Stórfjölskyldan Helga og Jóhann ásamt börnum, tengdasonum og barnabörnum við Pieve Santo Stefano í Toskana á Ítalíu sumarið 2022.
Stórfjölskyldan Helga og Jóhann ásamt börnum, tengdasonum og barnabörnum við Pieve Santo Stefano í Toskana á Ítalíu sumarið 2022.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helga Bragadóttir fæddist 5. janúar 1954 í Reykjavík og bjó fyrstu árin á Bárugötu 14, í húsi afa síns og ömmu. „Ég man þar eftir gróðursæla garðinum og því að heimsækja ömmu og afa á efri hæðina

Helga Bragadóttir fæddist 5. janúar 1954 í Reykjavík og bjó fyrstu árin á Bárugötu 14, í húsi afa síns og ömmu. „Ég man þar eftir gróðursæla garðinum og því að heimsækja ömmu og afa á efri hæðina. Ég var á Drafnarborg, sem var skemmtilegur leikskóli.

Ég flutti þriggja ára í Eskihlíðina í blokk. Blokkin var byggð af félagi starfsmanna Landspítalans, margt góðra nágranna þar og barnafjöldi. Kostir fjölbýlishússins eru margir og Hlíðarnar þá sem nú fjölbreytt og gott hverfi. Ég var á leikskólanum Grænuborg, sem þá stóð á Landspítalalóðinni.“

Helga gekk í þrjá vetur í Hlíðaskóla og var í píanótímum hjá Helgu Laxness á Laugaveginum. „Ég dvaldi fimm ára eitt ár í Stokkhólmi með foreldrum mínum, sem þar voru við störf eftir nám. Mjög eftirminnilegur tími, sumar sem vetur, og Stokkhólmur skipar sérstakan sess í huga mér æ síðan. Fjölskyldan stækkaði og foreldrarnir byggðu í Hjálmholti, austan við vatnsgeymi. Skemmtilegir útileikir, líf og fjör og nýir leikfélagar.“

Helga sinnti barnapössun og var í sveit á sumrin. „Fyrst í Vík í Skagafirði á sveitaheimili hjá heiðurshjónunum Hauki Hafstað og Áslaugu Sigurðardóttur. Skemmtilegasti leikurinn var að byggja bú, leggja drög að staðsetningu og starfsemi húsa o.s.frv. Kannski var það fyrsta arkitektahugsunin en auðvitað var líka skemmtilegt að vera innan um skepnur og búskapinn.

Ég var mikið á Gljúfrasteini hjá frænkum mínum Dunu og Siggu og oft var þá farið í heimsókn á næsta bæ, Hraðastaði. Ég dvaldi líka á Kirkjubæjarklaustri hjá Jónu föðursystur minni og manni hennar, sr. Sigurjóni Einarssyni presti þar til margra ára, sinnti barnapössun og vann á Hótel Eddu.“

Helga fór í Æfingadeild Kennaraskólans eins og barnaskólinn hét þá þegar hún flutti í Hjálmholtið og síðan í gagnfræðaskólann Hagaskóla, ásamt nokkrum bekkjarfélögum úr Æfingadeildinni. „Í báðum þessum skólum eignaðist ég vini fyrir lífstíð. Við fjölskyldan fórum mikið í sund í Vesturbæjarlaugina og í Norræna húsið og ég sótti í Vesturbæinn á þessum árum. Ég var í píanónámi í Tónlistarskólanum um hríð og get nú spilað jólalögin fyrir barnabörnin.“

Sumarstörf Helgu á unglingsárum voru í unglingavinnunni og Kirkjugörðunum. „Ég hef alltaf haft gaman af garðyrkjustörfum. Var eitt sumar í Danmörku og hluta úr öðru á Englandi og í Frakklandi, náði tökum á tungumálunum, sem hefur komið sér vel.

Það voru mjög skemmtilegir tímar í nýja Menntaskólanum í Hamrahlíð, nýir vinir, góðir kennarar og vinabönd treyst fyrir lífstíð. Ég varð stúdent fyrir hálfri öld, söng í MH-kórnum og var síðar í Háskólakórnum og Mótettukórnum.“ Helga stundaði nám í Arkitektaháskólanum í Osló 1975-1981, með viðkomu í HÍ fyrsta árið eftir stúdentsprófið í heimspekilegum forspjallsvísindum og listasögu. „Hugurinn hneigðist þá þegar til náms í arkitektúr. Þetta var stíft og gott nám í Osló, skemmtilegt félagslíf og afbragðs aðstæður fyrir gönguskíði við túnfótinn.

