Mercur Spiel-Arena Handboltavellinum hefur verið komið fyrir á miðjum knattspyrnuleikvanginum í Düsseldorf fyrir leikina á EM.
Mercur Spiel-Arena Handboltavellinum hefur verið komið fyrir á miðjum knattspyrnuleikvanginum í Düsseldorf fyrir leikina á EM. — Ljósmynd/EHF
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nýtt heimsmet verður sett í kvöld á fyrsta leikdegi Evrópumóts karla í handknattleik þegar gestgjafar Þýskalands, undir stjórn Alfreðs Gíslasonar, taka á móti Sviss í fyrstu umferðinni í A-riðli keppninnar

EM 2024

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Nýtt heimsmet verður sett í kvöld á fyrsta leikdegi Evrópumóts karla í handknattleik þegar gestgjafar Þýskalands, undir stjórn Alfreðs Gíslasonar, taka á móti Sviss í fyrstu umferðinni í A-riðli keppninnar.

Leikið er á hinum glæsilega knattspyrnuleikvangi Fortuna Düsseldorf, Merkur Spiel-Arena, sem er með færanlegu þaki, og í gær var staðfest að í það minnsta 53 þúsund áhorfendur yrðu á leiknum. Leikvangurinn rúmar um 55 þúsund manns.

Strax í september var orðið ljóst að heimsmetið myndi falla en þá var búið að selja 45 þúsund miða á leikinn. Fyrra metið var 44.129 áhorfendur frá því í september 2014 en það var einnig sett í Þýskalandi, á knattspyrnuleikvangi í Frankfurt þar sem Rhein-Neckar Löwen mætti Hamburg í þýsku 1. deildinni.

Þetta er þó ekki upphafsleikur keppninnar því Frakkland mætir Norður-Makedóníu í fyrri leik kvöldsins í A-riðlinum á sama velli klukkan 17.

Formleg setningarathöfn mótsins hefst eftir þann leik, klukkan 19 að íslenskum tíma, og síðan verður flautað til leiks hjá Þýskalandi og Sviss klukkan 19.45.

Þýskaland er í fyrsta skipti í gestgjafahlutverkinu á EM karla en Þjóðverjar hafa oft haldið heimsmeistaramótið og þar af tvisvar á þessari öld, 2007 og 2019, í seinna skiptið reyndar í samvinnu við Dani.

Fyrsta umferð tekur þrjá daga

Fyrsta umferð EM dreifist á þrjá daga að þessu sinni því fyrstu leikirnir í D-, E- og F-riðli fara fram á morgun en keppni í B- og C-riðli hefst á föstudaginn. Ísland er í hópi síðustu þjóðanna sem stíga á svið en viðureign Íslands og Serbíu í C-riðli hefst í München klukkan 17 að íslenskum tíma á föstudaginn.

Leikirnir í A-riðlinum eru áhugaverðir fyrir þá sem fylgjast með íslenska landsliðinu því tvö efstu lið úr A-, B-, og C-riðli fara í sama milliriðilinn á næsta stigi keppninnar. Komist íslenska liðið áfram úr C-riðli mætir það væntanlega bæði Þýskalandi og Frakklandi í milliriðlinum í Köln.

Sextánda Evrópumótið

Þetta er 16. Evrópumótið í karlaflokki en það fyrsta var haldið árið 1994 og mótin hafa farið fram á tveggja ára fresti frá þeim tíma. Ísland er með í þrettánda skiptið í röð eftir að hafa misst af fyrstu þremur mótunum. Þátttökuliðin voru 12 fyrstu fjögur mótin, síðan 16 frá 2002 til 2018 og nú eru í þriðja skipti 24 lið í lokakeppninni.

Leikirnir í fyrstu umferð Evrópumótsins eru þessir:

Miðvikudagur 10. janúar:

17.00 A Frakkland – N-Makedónía

19.45 A Þýskaland – Sviss

Fimmtudagur 11. janúar:

17.00 D Slóvenía – Færeyjar

17.00 E Holland – Georgía

17.00 F Portúgal – Grikkland

19.30 D Noregur – Pólland

19.30 E Svíþjóð – Bosnía

19.30 F Danmörk – Tékkland

Föstudagur 12. janúar:

17.00 C Ísland – Serbía

17.00 B Austurríki – Rúmenía

19.30 B Spánn – Króatía

19.30 B Ungverjaland – Svartfjallal.

 Ítarlega verður fjallað um Evrópumótið í sérblaði Morgunblaðsins um keppnina sem kemur út á föstudaginn.

Höf.: Víðir Sigurðsson