50 ára Hildur er fædd og uppalin í Hafnarfirði og hefur búið þar mestalla tíð fyrir utan fimm ár í Þýskalandi og eitt í Bandaríkjunum. Hún er grunnskólakennari að mennt og vinnur sem aðstoðarmenntastjóri hjá sjálfstætt starfandi grunnskóla í…

50 ára Hildur er fædd og uppalin í Hafnarfirði og hefur búið þar mestalla tíð fyrir utan fimm ár í Þýskalandi og eitt í Bandaríkjunum. Hún er grunnskólakennari að mennt og vinnur sem aðstoðarmenntastjóri hjá sjálfstætt starfandi grunnskóla í Hafnarfirði sem heitir NÚ, en skólinn er fyrir íþróttakrakka á unglingastigi.

„Maðurinn minn hann Kristján Ómar fékk þá fínu hugmynd að stofna sjálfstætt starfandi skóla fyrir íþróttakrakka sem hóf starfsemi sína árið 2016. Þar vinnum við bæði ásamt hreint ótrúlegum hópi af gríðarlega öflugu fólki. Aðaláherslurnar í NÚ eru íþróttir, marksækni og vendinám þar sem nemendur skólast mikið í sjálfstæðum vinnubrögðum og sjálfsábyrgð. NÚ er mjög frábrugðinn hefðbundnum skóla á marga vegu. Til dæmis er lotukerfi þar sem nemendur vinna í þremur fögum í þrjár vikur í senn, kyrrseta er takmörkuð þannig að nemendur skipta á 30 mínútna fresti milli þess að vinna liggjandi, sitjandi og standandi. Allir skóladagar byrja í dagsbirtu klukkan 9.00 nema í desember og janúar, þá mæta þau klukkan 10. Þá byrjar hver skóladagur „mjúkt“ með kennslustund sem kallast NÚvera, sem er blanda af hugleiðslu, líkamsæfingum og uppbyggilegum dagbókarskrifum. Í NÚ er fullkominn líkamsræktarsalur auk þess sem hluti nemenda hjá okkur er á akademíubraut sem er samstarfsverkefni við viss íþróttafélög sem veitir nemendunum tækifæri til þess að æfa aukalega á skólatíma, og svo mætti lengi telja.“

Hildur spilaði lengi handbolta með FH ásamt því að hafa stundað ýmsar íþróttir í gegnum tíðina. Hún stundar göngur og almenna útivist auk þess að vera komin með golfbakteríuna á frumstigi. „Golfið er skemmtileg íþrótt sem hentar vel þegar maður er að eldast aðeins, en annars nærist ég og núllstillist algjörlega við það að vera úti, sama hvort það er á gönguskíðum eða á göngu með hundinn okkar. Svo elska ég að vera með fjölskyldu og vinum í góðu fjöri.“

Fjölskylda Eiginmaður Hildar er Kristján Ómar Björnsson, f. 1980. Synir þeirra eru Fannar Frank, f. 2012, og Hilmir Björn, f. 2014. Börn Hildar eru Daníel Ísak, f. 1996, og Halla María, f. 2001. Foreldrar Hildar eru Erlendsína Helgadóttir og Loftur Gunnarsson sem einnig eru búsett í Hafnarfirði.