Birgir Ármannsson
Birgir Ármannsson
Stjórnarskráin 1874 fól í sér margvísleg nýmæli, löggjafarvald og fjárstjórnarvald Alþingis, sem og mikilvæg mannréttindaákvæði.

Birgir Ármannsson

Í dag, 5. janúar, eru liðin 150 ár frá því að Kristján konungur níundi staðfesti með undirskrift sinni „Stjórnarskrá um hin sérstaklegu málefni Íslands“. Hafði þá um nokkurn tíma verið að því stefnt að konungur færði Íslendingum stjórnarskrá í tilefni af 1000 ára afmæli Íslandsbyggðar 1874.

Alþingi hafði fjallað um stjórnarskrármál á allmörgum þingum árin á undan og hafði samþykkt frumvarp þar að lútandi 1873. Konungur varð ekki við þeirri kröfu að veita frumvarpinu lagagildi en fór hins vegar að varatillögu þingsins um að hann skyldi setja Íslendingum sérstaka stjórnarskrá einhliða ef hann féllist ekki á frumvarpið.

Stjórnarskráin var að miklu leyti byggð á dönsku stjórnarskránni frá 1866, sem aftur byggðist á eldri stjórnarskrá frá 1849, en hún átti sér meðal annars fyrirmynd í belgísku stjórnarskránni frá 1831. Varðandi stöðu Íslands innan danska konungsríkisins var stjórnarskráin byggð á fyrirkomulagi stöðulaganna svonefndu frá 1871, sem mætt höfðu harðri andstöðu meðal Íslendinga. Þetta varð til þess að stjórnarskráin mætti mikilli gagnrýni, enda lá ljóst fyrir að Jón Sigurðsson og þeir fjölmörgu, sem honum fylgdu að málum, vildu ganga mun lengra í þá átt að stjórn innlendra mála færðist til Íslendinga sjálfra. Baráttunni fyrir aukinni sjálfstjórn var því engan veginn lokið og var hún sem kunnugt er helsta viðfangsefni íslenskra stjórnmála næstu áratugina.

Stjórnarskráin frá 1874 fól hins vegar í sér ýmis mikilvæg nýmæli. Samkvæmt henni fékk Alþingi löggjafarvald í hinum sérstöku málefnum Íslands með ákveðnum takmörkunum sem og fjárstjórnarvald, en frá því Alþingi var endurreist 1845 hafði það eingöngu haft hlutverk ráðgjafarþings. Staða Alþingis styrktist því til muna við þessa breytingu. Jafnframt voru í stjórnarskránni margvísleg ákvæði til verndar mannréttindum, sem fólu í sér mun sterkari vernd fyrir einstaklingsbundin, borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi en áður. Stjórnarskráin var þess vegna mikilvægur áfangi í stjórnmála- og stjórnskipunarsögunni, þótt enn væri þess langt að bíða að Íslendingar fengju heimastjórn, fullveldi og sjálfstæði.

Á gildistíma sínum var stjórnarskránni frá 1874 breytt tvívegis, árin 1903 og 1915. Árið 1920 gekk í gildi „Stjórnarskrá konungsríkisins Íslands“ sem sett var í kjölfar sambandslaga og fullveldis árið 1918. Þeirri stjórnarskrá var svo breytt árin 1934 og 1942 en 1944 tók gildi stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, þegar tengslin við Danmörku voru að fullu rofin og lýðveldi stofnað. Lýðveldisstjórnarskránni hefur verið breytt átta sinnum á 80 árum, síðast árið 1999. Taka breytingarnar til meirihluta þeirra ákvæða sem nú eru í gildi. Það er því ekki rétt, sem stundum er haldið fram í opinberri umræðu, að Íslendingar búi enn við sömu stjórnarskrá og Kristján IX setti 1874, þótt vissulega sé um að ræða samfellu í stjórnskipunarsögunni.

Á síðustu árum hafa margvíslegar tillögur að stjórnarskrárbreytingum verið til umræðu, sumar býsna róttækar en aðrar varfærnar. Engum þarf að koma á óvart að sá sem þetta ritar telur varfærna nálgun skynsamlegri í þessum efnum. Stjórnarskrá felur í sér grundvallarreglur sem aðrar lagareglur byggjast á, meginreglur um handhafa ríkisvaldsins, valdheimildir þeirra og valdmörk, og loks mannréttindareglur, sem tryggja borgurunum grundvallarréttindi sem handhafar ríkisvaldsins mega ekki skerða. Ákvæði stjórnarskrár eiga að geta staðið óbreytt þótt sviptingar verði í stjórnmálum og því skiptir miklu máli að vandað sé til verka við breytingar og að um þær sé eins víðtæk samstaða og kostur er. Í ýmsum tilvikum geta góð rök verið fyrir endurskoðun og tilteknum breytingum, en full ástæða er nú sem endranær til að vara að við að ráðist sé í breytingar breytinganna vegna.

Höfundur er forseti Alþingis.