Klerkastjórnin í Íran, helsti bandamaður hryðjuverkasamtakanna Hamas, Hesbolla og Húta, heldur sínu striki í kúgun almennings í landinu. Fyrir rúmu ári lést ung kona, Mahsa Amini, í vörslu lögreglu, en hún hafði verið handtekin fyrir þann „glæp“ að neita að bera höfuðklút.
Nú hefur íranskur dómstóll dæmt söngvarann Mehdi Yarrahi í fangelsi og til 74 vandarhögga, fyrir að hafa gefið út lag þar sem fram kom gagnrýni á skyldu kvenna til að bera höfuðklúta. Yarrahi var handtekinn í ágúst síðastliðnum fyrir að hafa gefið út „ólöglegt lag“ þar sem „siðir og venjur íslamsks þjóðfélags“ voru gagnrýnd. Talið er að auk vandarhögganna þurfi hann að sitja inni í heilt ár.
Mikil mótmæli brutust út í landinu eftir dauða Amini og létust hundruð og þúsundir voru handteknar. Með þessari hörku tókst stjórnvöldum að lokum að berja mótmælin niður og ætla bersýnilega ekki að gefa neitt eftir í baráttunni gegn almenningi, en margir Íranar vilja eðli máls samkvæmt ráða því hverju þeir klæðast, auk þess að njóta annarra sjálfsagðra réttinda sem ekki eru virt í landinu.
Á sama tíma og klerkarnir kúga landa sína ýta þeir undir ófrið í nágrannaríkjum sínum og er nýjasta dæmið hryllingurinn sem Hamas stóð fyrir í Ísrael í október síðastliðnum og sá ófriður sem nú ríkir á Gasa, auk hryðjuverka Hesbollah og Húta. Hesbollah sendir sprengjur yfir landamærin til Ísraels og Hútar reyna það sama, auk þess að ráðast að skipum og trufla þar með flutninga á heimsvísu.
Furðulegt er hve lítil gagnrýni beinist frá íbúum og stjórnvöldum á Vesturlöndum í garð klerkastjórnarinnar, sem er helsta rót vandans í Mið-Austurlöndum.