Guðbjörg Halla Björnsdóttir fæddist 8. ágúst 1953. Hún lést 19. desember 2023.

Útför Guðbjargar Höllu Björnsdóttur fór fram 4. janúar 2024.

Það er mikil gæfa að alast upp í stórum systkinahópi. Ég eignaðist níu systkini, systurnar voru sex og bræðurnir þrír. Nú árið 2024 eru þrjár systur fallnar frá, Stubba, sjö mánaða, var skírð við útför Halldóra Kristín, Sigríður Birna var 50 ára og Guðbjörg Halla sem féll frá á síðasta ári 70 ára gömul.

Guðbjörg Halla skar sig úr í þessum hópi, því hún fæddist nokkrum mánuðum fyrir tímann og var minnsti fyrirburi sem fæðst hafði á Íslandi á þessum tíma, 1953.

Móðuramma mín, Guðný Jónsdóttir hjúkrunarkona, lærði fyrst hjúkrun hér heima á Íslandi, fór síðan í tveggja ára nám til Ameríku og síðan í eins árs framhaldsnám til Englands og kom með ýmsa nýja þekkingu til Íslands, eins og pensilínið og hitakassa.

Fyrsta æviár Guggu systur var amma Guðný vakin og sofin að halda lífi í þessum litla fyrirbura, en á öðru ári sínu kom hún heim á Meltröð en þurfti að vera í hitakassa í eitt ár í viðbót.

Litla krílið braggaðist og losnaði úr hitakassanum, þegar næsta áfallið skall á. Gugga gat ekki gengið, hún var spastísk, lömuð í fótunum og þurfti að nota hækjur allt sitt líf.

Tvö hjálpartæki neitaði Gugga að nota. Hún vildi alls ekki nota spelkur eða hjólastól. Ég man alltaf þegar pabbi kom heim einn sumardaginn með spelkur fyrir Guggu. Hún gat ekki rétt úr hnjánum og spelkurnar áttu að hjálpa til við það. Við vorum flest úti í garði og pabbi ætlaði að setja spelkurnar á mína. Hún þeytti hækjunum í átt að honum og sagði: „Settu þetta á sjálfan þig.“ Málið var útrætt. Spelkurnar sáust aldrei eftir þetta á Meltröð 8.

Hjólastóll var annað hjálpartæki sem hún vildi ekki heldur ekki nota. Það var ekki fyrr en hún var flutt úr Vogatungunni sem hún neyddist til að nota hjólastól.

Æðruleysi.

Gugga bað aldrei um neitt. Hún vildi vera sjálfstæð. Ef henni var boðið eitthvað, í bíó eða leikhús, þáði hún ávallt boðið. Hún var mikil samkvæmisdama. Eitt sinn var ég með henni í Egilshöll og það var verið að sýna úr næstu sýningum þegar hún segir: „Mig langar á þessa.“ Það voru nokkrar vikur í að sýningar hæfust á þessari mynd en svo kom að því. Ég hringi í Guggu og spyr hana hvort við eigum ekki að skella okkur. Hún hélt það nú og ég kaupi miða fyrir okkur.

Eftir smástund segir Gugga: „Getum við farið?“ Ég segi: „Eigum við að fara?“ Gugga: „Getum við farið?“ Hreinskilni hennar var yndisleg. Sagði ávallt það sem henni bjó í brjósti.

Í mínum huga var Gugga ekki fötluð. Hreyfigeta hennar var svo mörgum sinnum meiri en margra þeirra sem dvöldust í Reykjadal. Hún gat hlaupið endalaust og svo hratt að unun var að fylgjast með henni.

Ég kenndi henni sund í Kópavogsskóla um tveggja ára bil og síðan í fjögur sumur uppi í Reykjadal við erfiðar aðstæður. Þá varð að taka fötluðu einstaklingana í fangið og skutla þeim út í laug. Það fannst Guggu alltaf jafn gaman, að fá flugferð út í vatnið.

Hjartans Gugga, „stórasta“ systir mín. Hjartans þakkir fyrir að leyfa mér að fylgja þér þennan spöl sem þú ert að taka nú í átt að betri líðan og samveru með strákunum þínum, mömmu og pabba.

Arndís (Dísa) systir.

Með nokkrum orðum langar mig að minnast systur minnar sem nú hefur horfið til sumarlandsins og hitt þar fyrir syni sína Hilmar Þór og Jón Björn sem hún missti 17 og 27 ára gamla. Guðbjörg Halla Björnsdóttir fæddist fötluð og var vart hugað líf en þá nýfædd sýndi hún strax það sem síðar varð hennar útgeislun og einkenndi allt hennar líf. Seigla og lífsþróttur fleyttu henni áfram ásamt því að vilja ekki líta á sig sem fatlaða manneskju. Listsköpun var henni mikilvæg, hún saumaði út og hélt sýningar, málaði, hún samdi ljóð og gaf fólki en aðallega var hennar list fólgin í því að lifa lífinu lifandi þrátt fyrir mikið mótlæti sem hún varð fyrir og hún bar oftast innra með sér.

Gugga vann víða, m.a. á saumastofu Hagkaups og fannst gaman þar. Hún vann einnig á Stelluróló á Kársnesi og þar lágu leiðir hennar og Benedikts Þórs sonar míns saman. Honum fannst mikið til hennar koma og var sérlega stoltur af þessari frænku sinni. Hann sótti í að fara til hennar og flutti henni fréttir af mér og heimilinu og iðulega hringdi Gugga í kjölfarið og rakti samskipti þeirra. Benedikt minnist hennar með miklum hlýhug og virðingu.

