Söngspírurnar Íris er fremst til vinstri og Katrín Halldóra til hægri en Einar Bjartur á milli þeirra.
Söngspírurnar Íris er fremst til vinstri og Katrín Halldóra til hægri en Einar Bjartur á milli þeirra.
Kvennakórinn Söngspírurnar verður með tónleika í Grafarvogskirkju nk. laugardag, 13. janúar, í tilefni tíu ára starfsafmælis kórsins. Katrín Halldóra Sigurðardóttir leik- og söngkona verður gestasöngvari

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Kvennakórinn Söngspírurnar verður með tónleika í Grafarvogskirkju nk. laugardag, 13. janúar, í tilefni tíu ára starfsafmælis kórsins. Katrín Halldóra Sigurðardóttir leik- og söngkona verður gestasöngvari.

„Hlæja sumar konur eins og hafið?“ er yfirskrift tónleikanna, sem hefjast klukkan 16.00, en á efnisskrá verða íslenskar og erlendar dægurperlur. „Við blöndum saman poppi og klassík,“ segir Íris Erlingsdóttir, stofnandi Söngspíranna og kórstjóri, en miðasala er á netinu (tix.is).

Íris stofnaði Karlakór Grafarvogs 2011 og hefur verið stjórnandi hans alla tíð. „Mig langaði til þess að stjórna karlakór,“ upplýsir hún um framtakið, en sennilega er hún fyrsta konan til að stofna karlakór á Íslandi og þó víðar væri leitað. Þremur árum síðar stofnaði hún Söngspírurnar og komu þær fyrst fram á vortónleikum Karlakórs Grafarvogs í Grafarvogskirkju í apríl 2014. „Ég stofnaði Söngspírurnar 15. janúar, á afmælisdegi föður míns, Erlings Vigfússonar, sem var óperusöngvari og söng við óperuna í Köln í Þýskalandi allan sinn feril.“

Íris var stjórnandi starfsmannakórs Reykjalundar, Reykjalundarkórsins, um árabil. Þegar hann var lagður niður vildu tíu konur halda áfram. „Þær hvöttu mig til að stofna nýjan kór og við gerðum það.“

Skemmtilegar tengingar

Yfir 30 konur frá 20 upp í 70 ára eru í Söngspírunum, þar af flestir stofnendanna. Íris segir sérstakar, skemmtilegar tengingar einkennandi fyrir kórinn. „Við erum með systur, frænkur, mágkonur, svilkonur, vinkonur og vinnufélaga.“

Lög sem Elly Vilhjálms söng hafa verið vinsæl hjá kórnum og því fannst konunum tilvalið að fá Katrínu Halldóru til að syngja á afmælistónleikunum. „Þetta er skemmtileg tenging,“ segir Íris. Einar Bjartur Egilsson er píanóleikari kórsins. Á tónleikunum eru Jens Sigurðsson gítarleikari, Árni Ólafsson bassaleikari og Sigurður Kr. Jensson trommuleikari einnig meðleikarar.

Kórinn æfir á miðvikudagskvöldum og eru allar söngelskar konur velkomnar. „Sönggleðin verður að vera til staðar og metnaður fyrir söngstarfinu,“ segir Íris. Ekki sé gerð krafa um nótnalestur heldur áhersla lögð á gleði, jákvæðni og bjartsýni. „Við erum alltaf með árlegar kórbúðir í Skálholti eina helgi síðla vetrar og þá blöndum við saman söng, gleði og gríni,“ heldur hún áfram. Þessar samverustundir hristi hópinn mjög vel saman. „Það sem gerir líka kórstarfið skemmtilegt fyrir báða kórana er að þeir syngja stundum saman, næst í Grafarvogskirkju 30. apríl, og þá verður úr um 60 manna kór, einn stærsti blandaði kór landsins. Þá syngjum við lög fyrir blandaðan kór sem er góð reynsla fyrir báða kórana.“