Kolbrún segir það skýrt að aðildarfélög BHM muni ekki sætta sig við flatar krónutöluhækkanir og framlengingu lífskjarasamningsins.
Kolbrún segir það skýrt að aðildarfélög BHM muni ekki sætta sig við flatar krónutöluhækkanir og framlengingu lífskjarasamningsins. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Kolbrún Halldórsdóttir hefur verið áberandi í íslensku lista- og stjórnmálalífi og sinnt þar fjölbreyttum störfum. Fyrr á þessu ári varð hún formaður BHM og hefur í nógu að snúast enda gerð kjarasamninga að komast á fulla ferð

Kolbrún Halldórsdóttir hefur verið áberandi í íslensku lista- og stjórnmálalífi og sinnt þar fjölbreyttum störfum. Fyrr á þessu ári varð hún formaður BHM og hefur í nógu að snúast enda gerð kjarasamninga að komast á fulla ferð.

Hverjar eru helstu áskoranirnar í rekstrinum þessi misserin?

Nú eru kjarasamningar á næsta leiti á opinbera vinnumarkaðnum og mun það einkenna allt okkar starf hjá BHM á næstunni. Það dylst engum að aðstæður í efnahagslífinu eru afar krefjandi og það er forgangsverkefni allra að ná niður vöxtum og verðbólgu. Að ýmsum skilyrðum uppfylltum getum við vonandi skrifað undir langtímasamninga um kaupmáttaraukningu og stöðugleika á vordögum. En það getur aldrei gerst nema opinberi markaðurinn og hinn almenni leiti lausna í sameiningu, vitrænna lausna í skynsamlegu samtali. Það er t.a.m. alveg skýrt að aðildarfélög BHM munu ekki sætta sig við flatar krónutöluhækkanir og framlengingu lífskjarasamningsins. Það myndi þýða áframhaldandi kaupmáttarrýrnun fyrir stóran hluta millistéttarinnar meðan kjör annarra yrðu bætt.

Hver var síðasta ráðstefnan sem þú sóttir?

Það var norrænn þríhliða viðburður um réttlát græn umskipti 1. desember sl. í Hörpu, lokaviðburður á formennskuári Íslands í Norrænu ráðherranefndinni. Aðilar að viðburðinum voru norræn stjórnvöld ásamt heildarsamtökum atvinnurekenda og launafólks á Norðurlöndunum. Fjallað var um hlutverk þessara aðila við innleiðingu ákvæða heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um réttlát græn umskipti á vinnumarkaði, sameiginlega ábyrgð og nauðsyn þess að eiga í stöðugu samtali um framgang þessa mikilvæga verkefnis.

Í síðustu viku fylgdist ég svo með, í streymi, málþingi um alþingiskafla stjórnarskrárinnar og mögulegar lagfæringar á honum. Þar kom vel fram hvernig þvermóðska og íhaldssemi tiltekinna stjórnmálaafla hefur áratugum saman komið í veg fyrir að skynsamlegar breytingar séu gerðar á stjórnarskránni okkar. Í þeim efnum verðum við augljóslega enn um sinn föst í óviðráðanlegri blindgötu.

Hver hefur haft mest áhrif á hvernig þú starfar?

Í raun er samstarfsfólk mitt á hverjum tíma mínir mikilvægustu áhrifavaldar, en þegar horft er yfir sviðið og skoðaðir lífskúnstnerarnir sem ég hef ýmist verið í kynnum við eða lesið gegnum tíðina, þá verð ég að fá að nefna nokkur nöfn. Í leiklistinni myndu það vera Bertold Brehct og finnsku leikstjórarnir Ritva Siikala og Ralf Långbacka, mig langar líka að nefna Siguð Pálsson skáld, í pólitíkinni Hjörleifur Guttormsson og Kristín Halldórsdóttir, í kvennapólitík og femínisma nöfnurnar Guðrún Jónsdóttir yngri og Guðrún Jónsdóttir eldri, í andlegum efnum Gloria Karpinski og í mínu núverandi starfi hlýt ég að nefna hinn framsækna hagfræðing Mariana Mazzucato.

Hugsarðu vel um líkamann?

Já, ég syndi á hverjum morgni ýmist í Vesturbæjarlauginni eða Sundhöllinni, reyni að fara ekki minna en einn kílómetra á dag. Svo gerum við sundfélagarnir Möllers-æfingar á bakkanum eftir átökin í vatninu. Ég hef líka verið nokkuð dugleg að stunda Pilates-tíma í Kramhúsinu og ég hjóla mikið, reyni að fara flestra minna ferða á reiðhjóli nema yfir hávetrartímann.

Hvert væri draumastarfið ef þú þyrftir að finna þér nýjan starfa?

Þó ég gefi mig alla í hvert starf og hafi fjölbreytt áhugasvið þá er draumastarfið fyrr og síðar leikstjórn, það breytist aldrei, leikhúsið hættir aldrei að toga. Meðan ég var þingmaður notaði ég t.d. allan minn frítíma til að vinna í leikhúsi og hver veit nema ég taki aftur upp þráðinn þegar formennsku minni í BHM sleppir.

Hvaða lögum myndirðu breyta ef þú værir einráð í einn dag?

Mikilvægast af öllu er að breyta stjórnarskránni, sem er grundvöllur annarrar lagasetningar. Svo gæti ég hugsað mér að breyta lögunum um opinber fjármál m.a. til að tryggja betri eftirfylgni varðandi stefnumótun í einstökum málaflokkum. Þá myndi ég bæta ákvæði um þjóðaróperu inn í lög um sviðslistir og styrkja ákvæði um opinber hlutafélög í hlutafélagalögunum. Ljóst er einnig að breyta þarf lögum um Menntasjóð námsmanna og lögum um listamannalaun. Annars er ágætt ef til vill að ég sé ekki einráð þar sem ég er rétt að byrja á upptalningunni!

Ævi og störf:

Nám: Verslunarpróf frá VÍ 1973; útskrifast frá Leiklistarskóla Íslands 1978; viðbótardiplóma á meistarastigi í opinberri stjórnsýslu frá HÍ 2015; fjöldi námskeiða í leiklist, leikstjórn, tungumálum og skapandi stjórnsýslu.

Störf: Leikari, leikstjórn, dagskrárgerð og stjórnandi menningarviðburða 1978 til 1999 og síðar 2009 til 2022; alþingismaður Reykvíkinga 1999 til 2009; umhverfisráðherra og ráðherra norrænnar samvinnu 2009; forseti Bandalags íslenskra listamanna 2010 til 2018; formaður félags íslenskra leikstjóra 2018 til 2022; varaformaður BHM 2022 til 2023 og formaður frá 2023. Hlaut árið 2008 jafnréttisverðlaun Stígamóta og 2017 riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf í þágu lista og listamanna. Sat m.a. í Þjóðleikhúsráði, stjórn Norrænu menningarstofnunarinnar í Róm og stjórn Íslandsstofu.

Áhugamál: Áhugamál mín eru fjölbreytt og spanna vítt svið. Allt frá umhverfismálum og umhverfisvernd til málefna vinnumarkaðar og opinberrar stjórnsýslu. Listir og menning hafa þó átt hug minn allan síðustu áratugi – bæði þegar kemur að störfum og áhugasviði. Frítíma mínum (sem er af skornum skammti þessa dagana) eyði ég helst í líkams- og sálrækt í Vesturbæjarlauginni að morgni eða með fjölskyldu og vinum að kvöldi.

Fjölskylduhagir: Gift Ágústi Péturssyni kennara og eigum við tvö börn og þrjú barnabörn.