Dóra Magnúsdóttir hefur verið ráðin í nýtt starf samskiptastjóra Hafrannsóknastofnunar, að því er fram kemur í tilkynningu sem send var fjölmiðlum. Þar segir einnig að þessi nýja staða geri stofnuninni kleift að fylgja stefnu sinni um aukna áherslu á upplýsingamiðlun, samskipti og almannatengsl. Alls sóttu 49 um stöðu samskiptastjóra stofnunarinnar.
Dóra er með meistaragráðu í opinberri stjórnsýslu (MPA), gráðu í fjölmiðlafræði frá Háskóla Íslands og viðskipta- og markaðsfræði frá Danmörku auk þess að vera með B.Sc.-gráðu í landfræði frá Háskóla Íslands.
„Við hlökkum til að fá góðan liðsmann til okkar til að efla innri og ytri samskipti Hafrannsóknarstofnunar. Við höfum væntingar um að með þessu nýja starfi og breyttum áherslum varðandi samskipti verðum við enn fremri en við höfum verið á sviði almannatengsla og miðlun upplýsinga,“ er haft eftir Þorsteini Sigurðssyni forstjóra Hafrannsóknastofnunar í tilkynningunni.