn sem lengi hefur ríkt og nú ríkir í stjórn borgarinnar. Skuldasöfnun borgarsjóðs heldur áfram á fullum hraða og staða hans fer versnandi með hverjum mánuði sem líður. Meirihlutinn reynir með alls kyns blekkingum að sýna betri stöðu á rekstri borgarsjóðs en hún raunverulega er. Slík blekkingavinna bætir ekki stöðuna nema síður sé.

Vonandi tekst Einari Þorsteinssyni, sem tekur nú við embætti borgarstjóra, að stýra fjármálum borgarsjóðs betur, þannig að fjárhagsstaða hans lendi ekki í enn frekari ógöngum en við blasir í dag.

Höfundur er fv. borgarstjóri.

Höf.: Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson