Vilborg Inga Kristjánsdóttir fæddist 13. maí 1936 í Reykjavík. Hún lést í faðmi fjölskyldunnar á Hjúkrunarheimilinu Eir 14. desember 2023.

Foreldrar Vilborgar Ingu voru Kristján Kristjánsson skipstjórin f. 8.4. 1898, d. 25.8. 1988, og Margrét Ingvarsdóttir húsfrú, f. 23.5. 1911, d. 18.8. 2003. Systkini Vilborgar Ingu eru Kristján, f. 1934, Ingvar, f. 1939, Gíslína, f. 1941, og Unnur, f. 1943, d. 2006.

Vilborg giftist Ríkharði Guðjónssyni bifvélavirkja, f. 2.4. 1934, d. 5.11. 1993, og átti með honum tvo syni, Kristján Björn, f. 1955, og Guðjón Ásbjörn, f. 1958.

Kristján Björn á þrjú börn með eiginkonu sinni Þórunni B. Einarsdóttur. Þau eru Ríkharður Einar, f. 1974, Vilberg Ingi, f. 1976, og Kristbjörg Ragna, f. 1982. Einnig áttu þau fósturson, Aron Sölva, sem er látinn.

Ríkharður Einar á með eiginkonu sinni Þurý M. Sigurlaugsdóttur einn son, Benedikt Björn, en af fyrra sambandi átti Þurý eina dóttur, Hafrúnu Harðardóttur.

Vilberg Ingi á með eiginkonu sinni Ásdísi Lilju Pétursdóttur tvær dætur, Birgittu Sól og Hjördísi Maríu. Ásdís Lilja á frá fyrra sambandi soninn Andra Má Magnason.

Kristbjörg Ragna á með eiginmanni sínum Hauki Berg Guðmundssyni dótturina Bergdísi Brá. Kristbjörg á úr fyrri samböndum soninn Kristján Pál Bjarnason og systurnar Sonju Ósk og Þórunni Björg Bjarnadætur og soninn Vilberg Magnús Sigurðarson.

Vilborg Inga ólst upp í Reykjavík og gekk hefðbundna skólagöngu. Á sínum yngri árum vann hún ýmis störf en þegar hún giftist einbeitti hún sér að fjölskyldunni og uppeldi á sonum sínum. Þegar þeir voru orðnir fullorðnir réð hún sig til Landsbanka Íslands og vann þar í rúm tuttugu ár í mötuneyti bankans. Þegar því lauk hélt hún heimili með yngri syni sínum þar til hún fór á Hjúkrunarheimilið Eir þar sem hún lést 14. desember.

Útför Vilborgar Ingu fer fram frá Guðríðarkirkju í Grafarholti í dag, 5. janúar 2024, kl. 13.

Elsku mamma, þú gafst mér lífsgjöfina. Við höfum fylgst að í 65 ár í blíðu og stríðu. Þú hefur stutt mig og hughreyst þegar boðaföll hafa gengið yfir. Það er við hæfi að ég birti hér kvæðið sem ég færði þér að gjöf á 80 ára afmælisfögnuðinum þínum sem var gleðileg stund. Það segir allt frá hjarta mínu til þín.

Hér stendur þú

á heiðursdegi merkum

já – heill sé þér,

því stolt þú vera mátt

af þínum verkum!

Ég þakka þér.

Ég minnist þess,

þitt blíðubros,

var barnsins mesta ljós.

Þú gafst mér kjark

þú gafst mér þor,

ég gladdist við þitt hrós.

Ég minnist þess

hve mild og mjúk

var móðurhöndin blíð.

Faðmur þinn

var friðarskjól

og röddin undurþýð.

Á göngu minni

um lífsins garð

og götur, jarðarból,

þú fylgir mér –

þú ert og verður

heiðbjört kærleikssól.

(Hamar, maí 2016)

Að lokum þakka ég þér af djúpri ást fyrir samfylgdina og við munum hittast síðar.

Þinn sonur,

Guðjón Ásbjörn
Ríkharðsson.

Elsku besta langamma (amma Vilborg).

Við erum svo þakklát fyrir allar stundirnar sem við áttum með þér. Spánarferðin er þar ofarlega í huga, enda margar gæðastundir sem við áttum með þér þar. Kappsundið, flotæfingarnar, ferðirnar sem við fengum far með þér á rafskutlunni, veitingastaðirnir þar sem ekki vantaði brandarana t.d. þegar við vorum að borða önd og þú varst með „öndina í hálsinum“ og svo margt fleira.

(Andri Már) Minnist þess þegar ég var í pössun hjá þér í Austurberginu og fékk að horfa á teiknimyndir á spólum. Skildi samt ekkert í því að þú slökktir í miðri mynd af því að þú máttir ekki missa af Leiðarljósi.

(Birgitta Sól) Minnist þess þegar við fórum saman í Mjóddina og ég sá draumaprinsessukjólinn í einum búðarglugganum og auðvitað labbaði ég í honum út. Einnig situr sterkt í mér að alltaf þegar við löbbuðum út frá þér fylgdir þú okkur út á svalir, beiðst eftir að við værum komin niður og veifaðir til okkar þá.

(Hjördís María) Minnist þess þegar þú komst til okkar vestur og við tókum rúnt um Snæfellsnesið í góðu veðri. Fórum að vaða saman í Djúpalóni og stoppuðum í laut á Arnarstapa þar sem þú kenndir mér að gera blómakrans úr fíflum.

Húmorinn sem þú hafðir var einstakur og hann sýndir þú óspart alveg fram á síðasta dag.

Elsku amma, minning þín er ljós sem lifir.

Andri Már, Birgitta Sól og Hjördís María.

Elsku amma.

Góðar minningar streyma um huga mér nú þegar þú ert farin á fund afa.

Það sem einkenndi þig var vinsemd, glaðværð, rólegheit, yfirvegun, húmor og traust. Aldrei heyrði ég þig hallmæla fólki og sama hvað, þá kvartaðir þú aldrei yfir neinu.

Gleymi aldrei þegar þú baðst okkur bræður að þeyta rjóma í einni af bústaðarferðunum. Þú sagðir að við mættum alls ekki þeyta hann of lengi, því þá yrði hann að smjöri. Þetta þótti okkur áhugavert enda vissum við ekki að það væri hægt að breyta rjóma í smjör. Við urðum því að prófa. Þeyttum við rjómann þangað til hann varð að smjöri og biðum eftir viðbrögðum frá þér. Þú reiddist ekki en sagðir með yfirvegun: „Þið skuluð samt fá að borða þetta smjör.“ Við héldum ekki. Við fengum þar með engan rjóma með pönnukökunum þennan dag. Eftir hádegismatinn daginn eftir, þar sem súpa var á boðstólum, sagðir þú: „Jæja strákar, þá eruð þið búnir að borða smjörið.“

Ég minnist allra bústaðarferðanna með þér og afa, heimsóknanna í Austurberg þar sem þú gast alltaf töfrað fram matarboð með stuttum fyrirvara, heimsóknanna til okkar vestur og Spánarferðarinnar sem þú komst í með okkur hjónum og krökkunum.

Ég vil þakka þér fyrir allt, þú hefur reynst mér og mínum vel.

Þú munt alltaf eiga stóran stað í hjarta okkar. Minningarnar um þig munu fylgja okkur um ókomin ár.

Vilberg Ingi
Kristjánsson.

• Fleiri minningargreinar um Vilborgu Ingu Kristjánsdóttur bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga.