Dagur kveður ekki aðeins sáttur, heldur stoltur

Í Silfri Ríkisútvarpsins á mánudagskvöld var notalegt viðtal við fráfarandi borgarstjóra sem sagðist skila „góðu búi“ sem hann væri „stoltur af“. Eitt af því sem hann er sérstaklega stoltur af eru fjármál borgarinnar, en í þætti Dagmála í liðinni viku afgreiddi einn viðmælandinn þau með þeim orðum að Reykjavík væri gjaldþrota, sem er að minnsta kosti nær lagi en að tala um gott bú.

Dagur B. Eggertsson er búinn að stýra borginni um það bil frá árinu 2010 þegar hann starfaði í skjóli Besta flokksins, en eins og hann benti á í fyrrnefndu viðtali hefur sama hugmyndafræði ríkt síðan þó að hjálpardekk hafi tekið breytingum. Tekjur borgarinnar hafa vaxið töluvert á þessu tímabili, úr 61 milljarði króna í 156 milljarða, eða um 156%. Vandinn er hins vegar sá að skuldirnar hafa vaxið um 263% ef horft er til ársloka 2022 og enn meira ef horft er til stöðunnar við lok þriðja fjórðungs í fyrra, en á fyrstu níu mánuðum ársins jukust skuldir borgarsjóðs um 24 milljarða króna og höfðu því ríflega fjórfaldast frá því að Dagur tók við stjórninni. Skuldaaukningin hefur verið minni á öllu tímabilinu ef horft er á samstæðu borgarinnar, en þó vaxið um nær 170 milljarða króna og fer sú skuldaaukning vaxandi. Á fyrstu níu mánuðum ársins í fyrra hækkuðu skuldirnar um 36 milljarða króna, eða um 4 milljarða á mánuði.

Skuldasöfnun borgarinnar er í raun stjórnlaus um þessar mundir sem sést meðal annars á því að borgin hefur ítrekað átt afar erfitt með að fjármagna sig á markaði. Þar starfa þeir sem vel þekkja til fjármála og sjá að í mikið óefni stefnir, hvað sem stolti borgarstjóra líður.

Borgarstjórinn fráfarandi er líka stoltur af uppbyggingu borgarinnar og telur að aldrei hafi verið byggt upp í Reykjavík sem nú. Staðreyndin er þó sú að mikill húsnæðisskortur hefur verið viðvarandi í borginni sem skýrist af því að meirihlutinn, nú sem fyrr, hefur þráast við að byggja upp á þeim svæðum þar sem fljótlegast og hagkvæmast er að byggja nýtt húsnæði. Þess í stað er áherslan eingöngu á þéttingu byggðar, sem er orðin óhófleg eins og sjá má meðal annars á himinháu húsnæðisverði, fækkun bílastæða, þrengingu gatna og öngþveiti í umferðinni kvölds og morgna – og jafnvel um miðjan dag núorðið.

Margt annað fyllir borgarstjóra stolti, meira að segja leikskólamálin, sem hann telur sig af lítillæti hafa sett á dagskrá þó að hann viðurkenni með semingi að ekki hafi verið staðið við öll loforðin í þeim efnum.

Líklegt má telja að borgarbúar klóri sér í kollinum við að heyra þessar lýsingar, því að þó að það standi ekki í borgarstjóra að útskýra ágæti starfa sinna er hætt við að þeir kannist lítið við þau miklu afrek sem hann telur sig hafa unnið.