Brenna Landsmenn kveðja jólin með þrettándagleði víðsvegar um helgina.
Brenna Landsmenn kveðja jólin með þrettándagleði víðsvegar um helgina. — Morgunblaðið/Ómar
Víðsvegar um landið verður haldið upp á síðasta dag jóla, þrettándann, með ýmiss konar gleði. Brennur verða haldnar í mörgum sveitarfélögum og á vefsíðum þeirra má sjá upplýsingar um viðburði helgarinnar

Sævar Breki Einarsson

saevar@mbl.is

Víðsvegar um landið verður haldið upp á síðasta dag jóla, þrettándann, með ýmiss konar gleði. Brennur verða haldnar í mörgum sveitarfélögum og á vefsíðum þeirra má sjá upplýsingar um viðburði helgarinnar. Miðað við veðurspána mun viðra vel til brennuhalds um landið allt.

Þrettándagleðin í Vestmannaeyjum fer fram klukkan 19 í kvöld þegar kveikt verður á kertum við Hána og gengið niður Höfðaveg, að malarvellinum þar sem ýmsar kynjaverur heilsa upp á gestina. Jólin verða kvödd í Eyjum með flugeldasýningu, blysför, álfabrennu, jólasveinum, tröllum og tónlist.

Annars staðar fara þrettándabrennur af stað á sjálfum þrettándanum, á morgun. Upptalningin hér á eftir er ekki tæmandi.

Flugeldar, brennur og kakó

Þrettándagleði Reykjavíkurborgar fer fram við frístundamiðstöðina Gufunesbæ í Grafarvogi og hefst dagskrá klukkan 17.00. Í Mosfellsbæ leggur blysför af stað frá miðbæjartorginu klukkan 17.30. Förinni er heitið að brennunni sem verður neðan Holtahverfis við Leirvoginn. Í Hafnarfirði verður haldið upp á síðasta dag jóla fyrir framan Tónlistarskóla Hafnarfjarðar og Hafnarfjarðarkirkju klukkan 17.

Í Reykjanesbæ hefst dagskrá klukkan 17 með blysför frá Myllubakkaskóla að hátíðarsvæði við Hafnargötu 12. Þrettándabrennan verður svo á sínum stað við Ægisgötu þar sem gestum verður boðið upp á heitt kakó. Í lok dagskrár verða jólin svo kvödd að hætti Björgunarsveitarinnar Suðurnesja með glæsilegri flugeldasýningu.

Á Húsavík verða jólin kvödd klukkan 18 annað kvöld. Þrettándabrenna og flugeldasýning verða við Skeiðavöll neðan Skjólbrekku. Þrettándagleði Hattar verður haldin í Tjarnargarðinum á Egilsstöðum og að lokum sér Björgunarsveitin á Héraði um glæsilega flugeldasýningu. Dagskrá hefst klukkan 17.30.

Þrettándabrenna og flugeldasýning fer fram á Siglufirði klukkan 18 og hefst dagskrá með blysför frá ráðhústorginu klukkan 17.30. Er fólk hvatt til þess að mæta í grímubúningi.