Enska húsið við Langá á Mýrum er endurgert í gömlum stíl. Hönnuður er Hálfdán Pedersen.
Enska húsið við Langá á Mýrum er endurgert í gömlum stíl. Hönnuður er Hálfdán Pedersen.
Hin sögufrægu veiðihús Ensku húsin verða opnuð undir nýju nafni upp úr næstu mánaðamótum eftir gagngerar endurbætur. Húsin standa við Langá á Mýrum, um sjö kílómetra vestur af Borgarnesi. Fjárfestirinn Birgir Þór Bieltvedt og eiginkona hans Eygló…

Hin sögufrægu veiðihús Ensku húsin verða opnuð undir nýju nafni upp úr næstu mánaðamótum eftir gagngerar endurbætur. Húsin standa við Langá á Mýrum, um sjö kílómetra vestur af Borgarnesi.

Fjárfestirinn Birgir Þór Bieltvedt og eiginkona hans Eygló Björk Kjartansdóttir keyptu húsin fyrir rúmu ári, en í sextíu ár þar á undan voru húsin í eigu fjölskyldu Ragnheiðar G. Jóhannesdóttur og Stefáns Ólafssonar á Litlu-Brekku.

Birgir segir í samtali við ViðskiptaMoggann að þau hjónin eigi landið Langárfoss og Ensku húsin séu á miðri jörðinni.

„Við erum að koma húsunum í stand og fengum til liðs við okkur innanhússhönnuðinn Hálfdán Pedersen. Hann er þekktur fyrir að hafa hannað Kjarvalsstofu, Kex hostel og veitingastaðinn Snaps m.a.“ segir Birgir.

Hann segir að Ensku húsin, sem heita munu Enska húsið eftir endurbæturnar, séu endurgerð í gömlum stíl.

„Við tókum allt í gegn, endurnýjuðum rafmagn, hita og vatnskerfi. Við keyptum einnig gamla muni, húsgögn og gólffjalir til að koma húsinu í gamaldags en mjög vandaðan stíl í anda Hálfdáns.“

Ensku húsin eru eitt elsta veiðihús landsins. „Við vildum halda sjarmanum og þessari sögu sem fylgt hefur húsinu,“ útskýrir Birgir.

Eins og fyrr segir verður að öllum líkindum tekið á móti fyrstu gestunum um næstu mánaðamót. „Húsið verður boðið til leigu fyrir hvern sem er en auðvitað hentar það líka vel sem veiðihús fyrir þá sem eru að veiðum í Langá. Við nýtum til dæmis gamla vöðluherbergið. Markhópurinn verður helst erlendir ferðamenn en húsið verður einnig nýtt af okkur fjölskyldunni til einkanota.“

Enska húsið mun leigjast í heild, enda orðið eitt hús eftir endurbæturnar. „Við erum búin að fækka herbergjum og stækka önnur á sama tíma. Þetta verður hið glæsilegasta hús með sjö tveggja manna herbergjum, öllum með baðherbergi. Til viðbótar eru þrjú aukaherbergi sem deila baðherbergjum,“ segir Birgir að lokum.