Vilhjálmur Þórðarson fæddist á Reykjum á Skeiðum 27. október 1923. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Fossheimum 17. desember 2023.

Foreldrar hans voru Þórður Þorsteinsson bóndi á Reykjum, f. á Reykjum 9. júlí 1877, d. 26. mars 1961, og Guðrún Jónsdóttir húsfreyja á Reykjum, f. í Sandlækjarkoti 19. febrúar 1879, d. 15. nóvember 1979. Vilhjálmur var yngstur 13 systkina, sem nú eru öll látin.

Hinn 5. desember 1959 kvæntist Vilhjálmur eftirlifandi eiginkonu sinni, Ingibjörgu Guðmundsdóttur frá Blesastöðum á Skeiðum, f. 2. september 1925. Þau eignuðust fimm börn: 1) Guðrún Þóra, f. 10. febrúar 1960. 2) Kristín, f. 18. janúar 1963; maki Jóhann Snorri Bjarnason. Dætur Kristínar eru a) Iðunn, f. 1995; maki Sæmundur Rögnvaldsson, dóttir þeirra Kristín Birna f. 2020. b) Bergþóra, f. 1995, maki Helgi Axel Davíðsson, börn þeirra Sumarliði, f. 2021, og Högna Sigríður, f. 2023. 3) Bragi, f. 27. nóvember 1964; maki Stefanía Guðrún Sæmundsdóttir. Börn þeirra eru a) Kristín Jóna, f. 1992; maki Alex Uni Torfason, sonur þeirra Bjarki Fannar, f. 2022. b) Vilborg Lilja, f. 1996; maki Dagur Sölvi Sigurjónsson, sonur þeirra Bragi Hersir, f. 2021. c) Óskar Örn, f. 1998. 4) Drengur, f. 2. september 1967, d. sama dag. 5) Guðmundur, f. 2. september 1967; maki Helga Aðalheiður Ingibjargar Jónsdóttir. Börn þeirra eru a) Ingibjörg Ásta, f. 1996; maki Gunnlaugur Berg Sverrisson. b) Laufey Sigríður, f. 1999. c) Stúlka, f. 6. nóvember 2001, d. sama dag. d) Vilhjálmur, f. 2003.

Vilhjálmur ólst upp á Reykjum og bjó þar til ársins 1956. Þar sinnti hann ýmsum störfum sem til féllu. Vilhjálmur lauk prófi frá Héraðsskólanum á Laugarvatni 1944 og sveinsprófi í húsasmíði árið 1961. Varð trésmíði hans aðalstarf og starfaði hann um áratuga skeið hjá trésmiðju Kaupfélags Árnesinga á Selfossi.

Vilhjálmur og Ingibjörg bjuggu alla sína hjúskapartíð á Selfossi, lengst af á Tryggvagötu 30, sem þau byggðu sjálf, en í nóvember 2022 fluttust þau saman á hjúkrunarheimilið Fossheima.

Útför Vilhjálms fer fram frá Selfosskirkju í dag, 5. janúar 2024, og hefst klukkan 14.

Ég man mjög vel eftir því þegar ég hitti tengdaföður minn í fyrsta sinn haustið 1989. Villi, eins og hann var ávallt kallaður, tók þá á móti mér á Tryggvagötunni með þéttu handabandi. Frá þeim fyrstu kynnum sýndi hann mér ávallt mikla væntumþykju og traust. Villa var umhugað um samheldni fjölskyldu sinnar og farsæld. Hann fylgdist vel með því sem börn hans og barnabörn tóku sér fyrir hendur og hvatti þau til dáða, var alltaf tilbúinn að gefa góð ráð og að rétta hjálparhönd. Höfum við Bragi t.a.m. notið góðra ráða hans síðustu árin og upplifað mikinn áhuga hans á því verkefni okkar að gróðursetja og byggja sumarhús á lóðarspildu úr landi Reykja þar sem hann ólst upp og þekkti hverja þúfu.

