Ástríður Þorsteinsdóttir fæddist á Húsafelli 7. ágúst 1927. Hún lést 24. desember 2023.
Foreldrar hennar voru Þorsteinn Þorsteinsson og Ingibjörg Kristleifsdóttir.
Hún var yngst af fjórum börnum Þorsteins og Ingibjargar á Húsafelli. Móðir hennar lést 1930. Síðan var heimilinu innanstokks stjórnað af ráðskonum. Í 20 ár var Herdís Jónasdóttir ráðskona á Húsafelli.
Árið 1957 giftist hún Guðmundi Pálssyni, skógfræðingi og bónda. Þau fara þá að búa á Húsafelli og búa þar til 1972.
Guðmundur og Ástríður eignuðust fjögur börn, Guðrúnu píanókennara í Hafnarfirði, Pál listamann á Húsafelli, Þorstein vélaverktaka á Fróðastöðum og Rósu sjúkraliða í Reykjavík.
Guðmundur féll frá haustið 1976. Þegar þau fluttu til Reykjavíkur settust þau að á Framnesvegi 61. Þegar öll börnin voru löngu flogin úr hreiðrinu árið 2001 flytur hún í Sóltún 7 þar sem hún bjó til ársins 2022 þegar hún fer í Brákarhlíð.
Útför Ástríðar fer fram frá Reykholtskirkju í dag, 10. janúar 2024, klukkan 14.
Streymi:
https://www.mbl.is/go/4mjyp
„Fáið ukkur meira, systur mínar,“ sagði amma gjarnan þegar við sátum í eldhúsinu hennar í Sóltúninu. Enn með pott á hverri hellu á 95. aldursári og tók ekki í mál að við legðum á borð með okkur til að létta undir.
Þegar við vorum yngri fórum við stundum í dekurferðir til hennar á Framnesveginn. Þá fór hún með sveitastelpurnar sínar í strætó, í Kringluna, á kaffihús og jafnvel í leikhús. Stundum vorum við hjá henni á Húsafelli. Þá kenndi hún okkur að þekkja fjallahringinn, fór með okkur í berjamó, sund og lautarferðir. Við tíndum kúmen og falleg blóm til að setja í vasa. Það var margt hægt að gera í því náttúrunnar ríki sem Húsafell er og amma var eins og drottning í ríki sínu. Skyldunum hafði fækkað og gæðastundunum fjölgað þau sumur sem hún dvaldi þar á efri árum.
Þegar við fluttum til Reykjavíkur dýpkuðu kynni okkar við ömmu Ástu. Við fórum reglulega í heimsóknir til hennar og spiluðum, skoðuðum myndir, fórum í göngutúra og í Kringluna fyrir jólin. Jólagjafaleiðangrarnir gátu tekið á þar sem jólagjafirnar voru margar og ekki kom til greina að fara nema á háannatíma þegar sem mest ringulreið, flestir jólasveinar og hæst tónlist var.
Þá var nefnilega stuð. Það viðurkennist fúslega að stelpum rétt um tvítugt fannst vandræðalegt að labba búð úr búð með mittismálið á Manga frænda niðurskrifað á miða í leit að passlega ísetuháum buxum. Minningarnar eru þó hver annarri skemmtilegri – enda vorum það ekki við sem bárum hitann og þungann af jólagjafainnkaupum ömmu.
Eftir að Ásta yngri fluttist að Núpi undir Eyjafjöllum árið 2017 fórum við reglulega í bíltúra þangað. Amma hafði gaman af bílferðinni og að koma heim á Núpsbæina. Hún talaði við hundana eins og gamla vini og kíkti í fjósið. Hún var næm á líðan dýranna og hafði einu sinni orð á því að ein kýrin væri eitthvað óróleg. Daginn eftir bar hún kálfi.
Eftir að við fluttum úr Reykjavík fækkaði heimsóknum til ömmu. Í stað heimsókna fjölgaði símtölum en þá ræddum við oft um lífið á Húsafelli og fólkið í sveitinni, vinnuna á Lansanum, ferðalögin hennar og bækurnar sem hún var að lesa. Á covid-tímum fórum við í innkaupaleiðangra í gegnum símann. Hún las upp innkaupalista og við versluðum á netinu. Svo var pokinn mættur til hennar samdægurs. Þetta fannst henni töfrum líkast, enda hafði hún kynnst öðrum og erfiðari leiðum til að afla matar.
