Claudine Gay
Claudine Gay
Harvard-háskóli hefur lengi þótt einn fínasti háskóli heims, en skólaárið kostar um 14 m.kr. og hefur lengstum þótt góð fjárfesting. Nú eru blikur á lofti, gráðurnar þaðan þyki ekki allar jafnfínar lengur, umsóknum um skólavist hefur fækkað og gjafafé gamalla stúdenta minnkað

Harvard-háskóli hefur lengi þótt einn fínasti háskóli heims, en skólaárið kostar um 14 m.kr. og hefur lengstum þótt góð fjárfesting. Nú eru blikur á lofti, gráðurnar þaðan þyki ekki allar jafnfínar lengur, umsóknum um skólavist hefur fækkað og gjafafé gamalla stúdenta minnkað.

Á þriðjudag dró til tíðinda þegar Claudine Gay rektor Harvard sagði af sér vegna ritstuldar. Fyrir nemendur er slíkt brottrekstrarsök, en Gay heldur samt prófessorsstöðu og fullum rektorslaunum.

Vandræði Gay hófust hins vegar fyrir mánuði á þingnefndarfundi um gyðingaandúð í háskólum. Hún og tveir aðrir háskólarektorar voru einstaklega loðnir í svörum, en Gay sagði m.a. að það ylti á samhenginu hvort innan múra Harvard mætti hvetja til útrýmingar gyðinga eða ekki!

Ekki þótti skárra þegar Gay varði gyðingahatrið og bar málfrelsið óvænt fyrir sig. Enginn bandarískur háskóli stendur sig verr að því leyti, málfrelsið stendur höllum fæti í Harvard, þar má ekki segja hvað sem er og þar má ekki hver sem er tala.

Óljóst er af hverju Gay var leidd til hásætis háskólasamfélags heimsins. Eftir hana liggur sáralítið á fræðasviðinu og stjórnunarreynslan afar takmörkuð. Hún hafði hins vegar haft sig mikið í frammi um fjölbreytileika, jöfnuð og inngildingu. En ef slíkt dyggðabrölt er í öndvegi og fræðin skör lægra, helförin spurning um samhengi og ritstuldur ekki tiltökumál, af hverju ættu foreldrar að verja ævisparnaðinum í að senda börn sín þangað eða í ámóta stofnanir til þess að vanbúa þau fyrir lífið?