Flutningar Um 17 þúsund skip fara árlega í gegnum Súesskurðinn.
Flutningar Um 17 þúsund skip fara árlega í gegnum Súesskurðinn. — AFP/Axel Heimken
Árásir vígamanna Húta á flutningaskip í Rauðahafi hafa þegar valdið umtalsverðu tjóni, sem kemur bæði fram í töfum á afhendingu og verðhækkunum. Eins og fjallað var um í ViðskiptaMogganum í vikunni hófu Hútar, sem njóta stuðnings Írans og ráða nú…

Árásir vígamanna Húta á flutningaskip í Rauðahafi hafa þegar valdið umtalsverðu tjóni, sem kemur bæði fram í töfum á afhendingu og verðhækkunum. Eins og fjallað var um í ViðskiptaMogganum í vikunni hófu Hútar, sem njóta stuðnings Írans og ráða nú yfir hluta Jemen, að gera árásir á gámaskip á alþjóðlegum siglingaleiðum í Rauðahafi í nóvember sl. Árásirnar eru gerðar í þeim tilgangi að fjármagna Hamas-samtökin í Palestínu.

Innflytjendur bílahluta, fataverslanir, raftækjaverslanir, húsgagnaverslanir og aðrir smásalar í Evrópu hafa þegar gefið út að tafir geti orðið á afhendingu vegna tafa á siglingaleiðum. Á vef BBC í gær kom fram að verð á sjóflutningum hefur nú þegar hækkað um 4-5%. Á vef Reuters, þar sem fjallað er ítarlega um verðhækkanir, kemur fram að hækkanirnar muni skila sér í verðhækkunum í Evrópu og á austurströnd Bandaríkjanna. Mikill kostnaður felst í lengri siglingum, töfum á afhendingu sem og öryggisgæslu kjósi skipafélög að sigla áfram um Rauðahaf.

Siglingaleiðin sem um ræðir er ein sú fjölfarnasta í heimi, enda styttir hún verulega leiðina á milli Asíu og Evrópu. Ef tekið er dæmi um leið frá Taívan til Hollands, sem liggur um Indlandshaf, Rauðahaf, í gegnum Súesskurðinn í Egyptalandi og Miðjarðarhaf, þá er siglingaleiðin um 10.000 sjómílur og tekur um 25 daga. Um 17 þúsund skip fara árlega í gegnum Súesskurðinn. Vegna árása Húta horfa skipafélög nú til þess að sigla fyrir Góðrarvonarhöfða í Suður-Afríku. Sú leið er um 13.500 sjómílur og lengir siglinguna um tíu daga.