Mótmæli Forsætisráðherra sést hér taka í hönd á mótmælanda fyrir utan Ráðherrabústaðinn við Tjarnargötu. Hópurinn vill fjölskyldusameiningar.
Mótmæli Forsætisráðherra sést hér taka í hönd á mótmælanda fyrir utan Ráðherrabústaðinn við Tjarnargötu. Hópurinn vill fjölskyldusameiningar. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Nokkur fjöldi fólks kom saman utan við Ráðherrabústaðinn við Tjarnargötu í miðbæ Reykjavíkur til að mótmæla því sem það kallar sinnuleysi stjórnvalda í fjölskyldusameiningum fólks frá Gasasvæðinu. Á sama tíma standa tjaldbúðir Palestínuaraba á…

Nokkur fjöldi fólks kom saman utan við Ráðherrabústaðinn við Tjarnargötu í miðbæ Reykjavíkur til að mótmæla því sem það kallar sinnuleysi stjórnvalda í fjölskyldusameiningum fólks frá Gasasvæðinu. Á sama tíma standa tjaldbúðir Palestínuaraba á Austurvelli og það þrátt fyrir að slíkt sé með öllu óheimilt samkvæmt lögreglusamþykkt Reykjavíkur.

Þegar ráðherrar í ríkisstjórn Íslands gengu til fundar við Tjarnargötu mátti heyra mótmælendur kyrja slagorð á borð við „Börnin á Gasa eru okkar börn“. Skammt frá fylgdist hópur lögreglumanna með og gætti þess að allt færi friðsamlega fram.

Forsætisráðherra „svikari“

Mótmælendur gerðu þó fleira en að kyrja slagorð, þeir báru einnig fána Palestínu og spjöld með ýmsum áletrunum á. Þannig hélt t.a.m. ein kona á spjaldi sem á stóð „Katrín, þú ert svikari“ og önnur, sem jafnframt bar ungbarn framan á sér, hélt á spjaldi sem á stóð „Barnamorða ráðherra!“. Hugsanlega var það vísun í mennta- og barnamálaráðherra ríkisstjórnar, þó það sé ekki alveg ljóst.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra gekk á einum tímapunkti út fyrir dyr Ráðherrabústaðarins, heilsaði upp á mótmælendur og tók í höndina á einhverjum þeirra, líkt og sjá má á meðfylgjandi mynd. Einnig var tveimur mótmælendum, þ.e. formanni félagsins Ísland-Palestína og karlmanni sem fyrir fimm árum flúði frá Palestínu, boðið inn í bústaðinn. Þá má gera ráð fyrir því að tjaldbúðir mótmælenda við Austurvöll standi þar áfram.