Stjórnendur Rickmansworth Canal Festival hafa tekið þá ákvörðun að aflýsa hátíðinni í ár. Þessu greinir BBC frá. Ástæðan er sú að asbestmengun á hátíðarstaðnum reyndist mun meiri en ráð hafði verið fyrir gert sem leiddi til þess að héraðsstjórn svæðisins ákvað að ekki mætti hrófla við jarðveginum á staðnum. Skipuleggjendur hátíðarinnar segja að það þýði að ekki verði hægt að koma upp hátíðartjöldum og þeim fimm sviðum sem árlega eru nýtt til tónleikahalds, nema með verulegum tilkostnaði sem hátíðin geti ekki staðið undir. Af þeim sökum sjái þeir ekki annan kost í stöðunni en að aflýsa hátíðinni.
Rickmansworth Canal Festival er umfangsmesta vatnahátíðin í Bretlandi og hefur verið haldin í 30 ár. Hún er haldin við vötn sem urðu til þegar grafið var eftir möl til að byggja hinn upphaflega Wembley-leikvang á þriðja áratug síðustu aldar. Vitað er að í stað malarinnar var sett asbest, en ekki eru til neinar heimildir um nákvæmlega hvar asbestið var notað eða í hve miklu magni. Nýleg rannsókn bendir til þess að asbestið hafi verið grafið niður víða á svæðinu og sé nú komið nærri yfirborðinu.