Villi átti mjög auðvelt með að blanda geði við fólk og taka þátt í samræðum. Hann gat spjallað við hvern sem var, enda einstaklega víðsýnn og fordómalaus. Hann bjó yfir góðum frásagnarhæfileikum, sagði skemmtilega frá liðnum tímum en var jafnframt vel inni í því sem var að gerast í þjóðfélaginu, allt til hinstu stundar. Fannst mér sérlega eftirtektarvert hvernig hann náði að tengjast og blanda geði við ungt fólk og hversu auðvelt virtist fyrir hann að átta sig á stöðu þess og verkefnum.

Villi tók því með miklu æðruleysi þegar kom að því að hann og Imba þurftu að flytjast á hjúkrunarheimili í nóvember 2022. Var hann þá mjög þakklátur fyrir að þau gætu verið saman á Fossheimum. Við þær breytingar á högum þeirra reyndust vel hæfileikar hans í mannlegum samskiptum.

Samband tengdaforeldra minna, þeirra Villa og Imbu, var einstaklega fallegt og það var gefandi að fylgjast með ást hans og virðingu í hennar garð. Það var virkilega ánægjuleg og falleg stund sem við áttum með Villa í október sl. þegar 100 ára afmæli hans var fagnað. Hann var hinn glaðasti, hafði Imbu sér við hlið, hélt í hönd hennar og tók þátt í fjöldasöng.

Það hefur verið mér mikil gæfa að eiga Villa að sem tengdaföður og eiga samfylgd með honum í yfir 30 ár. Fyrir það verð ég ævarandi þakklát.

Stefanía Guðrún
Sæmundsdóttir.

Afi Villi var 71 árs þegar við systur fæddumst og við vorum annað og þriðja barnabarnið hans af átta sem fæddust á rúmlega 10 árum. Afi var því alltaf gamall afi. Gamall en heilsuhraustur afi sem hafði alltaf tíma í spjall, vangaveltur og verkefni allra þessara barna.

Afi og amma bjuggu alltaf á Tryggvagötu 30 á Selfossi. Húsið þeirra á horninu er umkringt fallegum garði og þaðan sést vel yfir skólalóðina. Við systur vorum svo heppnar að fá að alast upp í næstu götu við ömmu og afa og Tryggvagatan var okkar annað heimili. Fyrsta skóladaginn leiddi afi okkur í skólann og sótti okkur í lok dags. Alla daga eftir það stóð hann í hornglugganum og fylgdist með okkur koma gangandi úr skólanum í hádegismat eða kaffi á Tryggvagötuna.

Afi fylgdist alltaf vel með. Hann fylgdist með okkur og umheiminum út um horngluggann, fylgdist með framkvæmdum og fylgdist með fréttum. Sjónvarpsfréttir sem og útvarpsfréttir fengu að hljóma hátt og skýrt í öllum rýmum hússins, því ekki mátti missa af neinu. Á síðustu árum afa á Tryggvagötunni ómaði jafnvel úr tveimur útvörpum og sjónvarpinu þegar maður kom í heimsókn á meðan afi svaf vært í sófanum í norðurherberginu. Ósjaldan ræddi hann við okkur nýjustu fréttir um rannsóknir á heilsu og næringu og ráðlagði okkur óspart eftir því. Ef einhver átök voru í fréttum talaði afi ekki um að fólk væri vont heldur um skakkan hugsunarhátt. Hann virtist nefnilega sjá hið mannlega í öllum. Afi lifði í heila öld en tók fólki og breytingum í þjóðfélaginu alltaf með opnum huga og fordómaleysi. Maður gat rætt um heims- og þjóðfélagsmálin við hann án þess að finna nokkurn tímann fyrir því að maður væri að ræða við mann fæddan 1923.

Afi fylgdist vel með öllum okkar framkvæmdum og spurði út í þær af áhuga og nákvæmni. Síðasta ár afa bjuggu þau amma á hjúkrunarheimilinu Fossheimum á Selfossi. Þangað tók afi með sér ýmis verkfæri til öryggis og af gömlum vana. Út um gluggann þeirra þar sást vel í fyrirhugað brúarstæði nýrrar Ölfusárbrúar og afi hafði oft orð á því að hann hlakkaði til að fylgjast með brúarbyggingunni. Hann hætti aldrei að sýna áhuga eða leyfa sér að hlakka til en sagði þó glettinn fyrir stuttu að líklega yrðu þeir of seinir að byrja á brúnni.

