Landsbankinn Nýjar höfðuðstöðvar Landsbankans við Austurbakka.
Landsbankinn Nýjar höfðuðstöðvar Landsbankans við Austurbakka. — Morgunblaðið/sisi
„Þessar takmarkanir eru einn hluti af ráðstöfunum bankans til að verja viðskiptavini fyrir netsvikum,“ segir Rúnar Pálmason, upplýsingafulltrúi Landsbankans, um ástæðu þess að bankinn ákvað að loka fyrir erlendar millifærslur í appi og netbanka hjá viðskiptavinum 70 ára og eldri

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

„Þessar takmarkanir eru einn hluti af ráðstöfunum bankans til að verja viðskiptavini fyrir netsvikum,“ segir Rúnar Pálmason, upplýsingafulltrúi Landsbankans, um ástæðu þess að bankinn ákvað að loka fyrir erlendar millifærslur í appi og netbanka hjá viðskiptavinum 70 ára og eldri.

Grein Braga Guðmundssonar í Morgunblaðinu í gær, þar sem hann sagði farir sínar ekki sléttar eftir að hafa reynt að borga erlendan reikning í heimabanka Landsbankans, vakti mikla athygli. Bragi sagðist hafa fengið skilaboð um að hann þyrfti að hafa samband við bankann til að geta lokið við færsluna þar sem hann væri yfir sjötugt og því líklegt fórnarlamb netglæpa. Hann fór í bankann og þar tókst að ljúka greiðslunni en hann þurfti að greiða fyrir aðstoðina. Bragi var ekki sáttur við þetta, taldi að þetta væri birtingarmynd aldursfordóma og kallaði eftir því að bankinn hætti þessari „sértæku meðferð“.

Margir lent í netsvikum

Rúnar Pálmason var spurður hvers vegna aldurstengdar hömlur væru settar á þessi viðskipti. Hann sagði að talsvert væri um að eldra fólk hefði lent í miklu tjóni vegna netsvika sem tengdust erlendum millifærslum. Þá hefði Bragi ekki þurft að fara í bankann heldur hefði símtal eða netspjall nægt til að opna fyrir hann svo hann gæti lokið færslunni.

„Til að draga úr þessari svikahættu og verja fjármuni eldri viðskiptavina ákváðum við í nóvember 2023 að loka fyrir erlendar millifærslur í appi og netbanka hjá viðskiptavinum sem uppfylltu tvö skilyrði, annars vegar að viðkomandi væri eldri en 70 ára og hins vegar að viðkomandi hefði ekki framkvæmt erlenda millifærslu í mörg ár. Ef viðskiptavinur var eldri en 70 ára og hafði notað erlendar millifærslur áður var ekki lokað fyrir þennan möguleika.“

Rúnar segir að ástæðan fyrir því að þetta hafi ekki verið kynnt eldri borgurum sérstaklega sé að þetta hafi ekki áhrif á marga og eins sé reynt að fjalla sem minnst um öryggisráðstafanir bankans, svo netþrjótar eigi erfiðara með að bregðast við þeim.

Stór iðnaður um allan heim

Helgi Pétursson, formaður Landssambands eldri borgara, segist ekki þekkja til þessara reglna en hafa fullan skilning á því að reynt sé að verja hagsmuni síns hóps. „Það hafa margir eldri borgarar lent í því að tapa stórfé vegna netsvika, og félagið í samstarfi við Neytendasamtökin lét búa til bæklinginn Varkárni á vefnum sem er á vef sambandsins og er góður leiðarvísir fyrir fólk á öllum aldri. Þetta er risastór iðnaður, þessi svikamafía úti um allan heim, og mikilvægt að geta varið sig,“ segir hann.

Ekki aldurstengt í Arion banka

Í Arion banka var lokað fyrir erlendar millifærslur í netbanka hjá öllum sem höfðu ekki notað erlendar millifærslur sl. þrjá mánuði, óháð aldri, segir Haraldur Guðni Eiðsson, forstöðumaður samskiptasviðs bankans. „Allir viðskiptavinir geta framkvæmt erlendar millifærslur í appinu á þegar stofnaða viðtakendur óháð lokuninni. Lokað var fyrir erlendar millifærslur í netbanka til að varna því að svikarar, sem næðu að fá viðskiptavini til að auðkenna sig inn í netbanka, gætu framkvæmt slíkar millifærslur.“