Mjólkurvinnslan Arna í Bolungarvík hefur nú flutt út laktósafrítt skyr til Frakklands í eitt ár. Hálfdán Óskarsson, stofnandi félagsins og framkvæmdastjóri, segir að verkefnið hafi gengið vel.
„Í fyrra fluttum við út um 1,2 milljónir skyrdósa. Þetta fer allt til Grand Frais-verslunarkeðjunnar sem rekur 360 verslanir sem leggja áherslu á vörur fyrir matgæðinga,“ segir Hálfdán.
Hann segir vörurnar hafa fengið góðar viðtökur hjá viðskiptavinum keðjunnar.
„Við erum að vinna í að auka útflutninginn, bæði til Grand Frais en einnig til annarra verslana. Við sjáum mikil tækifæri í útflutningnum. Íslendingar hafa tollfrjálsan innflutningskvóta á skyri upp á 5.000 tonn á ári og við viljum nýta meira af honum.“
Hálfdán segir að gríðarlega miklu máli skipti að nýta kvótann.
„Kvótinn samsvarar 15 milljónum lítra af mjólk, eða 10% af íslenskri mjólkurframleiðslu. Tollfrelsið þýðir að hver dós er 40 krónum ódýrari, sem skilar sér í lægra verði út úr búð í Evrópusambandinu.“
Sía skyrið meira
Spurður um samkeppnina á Frakklandsmarkaði segir Hálfdán að ýmsir séu byrjaðir að framleiða skyr og noti til þess margvíslegar aðferðir.
„Íslendingar búa að því að sía skyrið mun meira en aðrir, sem gefur því mjög góða áferð. Það setur gæðastimpil á vöruna, þó maður geti ekki alltaf vitað nákvæmlega hvað fellur neytendum í Evrópu best í geð.“
Hálfdán horfir ekki einungis til útflutnings á skyri heldur einnig hafraskyri og hafrajógúrti, sem Arna framleiðir nú þegar fyrir íslenskum markað undir vörumerkinu Vera Örnudóttir.
„Það tók okkur tvö ár að þróa þessar hafravörur. Við unnum náið með Tetra Pak í Danmörku, sem er einn stærsti vélaframleiðandi fyrir mjólkuriðnað í heiminum. Við notum síutækni sem ekki hefur verið notuð áður í þessum tilgangi og var þróuð innanhúss hjá okkur. Næringargildið er hámarkað og próteininnihaldið keyrt upp þannig að það verði sambærilegt og í hefðbundnum mjólkurafurðum, án þess að bæta neinum aukaefnum við. Aðrar haframjólkurvörur eru oft með lágt næringarinnihald og gjarnan eru notuð bindi- og þykkingarefni sem við sleppum alfarið.“
Að sögn Hálfdáns koma hafrarnir frá Finnlandi. „Hráefnið er ekki í boði á Íslandi, enn sem komið er,“ útskýrir hann.
Vinnsluaðferðin felst í að leggja hafrana í bleyti og við tekur tækni- og ensímvinnsla til að ná réttu efnunum úr hráefninu.
„Svo er vökvinn unninn úr þessu með háþróuðum hætti. Þetta er gríðarlega spennandi og við munum leggja mun meiri áherslu á þessar vörur í framtíðinni.“
Hafravörur eiga mikið upp á pallborðið í Bandaríkjunum og hefur Arna sett stefnuna þangað.
„Við skrifuðum nýlega undir viljayfirlýsingu við Reykjavík Creamery um framleiðslu á vörum Örnu og Veru Örnudóttir í Bandaríkjunum. Þetta er enn á fyrstu metrunum en næsta skref er að koma vörunum í kynningar í verslunum til að kanna viðtökur almennings. Allar markaðskannanir sem við höfum gert benda til að þetta gæti orðið mjög góð söluvara. Bandaríkin eru langstærsti markaðurinn fyrir svona vörur. Þær eru vinsælar hjá fólki sem er vegan og öðrum sem hugsa um heilsuna, umhverfið og dýravelferð.“
Tífalda framleiðslugetuna
Sala á hafravörunum hefur gengið vel á Íslandi að sögn Hálfdáns.
„Við ætlum að tífalda framleiðslugetu verksmiðjunnar á næstu mánuðum. Þá munum við líka fjölga vöruflokkum til að mæta enn frekar þörfum fólks sem sækir í hafravörurnar.“
Spurður um hlutdeild Örnu í ferskum mjólkurvörum á Íslandi fyrir utan osta segir Hálfdán hana vera 8% og fara vaxandi. „Við erum með mjólk, gríska jógúrt, ab-mjólk, drykkjarmjólk og skyr.“
Fjörutíu manns vinna hjá Örnu. Veltan á síðasta ári var 1,9 milljarðar króna.
„Arna hefur vaxið hratt síðan við byrjuðum og við ætlum að vaxa áfram hratt á næstu árum. Fyrsta árið var veltan 140 m.kr. til samanburðar,“ segir Hálfdán að lokum.