Lög „Í frjálsu samfélagi er ekki valkvætt […] að fara að lögum.“
Lög „Í frjálsu samfélagi er ekki valkvætt […] að fara að lögum.“
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Pólitísk hugmyndafræði veitir engum rétt til að víkja lögum til hliðar – hvorki ráðherrum né öðrum. Við erum samfélag laga, ekki geðþótta og skipana.

Óli Björn Kárason

Það er ekki alltaf einfalt eða auðvelt að vera stjórnarþingmaður. Þegar ríkisstjórn Vinstri-grænna, Framsóknar og Sjálfstæðisflokks var mynduð undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur árið 2017 var mér ljóst að oft myndi reyna á þolrif flestra þingmanna flokkanna. Annað væri óeðlilegt og jafnvel óheilbrigt þegar mynduð er ríkisstjórn þvert yfir hið pólitíska leiksvið.

Átta dögum áður en ríkisstjórnin tók formlega við völdum sagði ég meðal annars í pistli hér í Morgunblaðinu:

„Sanngjarnar málamiðlanir eru forsenda þess að ólíkir stjórnmálaflokkar og pólitískir andstæðingar taki höndum saman, en það er til lítils að hefja samstarf ef trúnaður og traust er ekki fyrir hendi. Þegar og ef fulltrúar andstæðra póla í íslenskum stjórnmálum ákveða að gerast samverkamenn eru þeir að gefa fyrirheit um að takast sameiginlega á við það ófyrirséða – leysa verkefni og vandamál sem alltaf koma upp og allar ríkisstjórnir þurfa að glíma við, með misjöfnum árangri. Flokkssverðin eru slíðruð og vopnahlé samið um hríð.“

Trúnaður og traust voru og eru forsendur fyrir samvinnu þessara ólíku flokka. Þetta endurtók ég eftir kosningarnar 2021 þegar unnið var að endurnýjun samstarfsins:

„Fáum getur dulist að í mörgum málum er langt á milli stjórnarflokkanna. Brúarsmíðin verður flókin og krefst útsjónarsemi og lagni smiðsins. Sá trúnaður og traust sem ríkt hefur á milli forystumanna stjórnarflokkanna hjálpar.“

Ráðherra grefur undan ríkisstjórn

Undir lok júní á liðnu ári tók matvælaráðherra einhliða ákvörðun, með útgáfu reglugerðar, um að stöðva tímabundið veiðar á langreyðum. Ákvörðunin kom eins og þruma úr heiðskíru lofti enda tekin nokkrum klukkutímum áður en veiðar áttu að hefjast.

Ég, líkt og margir aðrir, hélt því fram að ráðherra hefði gengið gegn lögum, ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni eða gætt meðalhófs – ekki fylgt sanngjarnri og hófsamri stjórnsýslu. Brotið gegn stjórnarskrárvörðum atvinnuréttindum og í engu hugað að þeim mikla fjárhagslega skaða sem ákvörðunin valdi á annað hundrað starfsmönnum og fjölskyldum þeirra. Andmælaréttur virtur að vettugi og fyrirvarinn enginn.

Gagnrýnin á stjórnsýslu ráðherrans hafði ekkert með afstöðu til hvalveiða að gera, heldur valdbeitingu ráðherra þvert á lög og ráðleggingar sérfræðinga ráðuneytisins.

Í áliti sem birt var í síðustu viku staðfestir umboðsmaður Alþingis í öllum meginatriðum þá hörðu gagnrýni sem beint var að matvælaráðherra.

Í pistli 5. júlí hélt ég því fram að ráðherrann hefði „kastað blautri tusku í andlit allra þingmanna samstarfsflokka ríkisstjórnarinnar“ og það væri „pólitískur barnaskapur að halda að slíkt hafi ekki áhrif á samstarfið innan ríkisstjórnarinnar“. Framgangan bæri þess merki að lítill skilningur væri á mikilvægi þess að taka tillit til sjónarmiða samstarfsflokkanna:

„Varla er hægt annað en komast að þeirri niðurstöðu að um beina ögrun sé að ræða við ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur. Með öðrum orðum; matvælaráðherra hefur gert atlögu að samstarfi ríkisstjórnarflokkanna. Og þar með veikt ríkisstjórnina og grafið undan möguleikum hennar til að leysa erfið verkefni á komandi mánuðum.“

Mér, eins og mörgum öðrum, var misboðið og því fullyrti ég að traust milli matvælaráðherra og stjórnarþingmanna væri lítið og það hefði áhrif á samstarfið á komandi mánuðum.

Gefur lítið fyrir álit

Matvælaráðherra segist taka álit umboðsmanns alvarlega en ætlar að sitja sem fastast. Engu skiptir þótt lögum hafi ekki verið fylgt og meðalhófsregla brotin. Ráðherrann telur sig þvert á móti hafa breytt rétt enda lög um hvalveiðar úrelt! Eini lærdómurinn sem ráðherrann virðist draga af áliti umboðsmanns og harðri gagnrýni frá öðrum, er að beita sér fyrir því að „þessi úreltu lög séu færð til nútímans“.

Sem sagt: Matvælaráðherra telur réttlætanlegt að ganga gegn lögum, meðalhófsreglu og stjórnarskrárbundnum réttindum, vegna þess að í gildi séu, að hans mati, úrelt lög sem þurfi að breyta – uppfæra til nútímans!

Enginn – hvort sem viðkomandi er fylgjandi eða andvígur hvalveiðum – getur sætt sig við að ráðherra fari með valdheimildir sínar með þeim hætti sem matvælaráðherra hefur gert. Í frjálsu samfélagi, sem byggt er á lögum, er það ekki valkvætt fyrir ráðherra að fara að lögum, virða meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar eða stjórnarskrárbundin réttindi. Pólitísk hugmyndafræði veitir engum rétt til að víkja lögum til hliðar – hvorki ráðherrum né öðrum. Við erum samfélag laga, ekki geðþótta og tilskipana.

Ekki verður séð hvernig ráðherra, sem virðir ekki gildandi lög vegna þess að hann telur þau úrelt eða þau samræmist ekki eigin pólitískum áherslum, geti gert kröfu til þess að starfa í skjóli Sjálfstæðisflokksins. Ráðherra sem hunsar eindreginn vilja meirihluta stjórnarþingmanna nýtur hvorki trausts né trúnaðar. Aðeins pólitískir einfeldningar geta talið sér trú um annað.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Höf.: Óli Björn Kárason