Ómar Friðriksson
omfr@mbl.is
Landsbyggðin má ekki gleymast í umræðunni um aðgerðir stjórnvalda til að bæta lífskjör launafólks í tengslum við endurnýjun kjarasamninga. Það er gjá á milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins landsbyggðinni í óhag vegna þeirra gríðarlega háu útgjalda sem íbúar á landsbyggðinni þurfa að bera á fjölmörgum sviðum, svo sem vegna ójafns aðgengis að heilbrigðisþjónustu, hás flutningskostnaðar, raforku- og húshitunarkostnaðar og hás eldsneytisverðs og verðs á öðrum vörum og þjónustu. Þetta segir Aðalsteinn Á. Baldursson formaður Framsýnar.
Vega hvað þyngst í buddu almennings á landsbyggðinni
Fulltrúar verkalýðsfélaga á landsbyggðinni hafa rætt þessi mál sín á milli og kalla eftir umræðu og sértækum aðgerðum stjórnvalda til að jafna þennan mikla aðstöðumun og misvægi sem þeir segja að sé á milli íbúa landsbyggðarinnar og höfuðborgarsvæðisins.
Þetta séu þeir þættir sem vega orðið hvað þyngst í buddu almennings á landsbyggðinni, sem ekki sé hægt að líta fram hjá en hafi orðið út undan í umræðunni.
„Það kostar að búa úti á landi og það er lítið komið til móts við okkur, því miður,“ segir Aðalsteinn.
Eiga erfitt með að sækja sér þjónustu vegna kostnaðar
„Landsbyggðin má ekki gleymast í þessari umræðu,“ segir hann og bendir m.a. á að fólk þurfi að fara um langan veg til að fá heilbrigðisþjónustu og því fylgi oft mikill kostnaður og vinnutap.
Taka megi ýmis dæmi, svo sem af einstaklingi sem fór til læknis, var sendur til Reykjavíkur og þurfti að greiða tæp 80 þúsund fyrir flugfarið og margir kannist við tilfelli þar sem ungt fólk þurfi hreinlega að flytjast búferlum til þess að eignast börn þar sem þjónusta á fæðingardeild er ekki í boði í heimabyggð, hvað þá almenn læknisþjónusta.
„Það er bara svo komið að fólk á erfitt með að sækja sér þessa þjónustu því það er svo dýrt að sækja hana og hún er ekki í boði í heimabyggð. Það eru ekki allir sem búa svo vel að hafa hátæknisjúkrahús í bakgarðinum hjá sér,“ segir hann.
Sitja ekki undir því lengur að ekkert verði aðhafst
„Við köllum eftir því að stjórnvöld komi að þessu verkefni með verkalýðshreyfingunni og jafni þann mikla aðstöðumun sem er á milli íbúa á landsbyggðinni og á höfuðborgarsvæðinu með ákveðnum úrræðum fyrir okkar fólk,“ segir hann.
„Við munum ekki sitja undir því lengur að ekkert verði aðhafst hvað varðar að jafna búsetuskilyrði í landinu,“ segir Aðalsteinn að lokum.
Fram kom í könnun átta aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins meðal félagsmanna vegna komandi kjarasamninga á síðasta ári, að mikill meirihluti, eða 64%, lögðu mesta áherslu á betra aðgengi að heilbrigðisþjónustu í heimabyggð þegar spurt var hvað væri mikilvægast að verkalýðshreyfingin beitti sér fyrir í heilbrigðismálum.