Áhöld eru um hvort aðferðafræði og hagfræðilegar forsendur sem Samkepniseftirlitið (SKE) gefur sér í eigin skýrslu um ábata af íhlutun standist skoðun í hagfræðilegu og samkeppnislegu tilliti. SKE birti í síðustu viku niðurstöður um greiningu á reiknuðum ábata vegna íhlutunar eftirlitsins, þar sem eftirlitið telur að þjóðarbúið hafi hagnast um 10 til 17 milljarða króna frá 2013 til 2022 vegna þeirrar íhlutunar.
Það sem sætir helst gagngrýni er annars vegar hvernig stofnunin reiknar út ávinninginn með því eingöngu að horfa til neytenda en ekki fyrirtækja – sem eru neytendur líka – og setja niðurstöðuna í samhengi við landsframleiðslu. Slík aðferð þykir hagfræðilega röng að mati viðmælenda ViðskiptaMoggans. Hins vegar gefur eftirlitið sér að allar íhlutanir þess hafi jákvæð áhrif, aldrei neikvæð. Það þykir bersýnilega röng reikniaðferð að gera ekki ráð fyrir kostnaði sem fellur á íslensk fyrirtæki.
Ragnar Árnason, prófessor emeritus í hagfræði við Háskóla Íslands, segir að kjarni skýrslunnar sé að eftirlitið noti aðferðafræði sem sé mjög aðfinnsluverð; það gefi sér að tilteknar aðgerðir af þess hálfu hafi áhrif á verð og sé með hærri tölur en nefndar eru í leiðbeiningunum. Í því felist hreinar ágiskanir út í loftið sem beitt sé á rangan hátt í hagfræðilegu tilliti.