— Morgunblaðið/Árni Sæberg
Guðni Jóhannesson forseti kom löndum sínum á óvart, þegar hann tilkynnti óvænt í árslok, að hann hefði þegar gert upp sinn hug um að sækjast ekki eftir því að gegna sínu virðulega embætti áfram, nú þegar síðara kjörtímabili hans lyki á komandi sumri.

Guðni Jóhannesson forseti kom löndum sínum á óvart, þegar hann tilkynnti óvænt í árslok, að hann hefði þegar gert upp sinn hug um að sækjast ekki eftir því að gegna sínu virðulega embætti áfram, nú þegar síðara kjörtímabili hans lyki á komandi sumri.

Taka skal fram, að engin krafa lá í loftinu, svo vitað sé, um að einhver, og þaðan af síður fjöldinn, teldi það orðið tímabært að settur yrði punktur á valdaferil Guðna. Satt best að segja, þá hefur aldrei á lýðveldistíð nokkru sinni verið uppi krafa af slíku tagi, sem eitthvað munaði um, varðandi forsetann, þótt aldrei sé útilokað að einhverjir hafi muldrað hver í sínu horni, þó ekki væri nema af gömlum og grónum vana.

Konunglegir halda vinsældum

Þeir, sem telja sig meiri lýðræðissinna en við „hinir“, skrúfa stundum upp á nef sér og segja að konungborinn æðsti prestur í ýmsum löndum „sé auðvitað tímaskekkja“, á lýðræðistíð, sem er svo sem aldrei rökstutt. Nú þegar Margrét II., sem eitt sinn var okkar prinsessa, tilkynnti einnig öllum að óvörum, að hún hefði ákveðið að hverfa úr embætti, ekki síst vegna bakveiki, var mörgum þegna hennar illa brugðið, enda hefur hún lengi notið hylli og virðingar. Sonur hennar Friðrik X. tekur við.

Skemmst er að minnast þess hvernig breskum þegnum varð við, þegar Elísabet drottning II. féll frá sama daginn og hún hafði tekið við afsögn frá einum forsætisráðherra og sett annan í embætti. Hún var 96 ára gömul og elskuð af þjóð sinni, starfssöm og örugg. Lýðræðið er fjarri því að vera sú meginregla um oddamann ríkisins, eins og sumir láta. Það bætist svo við, að landmestu ríki veraldar taka lýðræðisreglur ekki mjög alvarlega, og nefna mætti Kína og Rússland sem dæmi, svo augljóst sem það er. Rússland hefur ýmis ytri merki um lýðræði, en fyrirbærið er þó fjarri því að vera truflandi fyrir þann sem situr í gullnum sal í Kremlarkletti. Ekki þarf að minna á hryggðarsögu kommúnismans, sem þar hélt uppi einræði í rúm 70 ár og þeir Malenkov, Krústsjov og Brésnev, félagar í miðstjórninni, tóku við eftir lögmáli hins sterka. Eftir að „múrinn“ hrundi, fyrir rétt tæpum aldarfjórðungi, ákvað Jeltsín forseti með lýðræðislegu atkvæði sínu einu, að Pútín, sem hafði snúist í ýmsu fyrir hann á lokasprettinum, væri kosinn með öllu atkvæði þess fráfarandi og þótti það sannfærandi sigur og hefur dugað Pútín til þessa. Nokkrum sinnum hafi menn á því langa skeiði verið með lýðræðistilburði til skrauts, en helst skaffað andstæðingum síns valds húsnæði og lágmarksmeðlæti og myndarlegan tíma til að hugsa sinn gang.

Kína er að mestu eins manns lýðræði og hefur um margt aukist að afli og getu, ekki síst eftir að þeir snillingar, Nixon forseti og Kissinger ráðgjafi hans, opnuðu þá dulúð sem lauk um Kína og í því alræði öreiganna er nú fjöldi fjárfesta, sem komið hafa ár sinni vel fyrir borð og hefur stundum verið fullyrt að í Kína séu nú fleiri milljarðamæringar í dollurum talið en í Bandaríkjunum sjálfum. En þótt á því kunni að vera undantekningar er það algengara en hitt, að hinir konungbornu valdhafar, þótt völdin séu orðin lítil, fái áratugum saman fljúgandi siglingu, þegar spurt er um álit á viðkomandi, tölur sem stjórnmálalegir leiðtogar þyrftu að skjóta saman í púkk, til að slaga upp í „hans eða hennar hátign“.