Afi fylgdist líka vel með okkur og var alltaf tilbúinn að leiðbeina og hvetja. Við systur settumst gjarnan niður á Tryggvagötu eftir skóla til að læra heima og afi hikaði ekki við að færa okkur í sundur ef honum þótti einbeitingin vera orðin of lítil. Þetta gerði hann jafnvel eftir að við vorum komnar í framhaldsskóla. Hann hlýddi okkur yfir margföldunartöfluna og lagði okkur línurnar hvað varðar vandvirkni, einbeitingu og samviskusemi. Jafnvel því einfalda verkefni að ganga á milli staða átti að sinna af einbeitingu og vandvirkni enda dónalegt að borða eða vera í símanum á göngu. Í seinni tíð var afi duglegur að setja sig inn í okkar nám og störf og var áhugasamur fram á síðasta dag. Og aldrei efaðist hann um okkur. Í augum afa gátum við allt ef við sinntum því og vönduðum okkur.

Við urðum þeirrar gæfu aðnjótandi að geta kynnt börnin okkar fyrir afa þótt það væru um 100 ár á milli þeirra. Alltaf þótti honum þau bera af á öllum sviðum („óvenju bráðger og fljót til“) og sagði okkur það óspart og einlæglega.

Einlægni og hlýja einkenndu samband okkar við afa. Við hikuðum aldrei við að príla upp í fangið á honum sem börn og alla tíð héldumst við mikið í hendur. Hann tók alltaf vel á móti okkur og við kvöddumst yfirleitt með rembingskossi og enni við enni. Þannig kvöddum við afa í síðasta sinn laugardaginn 16. desember. Með kossi, enni við enni og orðum sem við látum standa: Hvíldu þig nú, afi minn, við sjáumst bráðum.

Bergþóra Kristínardóttir, Iðunn Kristínardóttir.

Við systkinin minnumst afa á Selfossi með mikilli hlýju og þakklæti. Heimili ömmu og afa á Tryggvagötu var alltaf opið og eyddum við systkinin miklum tíma þar í æsku. Þar voru allir velkomnir og öllum tekið vel, sama hvort það var nánasta fjölskylda eða aðrir vinir og vandamenn. Mikli gestagangurinn hjá þeim var sönnun þess hvað fólki þótti gott að vera í kringum þau.

Sumrin hjá ömmu og afa einkenndust af löngum dvölum þar sem við fórum ýmist á reiðnámskeið eða hjálpuðum til við garðvinnu í garðinum á Tryggvagötu. Um jólin voru samverustundirnar einnig miklar og fátt jafnaðist á við langt kaffiboð hjá ömmu og afa þar sem margar sortir voru bornar á borð og móttakan alltaf svo hlý.

Afi Villi var einstaklega umhyggjusamur, mikill fjölskyldumaður og vissi alltaf hvað öll barnabörnin voru að gera hverju sinni. Hvort sem það tengdist námi, vinnu eða öðrum ævintýrum var hann alltaf áhugasamur og tilbúinn með góð ráð. Hann sá það góða í hverjum manni og mætti öllum með áhuga, vinsemd og einstakri nærveru.

Afi Villi hafði opinn huga og bjó yfir þeim góða eiginleika að geta hlustað á fólk af einlægni og áhuga. Hann var okkur systkinum mikil fyrirmynd um það hvernig ætti að koma fram við fólk, um mikilvægi þess að rækta sambönd við fólkið sitt og að vinna öll verk vel.

Hann lagði mikið upp úr því að samverustundir fjölskyldunnar yrðu margar og að við stæðum saman. Þau amma lögðu grunninn að þeirri góðu samheldni sem fjölskyldan hefur átt og þeirri vináttu sem ríkt hefur innan hennar. Minning hans og viðhorf til lífsins munu fylgja okkur systkinum um ókomna tíð.

Ingibjörg Ásta, Laufey Sigríður og Vilhjálmur.

• Fleiri minningargreinar um Vilhjálm Þórðarson bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga.