Sjúkraflug Flugvél af gerðinni Beechcraft Super King Air bættist í flotann hjá flugfélaginu Norlandair.
Sjúkraflug Flugvél af gerðinni Beechcraft Super King Air bættist í flotann hjá flugfélaginu Norlandair. — Ljósmynd/Norlandair
Umsvif flugfélagsins Norlandair aukast umtalsvert á nýju ári en um áramótin tók félagið formlega við sjúkraflugi á landsbyggðinni. Félagið hefur þegar ráðið til sín tíu flugmenn og að sögn framkvæmdastjórans Arnars Friðrikssonar virðist ekki vera skortur á flugmönnum á landinu að svo stöddu

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Umsvif flugfélagsins Norlandair aukast umtalsvert á nýju ári en um áramótin tók félagið formlega við sjúkraflugi á landsbyggðinni.

Félagið hefur þegar ráðið til sín tíu flugmenn og að sögn framkvæmdastjórans Arnars Friðrikssonar virðist ekki vera skortur á flugmönnum á landinu að svo stöddu.

„Við erum búin að ganga frá ráðningu á tíu flugmönnum sem eru nú í þjálfun. Mér sýnist að við munum væntanlega ráða fjóra til fimm í viðbótar á þessu ári. Stundum er talað um yfirvofandi skort á flugmönnum en sem betur fer höfum við ekki fundið fyrir því. Þetta er reyndar markaður sem getur snarbreyst á augabragði,“ segir Arnar sem sjálfur tók við framkvæmdastjórn félagsins um áramótin.

Norlandair er með tvær tegundir í flugvélagaflotanum. Annars vegar þrjár Beechcraft King Air og hins vegar þrjár Twin Otter. Festi félagið kaup á einni Beechcraft vegna sjúkraflugsins en Norlandair bauð lægst í útboði í sjúkraflug á landsbyggðinni á síðasta ári. „Tvær vélar verða meira eða minna í þessu verkefni eins og útlitið er.“

Sjúkraflug hefur aukist

Arnar bendir á að félagið hafi sinnt sjúkraflugi frá því það var stofnað en nú aukist umsvifin. Áður hefur félagið séð um sjúkraflutninga til og frá Nuuk á Grænlandi. Nú sinnir Norlandair í fyrsta skipti sjúkraflugi hér innanlands og tekur við þjónustunni af Mýflugi.

„Við tókum við samningnum á gamlárskvöld. Nú er verið að flytja búnaðinn úr aðalvélinni hjá Mýflugi yfir í aðalvélina okkar vegna þess að Sjúkratryggingar Íslands skaffa búnaðinn. Til að koma í veg fyrir skerðingu á þjónustunni erum við með varavél í notkun á meðan og næstu fjórtán dagana verður Mýflug einnig með viðbragð til vara.“

Sjúkraflug hefur aukist á Íslandi á umliðnum árum og Arnar telur að ferðirnar gætu verið í kringum 900 á ári en hefur ekki séð tölur síðasta árs.