Eitt árið fannst ömmu við ráðgera fulllangt fram í tímann með eins gamalli konu og hún var orðin. „Guð einn veit hvar ég djamma næstu jól,“ sagði hún þá. Það varð ekki hjá því komist að hugsa til þessara orða hennar þegar dánarfregnin barst að morgni aðfangadags. Við minnumst ömmu ekki bara sem hæglátu góðu konunnar sem hún var út á við, heldur líka sem hláturmildrar, víðlesinnar og sniðugrar konu, sem sagði fá en vel valin orð sem oft vísuðu í brandara og uppskar hún þá mikinn hlátur. Margt er farið með ömmu en við gerum okkar besta við að halda minningu hennar á lofti og miðla þeim ráðum og vitneskju sem hún kenndi okkur áfram til næstu kynslóða.
Fróðastaðasystur,
Unnur Þorsteinsdóttir,
Ásta Þorsteinsdóttir.
Nokkur sundurleit minningabrot til að votta föðursystur minni Ástríði Þorsteinsdóttur virðingu og þakklæti.
Á Húsafelli var tvíbýli þar sem systkinin Kristleifur pabbi minn og Ástríður systir hans bjuggu með fjölskyldum sínum á hvor á sínum bænum. Á árunum 1957-1965 fæddust á bæjunum níu börn sem ólust upp saman í einni kös auk þess sem frændsystkin úr öllum áttum bættust oft í hópinn.
Af myndum og frásögnum að dæma var Ásta alltaf sólskinsbarn. Þegar amma dó frá þeim systkinum þriggja, fimm, sjö og níu ára voru margir sem buðust til að fóstra Ástu en afi vildi sem betur fer ekki sundra systkinahópnum. Það er óhugsandi ef Ásta hefði ekki verið hluti af tilverunni á Húsafelli.
Að hlutskipti hennar sem eina stelpan í hópnum sem á þeim tímum var sjálfskipuð í heimilisverk og þjónustu skyldi ekki gera hana bitra og fúla.
Þakklæti að hún skyldi komast til þess að mennta sig þó að hún hafi verið ómissandi á bænum.
Þegar pabbi og mamma þurftu að rjúka með Þórð í sjúkraflugi og Ásta kom yfir til að passa okkur og hún fór í Hagkaupssloppinn hennar mömmu til halda ró á yngsta bróðurnum.
Að komast fram hjá Týra á tröppunum inn í öryggið þar sem Ásta er við eldhúsverkin og Gunna standandi uppi á stól við hliðina á henni að baka pönnukökur.
Ásta að koma lífi í lamb í hitahólfinu á eldavélinni og leyfa okkur að gefa heimalningunum úr pela.
Að fara með Ástu að gefa púddunum og leika okkur aðeins á leiðinni.
Ásta að plokka möl úr sári einhvers af krökkunum eða búa um sár eða meiðsli. Hvað ég var montin af því að frænka mín væri hjúkka sem gat læknað allt.
Þegar hún var að reyna að halda niðri í sér hlátrinum yfir fyndni við eldhúsborðið. Það var alltaf svo gaman þegar Ásta hló enda vantaði ekki skemmtisögurnar.
Hvað hún naut þess þegar við vorum niðursokkin í leiki. Veit að hún hefði viljað leika sér meira sjálf í gegnum tíðina og hún gat unnt okkur þess.
Ásta skammaði aldrei. Sussaði ekki einu sinni þótt það væri aldeilis oft ástæða til. Held samt að hún hafi snúið sér undan og farið að sýsla eitthvað ef henni var misboðið.
Ásta orðin ekkja ekki fimmtug með fjóra unglinga og vann á næturvöktum á Lansanum. Alltaf þolinmóð þó að húsið væri fullt af aukakrökkum. Alltaf að hlúa að.
Hvað allt varð grárra eftir að þau fluttu til Reykjavíkur en birti yfir þegar þau komu heim.
Palli að sinna listinni og hugsa um mömmu sína sem hugsaði um hann.
Hlýju hendurnar hennar þegar komið var inn úr nepjunni í Borgarnesi inn í Brákarhlíð.
Það eru til ótal myndir af kraftakörlunum okkar á Húsafelli með kvíahelluna í fanginu en færri af matargerð, þvottum og þrifum sem krafðist ekki síður ofurkrafta. Hlýja, þolinmæði, umönnun, uppeldi, gæska og kímnigáfa lifa á myndum og í minningum um elsku Ástu.
Heimurinn verður tómlegri núna en næstum því 100 ára ævi Ástríðar Þorsteinsdóttur hefur sett sitt mark á gömlu sporin sem strákarnir hennar ásamt fleirum kappkosta að varðveita heima á Húsafelli.
Það held ég að sé leikið sér á stjörnunni.
Ingibjörg Kristleifsdóttir.