Bergþór Ólason
Bergþór Ólason
Formenn stjórnmálaflokka settust saman og snæddu kryddsíld á gamlársdag. Orkumálin voru fyrst pólitískra mála á dagskrá og einhvern veginn tókst Jóni Gunnarssyni að verða miðdepill umræðunnar á meðan hann spókaði sig sjálfur í Hong Kong

Formenn stjórnmálaflokka settust saman og snæddu kryddsíld á gamlársdag.

Orkumálin voru fyrst pólitískra mála á dagskrá og einhvern veginn tókst Jóni Gunnarssyni að verða miðdepill umræðunnar á meðan hann spókaði sig sjálfur í Hong Kong. Fékk hann því strax viðurnefnið Jón Kong enda í svipaðri stöðu og apinn forðum sem sat lengi fastur í búri en gat á endanum um frjálst höfuð strokið.

En það sem vakti athygli mína í þeirri umræðu var ekki að Jón Kong, sem hafði deginum áður lýst þeirri skoðun sinni í viðtali við Viljann að nauðsynlegt væri að mynda nýjan meirihluta á Alþingi til að „rjúfa kyrrstöðu í orkuuppbyggingu“, væri miðdepill hennar, heldur voru það viðbrögð formanns Framsóknarflokksins.

Sigurður Ingi Jóhannsson hafði fátt um málið að segja og staglaðist þess í stað á því að ríkisstjórnin væri með 37 manna meirihluta og því skipti upphlaup eins þingmanns, í þessu tilviki Jóns Gunnarssonar, litlu máli.

Skrýtið að formaður Framsóknarflokksins skuli gera svo lítið úr alvarlegum athugasemdum þess þingmanns og fyrrverandi ráðherra sem mest stjórnarþingmanna hefur látið sig varða umræðu um orkuframleiðslu á löggjafarþinginu.

Af hverju ætli formanninum hafi þótt mikilvægt að tala niður áhyggjur af orkumálum sem tröllríða samfélaginu um þessar mundir? Af hverju segir hann orkumálin í eðlilegum farvegi, svona í ljósi þess að nú í desember var lagt fram frumvarp sem kvað á um skömmtunarstjóra rafmagns? Kannski var ástæðan sú að formanni Framsóknarflokksins þykir allt til þess vinnandi að draga úr spennustigi innan ríkisstjórnarinnar svo hún geti skakklappast áfram um sinn.

Kannski er ástæðan sú sem kom fram í viðtali við þingflokksformann Framsóknarflokksins á mbl.is 2. janúar sl., þar sem sagði að engin mál orkumálaráðherra hefðu stoppað í ríkisstjórn.

Ég spurði orkumálaráðherrann að nákvæmlega þessu í fyrirspurnatíma á Alþingi rétt fyrir jól, það er hvort einhver raforkutengd mál hefðu stoppað í ríkisstjórn, og fékk engin svör. Hann neitaði líka að svara því hvort hann væri tilbúinn að skoða setningu sérlaga til að koma ákveðnum virkjanakostum hraðar til framkvæmda.

Veit formaður Framsóknarflokksins kannski að það er engin vigt á bak við alvarleg orð og yfirlýsingar nokkurra þingmanna Sjálfstæðisflokksins? Hann veit væntanlega hvernig ráðherrar í ríkisstjórn haga framlagningu mála og orðum sínum við ríkisstjórnarborðið.

Eitt er að ríkisstjórnin sé orkulaus – annað að hún sé óstarfhæf – það er þó sýnu verst ef hún er orðin fórnarlamb kulnunar, þar sem ekkert gengur né rekur, ráðherrar stara út í tómið og klifa á klisjunum í von um að allir hætti bara að spá í þetta. En þeim verður ekki kápan úr því klæðinu, svo alvarleg er staðan og þessa kyrrstöðu þarf að rjúfa.

Höfundur er þingflokksformaður Miðflokksins. bergthorola@althingi.is