Þórarinn Eyfjörð
Þórarinn Eyfjörð
Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis og fyrsti varaformaður BSRB, segir að yfirstandandi viðræður breiðfylkingar félaga í ASÍ og Samtaka atvinnulífsins hafi ekkert með þjóðarsátt að gera. Ekkert samráð hefur verið haft við heildarsamtök opinberra starfsmanna í tengslum við þessar viðræður

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis og fyrsti varaformaður BSRB, segir að yfirstandandi viðræður breiðfylkingar félaga í ASÍ og Samtaka atvinnulífsins hafi ekkert með þjóðarsátt að gera. Ekkert samráð hefur verið haft við heildarsamtök opinberra starfsmanna í tengslum við þessar viðræður.

Stór hugtök sem eiga ekki við

Hann segist telja dálítið sérstakt að talað sé um viðræður breiðfylkingar og þjóðarsáttarsamninga, sem séu mjög stór og yfirgripsmikil hugtök, sem eigi ekkert við í þessu samhengi. „Þetta eru viðræður á milli Samtaka atvinnulífsins og tiltekinna félaga innan ASÍ. ASÍ er ekki að öllu leyti heilt á bak við þetta heldur eru þetta félög sem hafa þó yfir 90% félagsmanna á bak við sig, sem eiga í viðræðum við Samtök atvinnulífsins. Þetta hefur ekkert með þjóðarsátt að gera, ekki nokkurn skapaðan hlut,“ segir hann.

Enginn tekið upp símann

Spurður hvort ekkert samráð sé hafið við opinbera starfsmenn segist hann ekki vita til þess. „Mér vitanlega hefur enginn gert það, hvorki þessir aðilar, ríkisstjórnin né sveitarfélögin. Það hafa engar viðræður eða samtöl átt sér stað á milli þessara launagreiðenda og þeirra stéttarfélaga og bandalaga sem þau semja við, hvorki við BSRB, BHM, KÍ eða hjúkrunarfræðinga eða aðrar stórar stéttir sem eru hjá hinu opinbera. Ég held að ekki nokkur maður hafi tekið upp símann til að ræða við einn eða neinn á þeim vettvangi.“

Fimm kjarasamningar Sameykis losna í lok þessa mánaðar

Þórarinn segir að um þessar mundir, í aðdraganda þess að samningar fara að losna á almennum markaði, séu það eingöngu þessi umræddu ASÍ-félög sem eigi í viðræðum við SA, „það er engin þjóðarsátt í því“.

Flestir stóru kjarasamningarnir á opinbera markaðinum losna 31. mars næstkomandi en Sameyki gerir einnig fimm samninga við opinberu hlutafélögin á borð við Isavia, Fríhöfnina og Rarik, sem renna út í lok janúar. Þórarinn segir að undirbúningur með samninganefndum og vinna við kröfugerðir sé í gangi fyrir lotuna sem er fram undan.

Þið mynduð þá væntanlega ekki sætta ykkur við ef þröngva ætti upp á ykkur orðnum hlut í samningum annarra, jafnvel þótt stjórnvöld greiði fyrir því með opinberum yfirlýsingum?

„Við vitum bara ekkert hvort einhver ætlar að koma fram með einhverjar góðar hugmyndir sem við getum tekið undir. Það hefur ekki komið neitt fram um það. Það kom þessi yfirlýsing á milli jóla og nýárs út frá einhverju samtali sem Samtök atvinnulífsins og þessi tilteknu félög innan ASÍ áttu en sú yfirlýsing segir akkúrat ekki neitt,“ svarar Þórarinn.

Fögur en grunn fyrirheit lagfæra ekki stöðu launafólks

„Þetta er svona viljayfirlýsing um að eiga gott samtal og það er gott í sjálfu sér. Við erum alveg tilbúin að hlusta á og taka undir hugmyndir sem við metum góðar,“ svarar hann en bætir við að almennt launafólk hafi á undanförnum árum mátt þola aðgerðir og aðgerðaleysi bæði stjórnvalda og atvinnurekenda auk annarra stórra leikenda í hagkerfinu. „Einhver fögur en grunn fyrirheit lagfæra ekkert þá stöðu. Það þarf miklu meira til,“ segir Þórarinn Eyfjörð að lokum.