Við Jóhann fluttum heim vorið 1981, bjuggum um tíma í Lækjum og Hlíðum en lengst af í Vesturbænum þar sem börnin okkar ólust upp og við búum enn. Við vorum í tæpt hálft ár, 1991, í La Rochelle á vesturströnd Frakklands við störf og nám, eftirminnilegur tími fyrir alla fjölskylduna.“

Helga byrjaði að starfa að skipulagsmálum hjá Reykjavíkurborg sem sumarstarfsmaður fyrir 45 árum og vann 2/3 hluta starfsferilsins mestmegnis þar, síðustu fimm árin sem skipulagsfulltrúi borgarinnar. „Þetta var fjölbreytt, krefjandi og gefandi starf og miklar breytingar áttu sér stað á þeim tíma. Frá 2007 hef ég síðan unnið hjá Kanon arkitektum á Laugaveginum, einkum við margvísleg skipulagsmál. Það hefur verið spennandi og skemmtilegt. Ég tók þátt í samkeppnum og var m.a. verkefnisstjóri deiliskipulags fyrir Nýjan Landspítala á Landspítalalóð og vann að aðalskipulagsgerð á Suðurnesjum.

Það er mjög gefandi að sjá borgina breytast til hins betra og byggjast upp samkvæmt vinnu sem maður hefur komið að. Kringum aldamótin síðustu var gert mikið átak í gerð deiliskipulags, m.a. í miðborginni, henni til styrktar. Eftir tilkomu verslunarmiðstöðva og uppbyggingar til austurs hafði dregið verulega úr þrótti miðbæjarins og almenn bílaeign ýtti undir þenslu í úthverfin. Strax eftir aldamótin var sett fram stefnumörkun í aðalskipulagi borgarinnar um að þétta byggð, m.a. til að nýta innviði og draga úr því að brjóta nýtt land undir byggð. Breytingar á starfsháttum og landnotkun gerðu það að verkum að svæði nærri miðbæ, svokölluð umbreytingarsvæði, losnuðu til byggingar íbúða og þjónustu og verslunar. Í kjölfarið breytast samgönguhættir og ég er spennt að sjá uppbyggingu borgarlínunnar á höfuðborgarsvæðinu verða að veruleika.“

Helga sat í stjórn Arkitektafélagsins um tíma sem ritari og ritstjóri Arkitíðinda sem þá voru gefin út.

Áhugamál Helgu eru margs konar. „Heimilið okkar er heilsársbústaður og við njótum garðvinnu og útiveru hér. Við áttum bátinn Blika í félagi við aðra um 15 ára skeið, ég er ekki mikill sjóari en það er gaman að sigla um Sundin og veiða – ef vel veiðist.

Ég hef stundað gönguferðir árlega að sumri til með Sátunum – samstarfskonum og vinum. Hjólreiðar og ganga eru hluti daglegra samgangna. Samvera með börnum og barnabörnum, hundum Sigurjóns og Jóhannesar, þeim Muggi og Húgó, ásamt vinum og vandamönnum. Lestur og hannyrðir, leikhús, tónleikar og listsýningar ásamt skíðaiðkun og ferðalögum eru helstu áhugamálin. Viðfangsefnin eru mörg og ég nýt þess að ráðstafa mínum tíma við tímamót, þegar föstu starfi lýkur. Arkitektúr og skipulagsmál skipa eftir sem áður veglegan sess.“

Fjölskylda

Eiginmaður Helgu er Jóhann Sigurjónsson, f. 25.10. 1952, sjávarlíffræðingur og fv. forstjóri Hafrannsóknastofnunar og sendiherra. Þau eru búsett í Vesturbænum í Reykjavík. Foreldrar Jóhanns voru hjónin Sigurjón Sigurðsson, lögreglustjóri í Reykjavík, f. 16.8. 1915 í Reykjavík, d. 6.8. 2004, og Sigríður Magnúsdóttir Kjaran, húsmóðir og myndlistarmaður, f. 9.2. 1919 í Reykjavík, d. 4.11. 2011.

Börn Helgu og Jóhanns eru: 1) Fríða Sigríður, f. 28.12. 1982, verkfræðingur í Reykjavík, maki: Ólafur Sindri Helgason hagfræðingur. Synir þeirra eru Jóhann Helgi, f. 30.11. 2015, og Sigurjón Magni, f. 1.11. 2018; 2) Soffía Dóra, f. 24.10. 1987, lögfræðingur í Reykjavík, maki: Rúnar Ingi Einarsson leikstjóri. Sonur þeirra er Einar Jóhann, f. 16.10. 2020; 3) Sigurjón, f. 29.1. 1990, skipulagsfræðingur í Reykjavík, maki: Jóhannes Davíð Purkhús læknir.

Systkini Helgu eru Halldóra Kristín, f. 21.5. 1960, arkitekt í Reykjavík, gift Árna B. Björnssyni verkfræðingi, og Sveinn Bragason, f. 22.1. 1962, arkitekt í Reykjavík, kvæntur Unni Styrkársdóttur erfðafræðingi.

Foreldrar Helgu voru hjónin Bragi Þorsteinsson, verkfræðingur í Reykjavík, f. 8.3. 1923 í Sauðlauksdal, V-Barð., d. 25.6. 2016, og Fríða Sveinsdóttir, húsmóðir og læknaritari í Reykjavík, f. 25.1. 1922 á Eyrarbakka, d. 19.11. 2015.