Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, segir mögulegt að ná tökum á orkuskorti með réttum ákvörðunum. Vinna þurfi hratt og vel.
Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, segir mögulegt að ná tökum á orkuskorti með réttum ákvörðunum. Vinna þurfi hratt og vel.
Veikar tengingar milli Norðurlands og suðvesturhorns landsins ollu því að þjóðarbúið varð af fimm milljörðum króna fyrir tveimur árum. Margt bendir til þess að áþekk staða sé að koma upp nú og nemur þá uppsafnað tap vegna þessa veikleika 10 milljörðum króna

Veikar tengingar milli Norðurlands og suðvesturhorns landsins ollu því að þjóðarbúið varð af fimm milljörðum króna fyrir tveimur árum. Margt bendir til þess að áþekk staða sé að koma upp nú og nemur þá uppsafnað tap vegna þessa veikleika 10 milljörðum króna.

Þetta segir Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, í viðtali í Dagmálum á mbl.is í dag.

„Ef við hefðum haft þessa tengingu sterkari hefðum við getað komið í veg fyrir þetta ástand. Þá hefðum við getað hagrætt í rekstrinum og flutt yfir lengri tíma, það vissu allir í hvað stefndi, vatnsárið var slæmt. Flutt orku, framleitt meiri orku fyrir norðan og austan og sparað meira virkjanir fyrir sunnan. Fyllt þá betur í lónin og verið betur í stakk búin til að takast á við ástandið,“ segir Guðmundur.

Bendir hann á að hvorki Blönduvirkjun né Fljótsdalsstöð séu keyrðar á fullum afköstum vegna þess hversu veikt flutningskerfið er. Það sé bagalegt, nú þegar orkuskortur er orðinn viðvarandi á landi. Landsnet var raunar langt á undan öðrum í að benda á að þessi skortur yrði að veruleika. Guðmundur segir að fyrirtækið hafi lengi talað fyrir daufum eyrum en það hafi breyst mjög hratt á síðustu vikum og mánuðum.

Með styrkingu flutningskerfisins myndi það efla orkuframleiðslu í landinu svo um munar. Segir Guðmundur að aflaukningin myndi jafngilda því að nýrri virkjun, á stærð við þá sem rekin er í Svartsengi, væri bætt inn á kerfið.

Í viðtalinu er Guðmundur spurður út í leyfisveitingaferli sem eru gríðarlega flókin og kostnaðarsöm. Viðurkennir hann að það geti tekið áratugi að koma tilteknum framkvæmdum í gegn en nú hafi nokkurt starf verið unnið í að einfalda kerfið. Telur hann að það geti skilað sér í að framkvæmdahraði aukist. Samkomulag við öll sveitarfélögin sem fyrirhuguð Suðurnesjalína mun liggja um.

Spurður hvort íslenskt samfélag sé í færum til að koma sér út úr núverandi ástandi sem einkennist af orkuskorti kveður við jákvæðan tón hjá Guðmundi.

„Ég held að við komum okkur út úr þessu. Ég held að við séum smám saman að nálgast þessar umdeildu framkvæmdir […]“ Vísar hann þar m.a. í þær virkjanir sem skilgreindar hafa verið í nýtingarflokk samkvæmt rammaáætlun. En þar eru einnig flutningsmannvirkin ekki síður. Á það m.a. við um Suðurnesjalínu og virkjanaframkvæmdir á leiðinni til Akureyrar.

Ítarlegt viðtal við Guðmund má nálgast á mbl.is eða með því að skanna kóðann hér að neðan.