Mótmæli Mótmælendur töldu sig hafa afnotaleyfi frá upphafi.
Mótmæli Mótmælendur töldu sig hafa afnotaleyfi frá upphafi. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Aðstandendur þeirra mótmæla sem nú standa yfir við Austurvöll í Reykjavík töldu sig hafa fengið leyfi hjá Reykjavíkurborg fyrir rafmagnsnotkun. Mótmælin beinast gegn meintu aðgerðaleysi íslenskra stjórnvalda í tengslum við fjölskyldusameiningar Palestínumanna sem eiga um sárt að binda

Sonja Sif Þórólfsdóttir

Atli Steinn Guðmundsson

Aðstandendur þeirra mótmæla sem nú standa yfir við Austurvöll í Reykjavík töldu sig hafa fengið leyfi hjá Reykjavíkurborg fyrir rafmagnsnotkun. Mótmælin beinast gegn meintu aðgerðaleysi íslenskra stjórnvalda í tengslum við fjölskyldusameiningar Palestínumanna sem eiga um sárt að binda.

Greint var frá því í gær að deildarstjóra afnota og eftirlits hjá Reykjavíkurborg, Björgvini Sigurðssyni, hefði ekki verið kunnugt um að mótmælendur hefðu tengt rafmagnskapal í viðburðaskáp á vegum borgarinnar á Austurvelli. Þeir hefðu ekki sótt formlega um afnotaleyfi fyrr en í gær.

Notað rafmagn úr skápnum frá upphafi mótmælanna

Askur Hrafn Hannesson, aðgerðasinni og einn þeirra sem standa að skipulagningu mótmæla Palestínumanna sem tjalda á Austurvelli, segir mann á vegum Reykjavíkurborgar hafa aðstoðað mótmælendur við að tengjast viðburðaskápnum við upphaf mótmælanna. Því hafi mótmælendur talið sig hafa fengið leyfi hjá borginni. Í símtali til skrifstofu Reykjavíkurborgar hafi þeim verið tjáð að ekki yrðu gerðar athugasemdir við rafmagnsnotkunina.

„Við héldum að það væri ekkert því til fyrirstöðu að við notuðum rafmagnið fyrst maður frá borginni kom og setti þetta upp fyrir okkur,“ sagði Askur í samtali við mbl.is í gær.

Telur hann málið því byggt á misskilningi milli mótmælenda og borgarinnar. Björgvin sagði í samtali við mbl.is að umsóknin yrði skoðuð í dag og afgreidd í samræmi við hið venjulega kerfi.

Höf.: Sonja Sif Þórólfsdóttir