[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Breski píanóleikarinn kom, sá og sigraði með flutningi sínum á píanókonsert nr. 2 eftir Sergej Rakhmanínov með Sinfóníuhljómsveit Íslands í Hörpu hinn 23. febrúar 2023. Leikur hans var í senn ljóðrænn og kraftmikill og hann lék þennan fingurbrjót af fádæma öryggi

„Þeir voru stuttir en snarpir, tónleikarnir í Föstudagsröð Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Hallgrímskirkju hinn 6. október 2023. Þar var boðið upp á nokkurs konar portrett-tónleika af verkum Önnu Þorvaldsdóttur, staðartónskálds Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Anna hefur á undanförnum árum skipað sér í fremstu röð tónskálda á heimsvísu og því var eftirvæntingin mikil og kirkjan þétt setin. Á efnisskránni voru verkin METACOSMOS, Heyr þú oss himnum á, Ad Genua og ARCHORA og einkenndist leikur Sinfóníuhljómsveitar Íslands (undir stjórn Evu Ollikainen) af dýpt. Kór Hallgrímskirkju og sópransöngkonan Bryndís Guðjónsdóttir voru frábær.“

„Ég er stundum spurður að því hvort stjórnandi skipti virkilega máli. Hann gerir það svo sannarlega eins og Barbara Hannigan sýndi okkur með eftirminnilegum hætti þegar hún stjórnaði Golfam Khayam (heimsfrumflutningur), Joseph Haydn og Gustav Mahler í Hörpu hinn 15. júní 2023. Meðal annarra orða, hljómsveitarstjórar eru ekki allir jafn góðir – svo vægt sé til orða tekið. Hannigan sló fyrst í gegn með Sinfóníuhljómsveit Íslands árið 2022 (með mjög ólíku prógrammi) og hún er væntanleg aftur í apríl á þessu ári með efnisskrá sem samanstendur af Richard Strauss og Francis Poulenc. Tónleikarnir árið 2023 voru endurteknir í Hofi á Akureyri.“

„Flutningur Strokkvartettsins Sigga, þeirra Unu Sveinbjarnardóttur, Helgu Þóru Björgvinsdóttur, Þórunnar Óskar Marinósdóttur og Sigurðar Bjarka Gunnarssonar, á verkum eftir Ludwig van Beethoven, Finn Karlsson og Robert Schumann (Bjarni Frímann Bjarnason lék á píanóið í Schumann) hinn 12. nóvember 2023 í Hörpu var fyrsta flokks. Jafnræðis gætti meðal hljóðfæra og flutningur var á dýptina, tónlistarlega séð. Það er ekki einfalt mál að leika í strengjakvartett – eða þá kammertónlist yfir höfuð – en allir flytjendur skiluðu sínu og vel það. Þessir fjórðu tónleikar Kammermúsíkklúbbsins á starfsárinu 2023-2024 voru hljóðfæraleikurunum til sóma og það var greinilegt af viðbrögðum í þétt setnum Norðurljósasalnum að áheyrendur kunnu að meta flutninginn.“