Hermenn Atriði úr þáttunum um hernámið sem brátt verða sýndir.
Hermenn Atriði úr þáttunum um hernámið sem brátt verða sýndir. — Skjáskot/Fangar Breta
Kastljósinu er beint að Íslendingum sem Bretar tóku höndum eftir hernámið á Íslandi í síðari heimsstyrjöldinni í nýjum heimildarþáttum sem fara í loftið á sunnudaginn. Bræðurnir Árni Þór og Lárus Jónssynir standa að gerð þáttanna ásamt feðginunum Sindra Freyssyni og Snærós Sindradóttur

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Kastljósinu er beint að Íslendingum sem Bretar tóku höndum eftir hernámið á Íslandi í síðari heimsstyrjöldinni í nýjum heimildarþáttum sem fara í loftið á sunnudaginn.

Bræðurnir Árni Þór og Lárus Jónssynir standa að gerð þáttanna ásamt feðginunum Sindra Freyssyni og Snærós Sindradóttur.

„Við fengum þessa hugmynd ásamt Sindra, rithöfundi og ljóðskáldi. Okkur fannst að þörf væri á því að segja sögur Íslendinga sem lentu í klóm Breta ef svo má segja. Í þeim hópi voru Íslendingar sem voru hliðhollir Þjóðverjum en einnig Íslendingar sem voru alveg saklausir af því,“ segir Árni Þór.

Árni segir Sindra vera áhugamann um síðari heimsstyrjöldina og sjálfur er Árni í námi í sagnfræði við Oxford. Bræðurnir Árni og Lárus leikstýra, Sindri skrifaði handritið og Snærós er sögumaður í þáttunum en hún er mörgum kunn úr útvarpsþáttum. Þættirnir eru heimildarþættir en með leiknum atriðum.

Þættirnir eru byggðir á sögulegum heimildum og fram fór mikil heimildaöflun. „Við vildum gera ákveðna atburði dramatískari í frásögninni og fórum þá í að endurgera atburði eftir bestu vitund. Með því er hægt að búa til betri tilfinningu fyrir því sem gerðist þótt aldrei sé hægt að hafa atriðin alveg 100% nákvæm þegar langt er um liðið.“

Þættirnir verða fjórir talsins og sýndir á RÚV á sunnudögum. Árni Þór segir að þarna leynist margar merkilegar sögur og ekki sé víst að um þær hafi áður verið fjallað í sjónvarpi en Íslendingar hafi til að mynda verið pyntaðir í haldi Breta.

„Því er ekki að leyna að áhuginn á efninu er fyrir hendi enda hafa verið gefnar út bækur um þessi mál. Eftir því sem ég best veit hefur ekki verið sérstaklega fjallað um þessa atburði í myndmáli sem þessu.“