Guðni hættir

Þótt kannanir, og þeir sem véla með þær, eigi skilið að vera teknar með fyrirvara, enda hefur margoft sýnt sig að þar eru ekki allir áreiðanlegir, og tímatökur kannana séu, að sögn þeirra sem þekkja til, iðulega lagaðar að tilteknu ástandi, þá tók Guðni forseti sínar ákvarðanir óháð öllu slíku, en þó hafði aldrei mælst nein þrúgandi óánægja með embættisstörf hans, sem ýtti undir þá niðurstöðu hans. Öðru nær. Þær kannanir, sem til eru, bentu í aðra átt. Enda ef staðan hefði verið sú, að hefði Guðni siglt mótvind núna, þá hefði hann sjálfsagt kosið að fara hvergi, en sigla í gegnum hann og það þótt hann yrði að bæta við sig fjórum árum til viðbótar til að ljúka því. Aðspurður sagði fráfarandi forseti, að ekki væri fjarri lagi að ætla, að hann vildi með þessari ákvörðun sinni nú setja fordæmi um það, hversu lengi forseti skyldi sitja á forsetastóli.

Bent var á, af þessu tilefni, að Guðni Th. hefði nú setið skemur en allir forsetar á undan honum, og er í þeim samanburði einnig horft til þess tíma sem Sveinn Björnsson ríkisstjóri gegndi sínu embætti, áður en til forsetaembættisins var stofnað árið 1944. Líklegt er að meðaltalsreglan um tólf ár eða svo muni vinna á í þeim efnum, en þar kemur einnig til að hafi forseti verið nokkuð við aldur, þegar hann var kjörinn, er líklegast að horft verði til átta áranna, en engu slíku var til að dreifa í hans tilviki sem yrði til þess að Guðni léti slag standa nú.

Bréfritari kynntist öllum forsetum lýðveldisins, ef Sveinn Björnsson er frátalinn, en bréfritari var nýorðinn fjögurra ára þegar forsetinn lést. Árið 1970 tók hann viðtal við Ásgeir Ásgeirsson fv. forseta á heimili hans við Aragötu. Að meginstofni til hefur verið góð sátt forseta við stjórnmálaforystuna í landinu á hverjum tíma og jafnvel allgóð vinátta á köflum. Þjóðhöfðinginn og forsætisráðherra hvers tíma áttu alla tíð reglulega fundi og var sérlega auðvelt um vik á meðan skrifstofa forseta var í sjálfu þinghúsinu og síðar þegar hún var, vegna þrengsla í þinghúsinu, flutt upp í forsætisráðuneytið, í tíð Kristjárns Eldjárn. Í forsætisráðherratíð bréfritara í þrettán ár og tæpa fimm mánuði voru aðeins fjórir metrar eða svo á milli skrifstofu frú Vigdísar og skrifstofu forsætisráðherrans. Bréfritari fylgdi þeirri óskráðu reglu að forseti og forsætisráðherra ættu fund vikulega, oft í hálftíma í senn, og ráðherrann gerði þar grein fyrir því sem helst væri þá á döfinni og hlustaði á sjónarmið forseta.

Ólafur Ragnar kaus að forseti og forsætisráðherra hittust yfir máltíð á Bessastöðum. Urðu fundir nokkuð strjálli en stóðu mun lengur og var farið vítt yfir sviðið. Trúnaður ríkti um þessi samtöl eins og um samtöl við Vigdísi áður.

Vitað er að stundum var stuttur þráður á milli þessara tveggja embættismanna. Þannig má nefna að Ólafur Thors myndaði sína fyrstu ríkisstjórn 16. maí 1942, minnihlutastjórn Sjálfstæðisflokksins, og var sjálfur forsætis- og utanríkisráðherra. Ríkisstjórnin sat á meðan verið var að breyta kjördæmaskipan í landinu. Ólafur baðst svo lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt 14. nóvember, en sat uns Sveinn Björnsson ríkisstjóri skipaði utanþingsstjórn undir forsæti Björns Þórðarsonar 16. desember sama ár. Ólafur kaus ekki Svein Björnsson forseta, þegar Alþingi kaus forseta lýðveldisins í fyrsta skiptið árið 1944, vegna óánægju með að Sveinn skyldi skipa utanþingsstjórn!

