Ólafur E. Jóhannsson
oej@mbl.is
„Mér kæmi ekki á óvart að upphæð þeirrar skaðabótakröfu sem mun verða gerð á hendur ríkinu verði á bilinu 2 til 4 milljarðar króna sem er sá skaði sem fyrirtækið og starfsmenn þess urðu fyrir,“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, í samtali við Morgunblaðið, spurður hvort félagið hyggist leita til dómstóla fyrir hönd félagsmanna sem urðu fyrir fjártjóni vegna fyrirvaralauss banns matvælaráðherra við hvalveiðum sl. sumar.
Vilhjálmur segir að hafinn sé undirbúningur kröfugerðar í málinu og það sé unnið í samvinnu við Hval hf. Hann segir það mikilvægt þar sem fyrirtækið sé með öll gögn málsins og lögmenn Hvals og Verkalýðsfélags Akraness séu að skoða útfærsluna. „En það er alveg ljóst að við munum fylgja þessu máli alla leið,“ segir Vilhjálmur, enda um mikla hagsmuni fólks að ræða. Hann segir að fyrir liggi að einn mánuður í vinnu með orlofi gefi starfsmanni rúmar 2 milljónir króna í heildarlaun.
Umtalsverðar búsifjar félagsmanna
Feril málsins segir Vilhjálmur verða þann að bætur verði sóttar til Hvals, þar sem ráðningarsamband starfsfólksins er við fyrirtækið, en síðan komi í hlut Hvals að meta fjártjón fyrirtækisins og krefja ríkið um bætur. Kröfur starfsfólksins muni endurspeglast í kröfu Hvals á ríkissjóð.
„Það er alveg ljóst að umtalsverður fjöldi minna félagsmanna varð fyrir umtalsverðum búsifjum vegna þessarar ólögmætu ákvörðunar matvælaráðherra. Það sorglega í þessu öllu er að á gríðarlega fjölmennum fundi sem haldinn var hér á Akranesi, þar sem matvælaráðherra mætti ásamt fulltrúum allra flokka í Norðvesturkjördæmi, benti ég á þá bláköldu staðreynd að allt benti til þess að ákvörðun ráðherrans um að banna hvalveiðar með fimm mínútna fyrirvara, ef þannig má að orði komast, myndi leiða til þess að hér myndi teiknast upp skaðabótakrafa á hendur íslenska ríkinu og með öðrum orðum á íslenska skattgreiðendur,“ segir Vilhjálmur.
Algerlega með ólíkindum
„Það er algerlega með ólíkindum að þetta mál skuli hafa farið þessa leið á sínum tíma, í ljósi allra þeirra lögfræðilegu álita sem lágu fyrir strax í upphafi,“ segir Vilhjálmur og bætir því við að fram séu komnar upplýsingar um að sérfræðingar matvælaráðuneytisins hafi einnig varað ráðherrann við því að grípa til þessara ráðstafana, þ.e. að banna hvalveiðar tímabundið með reglugerð.
„Að sjálfsögðu mun verkalýðsfélagið vinna þetta mál áfram, þannig að gerð verði krafa um bætur til þess fólks sem þarna á hlut að máli,“ segir Vilhjálmur.
Vilhjálmur telur einboðið að leyfi Hvals til hvalveiða sem nú er runnið út verði endurnýjað.
„Að sjálfsögðu. Það er grundvallaratriði að átta sig á því, að til að við getum búið í því velferðarsamfélagi sem við viljum vera í, þurfum við að vera með gjaldeyrisskapandi atvinnugreinar. Það er ljóst að hvalveiðar hafa skilað Akurnesingum og öðrum Vestlendingum umtalsverðum tekjum, bæði beinum og afleiddum. Það eru 150 til 200 fjölskyldur sem byggja lífsafkomu sína á þessum veiðum,“ segir Vilhjálmur.