Gugga setti svo sannarlega svip sinn á austurbæ Kópavogs þar sem hún gekk um á hækjum og tók ótrúlega mikinn þátt í lífinu af þeirri glaðværð sem einkenndi hana.

Eitt atvik er mér sérstaklega minnisstætt frá því við vorum krakkar. Þá höfðum við fengið pening til að fara í bíó og vorum komin inn í strætóskýlið á Álfhólsvegi að bíða eftir vagni, þá kemur þar inn reffileg eldri kona og ávarpar Guggu mjög háum rómi og talar sérstaklega hægt líka. Ég sá á Guggu að henni var alvarlega misboðið, hún slær með hækjunni í átt að konunni og segir: „Ég er hvorki heyrnarskert né treg!“

Elsku Gugga systir mín gaf lífinu lit og ég veit að hún á sinn einstaka hátt hjálpaði mörgum með virkri þátttöku í starfsemi Sjálfsbjargar sem oft átti hug hennar allan. Við minnumst hennar og þökkum fyrir það sem hún kenndi okkur.

Hjalti Þór Björnsson.

Fallinn er frá góður félagi og vinur, Guðbjörg Halla, hún Gugga okkar eins og við kölluðum hana alltaf. Hún hefur verið félagsmaður okkar árum saman, hún var traustur félagi sem vildi félaginu sínu allt hið besta.

Hún mætti á alla viðburði og skemmtanir í félagsheimilinu og sat í stjórn félagsins í mörg ár, og sá hún um félagsvist fyrir Sjálfsbjörg á höfuðborgarsvæðinu. Hún Gugga okkar lét fötlun sína ekki aftra sér og þótt ævi hennar hafi verið henni erfið þá var hún alltaf svo jákvæð og hugljúf. Hún var mikil Sjálfsbjargarfélagi og átti marga og góða vini hér í Sjálfsbjörg. Þessi vinátta spannar marga áratugi frá því að þau voru börn í Reykjadal.

Það er með þakklæti og virðingu sem við kveðjum Guggu okkar og munum halda minningu hennar á lofti.

Við vottum systkinum hennar og öðrum vandamönnum okkar dýpstu samúð.

F.h. stjórnar, skrifstofu, vina og félaga í Sjálfsbjörg á höfuðborgarsvæðinu,

Grétar Pétur Geirsson formaður.

Elsku Gugga frænka móðursystir mín lést þriðjudaginn 19. desember umvafin ástvinum sínum. Þegar ég horfi til baka og minnist frænku minnar er mér efst í huga þakklæti því hún kenndi okkur sem í kringum hana voru svo ótal margt. Líf frænku minnar var ekki alltaf auðvelt en hún tókst á við alla erfiðleika af miklu æðruleysi og gafst ekki upp fyrr en undir það síðasta. Gugga fæddist mikið fyrir tímann sem orsakaði það að hún þurfti alla sína tíð að notast við hækjur til þess að komast leiðar sinnar. Hún var þrautseig og lét hækjurnar aldrei aftra sér í að komast leiðar sinnar og gera það sem hún ætlaði sér. Ég man eftir henni arkandi út í búð, í vinnuna og jafnvel í strætó sama hvernig viðraði.

Gugga var listræn og mikil hannyrðakona og snillingur í útsaumi. Hún gaf mér mitt fyrsta saumadót þegar ég var sjö ára og kenndi mér krosssaum. Ég minnist hennar sem einstaklega barngóðrar og börnin mín sem og annarra í fjölskyldunni elskuðu hana. Gugga vann lengst af á róluvöllum í Kópavogi þar sem hún hugsaði um yngsta fólk bæjarins af mikilli natni, þar á meðal litlar frænkur og frændur sem hrifust af henni og hlökkuðu til að hitta frænku sína á róló.

Gugga var líka stórkostleg móðir drengjanna sinna þeirra Hilmars Þórs og Jóns Björns sem voru henni allt. Gugga var lengst af einstæð og sinnti móðurhlutverkinu vel og af mikilli ást og alúð og unun var að fylgjast með hversu einlægt og ástríkt samband var á milli hennar og bræðranna. Framtíðin virtist blasa við fjölskyldunni en örlögin höguðu því svo að elsku Gugga missti báða drengina sína frá sér. Fyrst eldri son sinn Hilmar Þór í skelfilegu bílslysi aðeins 17 ára gamlan og þann yngri Jón Björn úr krabbameini aðeins 27 ára gamlan. Það var mikið reiðarslag fyrir elsku Guggu eins og gefur að skilja. Við fjölskyldan og vinir dáðumst að æðruleysi hennar og því hvernig hún tókst á við missinn, sorgina og lífið á eftir. Segja má að Gugga hafi saumað sig í gegnum sorgina, hún bjó til fjöldann allan af glæsilegum handsaumuðum listaverkum og hélt sýningu í safnaðarheimili Kópavogs á 60 ára afmæli sínu til minningar um þá Hilmar Þór og Jón Björn. Mörg þessara listaverki prýða nú heimili landsmanna, ættingja og vina Guggu.

Ég kveð nú einstaka konu sem var mér einstaklega kær og ég ímynda mér og óska þess heitt og innilega að Gugga hvíli nú hamingjusöm í faðmi drengjanna sinna. Takk fyrir allt elsku hjartans frænka mín.

Þín systurdóttir,

Irpa Sjöfn.