Þegar Ólafur Ragnar Grímsson hafði verið kosinn forseti hafði forsætisráðherra aðeins einn mánuð til að kaupa nýtt hús, láta innrétta það og hafa það tilbúið strax eftir innsetningu. Reynt var að gera illindi úr þessu máli og fullyrt af ýmsum, að hinn „skapstóri og óbilgjarni“ forsætisráðherra þyldi ekki að fá Ólaf Ragnar í Stjórnarráðshúsið. Tók Svavar Gestsson, þá einn helsti leiðtogi í Alþýðubandalaginu, hneykslið mikla upp og sagði það ekki líðandi. Ólafur Ragnar þekkti auðvitað að forsetinn hefði aðeins tvö sæmilega vegleg skrifstofuherbergi í Stjórnarráðshúinu við Lækjartorg, en honum bauðst nú veglegt hús á besta stað. Fréttakona á „RÚV“ reyndi eins og sú gat að gera málið tortryggilegt. Hinn nýkjörni forseti veitti viðtal og sagði þar, efnislega og eftir minni, eitthvað á þessa leið: „Ég er þakklátur forsætisráðherranum fyrir að standa svo vel og myndarlega að þessu máli. Það var einstaklega vel til fundið og kemur margt til. Í þessu húsi bjó Sveinn Björnsson, fyrsti forseti Íslands, hjá Birni Jónssyni ritstjóra, föður hans. Þegar Kristján Eldjárn kaus að láta af embætti sínu valdi hann þetta sama hús sem aðstetur fyrir sitt fólk og frú Halldóru. Og allt ætti þetta að vera þekkt. En svo er sá ánægjulegi þáttur sem ég einn get rakið. Þegar ég gegndi prófessorsstarfi við Háskólann hafði ég skrifstofur og sinnti mínum vísindum á efri hæð þessa húss. Og það var hingað, sem Guðrún Katrín kom til mín til að segja mér þær miklu gleðifréttir að hún ætti von á tvíburum. Það var stærsta frétt lífs míns.“

Önnur og minni saga

Bréfritari leitaði ekki þennan texta uppi og verður að hafa á honum fyrirvara, en þykist þó nokkuð viss um að efnislega fari hann nærri lagi. Það er skemmst frá því að segja, að eftir þetta heyrðist ekki orð um hneykslanlega framgöngu forsætisráðherrans í málinu um embættisskrifstofu forsetans. En svo er önnur lítil saga sem gerðist löngu fyrr. Bréfritari var laganemi og er hann kom eitt sinn sem oftar í þær byggingar sá hann forsíðu á blaði stúdenta. Þar sagði: „Davíð Oddsson, pissudúkka auðvaldsins, fær úthlutað lóð hjá borgarstjórnaríhaldinu.“ Ætla hefði mátt að þessi frétt kæmi viðkomandi þægilega á óvart. En hann þurfti að klóra sér í kollinum, bæði hratt og lengi, þar sem hann kom ekki fyrir sig að hafa sótt um lóð hjá borginni. Og eins var ástæða til að klóra sér í höfðinu og hugleiða hvernig hann ætlaði að fjármagna þessi herlegheit. En viku eða svo síðar kom lítil frétt um það í stúdentablaðinu, þar sem sagði efnislega að við blaðið hefði verið haft samband af ungum pípulagningamanni um frétt sem birst hefði í blaðinu um úthlutun lóðar til sín og hafi blaðið verið hið reiðasta yfir því að hann hefði fengið lóð frá borginni. Davíð pípulagningamaður sagðist einfaldlega hafa sótt um lóð og fengið hana. Hann hefði ekkert með stúdentamál í HÍ að gera eða pólitík að öðru leyti. Stúdentablaðið bað viðkomandi afsökunar á mistökum blaðsins. En bætti svo við: „Davíð Oddsson laganemi er eftir sem áður pissudúkka auðvaldsins.“